Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 92
90 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 97. árg. 2021
Smokkanotkun ungra karlmanna
... ég reyni að temja mér það að nota hann sem oftast.
Þótt maður geri það ekki alltaf og maður veit ekki af
hverju maður gerir það ekki alltaf. Það er einhvern veginn
eitthvert stundabrjálæði og eitthvað falskt traust kannski,
gagnvart manneskjunni, sem eru náttúrulega brostnar
þegar maður er greindur með kynsjúkdóm.
Athöfnin sterkari en orðin
Í þessu þema verður horft til lýsinga ungu karlmannanna af
þeirri reynslu að tjá sig við kynlífsfélaga með eða án orða um
smokkanotkun. Þessi samskipti reyndust miserfið, margir
lýstu óvissu og fjölmörg dæmi voru um óbein eða jafnvel
engin samskipti. Smokkanotkun var því oftar en ekki ákvörðuð
út frá ályktunum annars eða beggja aðilanna út frá þeim
fáorðu samskiptum.
Engin tjáskipti einkenndust mjög af ályktunum eða fyrir fram
ákveðnum forsendum sem að ungu karlmennirnir gáfu sér um
aðstæður og hinn aðilann og drógu ályktanir um hvort nota
þurfti smokk eða ekki. Þannig var konan oftar en ekki álitin
ábyrg fyrir getnaðarvörnum og gengið út frá því að hún væri á
pillunni: „Maður gerir bara 100% ráð fyrir að hún sé á pillunni
... “. Í frásögnum samkynhneigðra karlmanna komu fram
ályktanir um að smokkanotkun þótti sjálfsögð og því ekki talin
þörf á að ræða hana en það gat þó samt farið eftir hlutverki
hvors aðila í aðstæðunum. Sumir óttuðust neikvæð viðbrögð
kynlífsfélagans: „... svona hræðsla við að fá einhvern svona
skrýtinn svip til baka ...“. Með því að sleppa tjáskiptunum
þá er í hraðri atburðarás hægt að snúa sér beint að sjálfri
athöfninni, þ.e. kynmökunum eins og fram kom í þessari
frásögn: „... hlutirnir gerast það hratt, skilurðu, að maður ...
fattar ekki að stoppa og henda honum á“.
Við óbein tjáskipti reyndu ungu karlmennirnir að fara í
kringum hlutina og ræddu ekki beint um smokkanotkun.
Tjáskiptin voru þá oftar en ekki samofin umræðu um
samþykki fyrir kynmökum og því hvort konan var á pillunni.
Þá var hinn aðilinn spurður óbeinna spurninga sem áttu að
svara til um vilja hans varðandi smokkanotkun eins og hvort
konan væri samþykk því að stunda kynlíf, hvort hún væri á
pillunni, hvort aðilinn vildi setja smokkinn á eða honum boðið
að teygja sig í smokk. Óbein tjáskipti gefa einnig til kynna
mikilvægi þess að koma sér hjá því að ræða málin.
Bein tjáskipti þóttu auðveldari með árunum eftir því sem
sjálfstraustið jókst: „... sé alveg jafnsjálfsagt og hann spyrji
hvort hún vilji stunda kynlíf með honum“. Sumir veigruðu sér
þá ekki við að ræða um smokkanotkun. Einn samkynhneigður
leit á tjáskiptin sem sjálfsagt mál: „... alltaf fyrsta skrefið er
að tala saman“. En það voru færri en fleiri sem höfðu náð
þessum þroska. Einnig var gripið til beinna tjáskipta ef lítill
vilji var til smokkanotkunar eða þegar reynt var að komast hjá
notkuninni.
Þessi lýsing á tjáskiptum gefur til kynna að sá sem ekki tjáir
sig eða á óbeinan hátt er í meiri vafa en sá sem getur tjáð
sig beint. Hann er óöruggari með sjálfan sig, óttast jafnvel
neikvæð viðbrögð frá kynlífsfélaga og finnst auðveldar að
ganga beint til verks.
Óttast að allt fari til fjandans
Í þessu þema koma fram lýsingar ungu karlmannanna af
reynslu þeirra af smokkanotkun. Margt kom fram í frásögnum
þeirra sem benti til þess að sjálf smokkanotkunin gat verið
flókin, valdið þeim hugarangri, áhyggjum og ótta við að allt
færi úrskeiðis. Við það að gera hlé á ástarleiknum til að sækja
smokk gat skapast biðtímabil eða leikhlé sem mismunandi
var hvort ungu karlmönnunum reyndist vandræðalegt eða
ekki. Sumir höfðu þó öðlast öryggi við smokkanotkun og lýstu
jákvæðri reynslu og afstöðu til hennar, sér í lagi ef þeir höfðu
fundið „sinn“ smokk sem hentaði þeim best.
Það að rjúfa augnablikið til að sækja smokkinn, opna
umbúðirnar, taka smokkinn úr umbúðunum setja hann á
og upplifa og viðhalda kynferðislegri tilfinningu og reisn
með smokk gat verið áhyggjuvaldandi, svo mjög að jafnvel
komu fram vísbendingar um kynlífsvanda meðal ungu
karlmannanna. Bæði gagnkynhneigðir sem samkynhneigðir
lýstu því. Við þetta gat orðið hlé á ástarleiknum. Misjafnt var
hvort ungu karlmönnunum fannst leikhléið vandræðalegt eða
ekki. Sumum reyndist nokkuð auðvelt að gera gott úr því. Hjá
þeim sem voru frekar að vandræðast með þetta tímabil kom
fram að: „... þetta biðtímabil ... getur gjörsamlega eyðilagt líka
stemninguna ... “. Önnur frásögn af leikhléinu gefur einnig til
kynna erfiðleika: „... var að leita að smokknum ... það gekk
illa að opna hann ... fór að stressast upp og ... þá fer hann að
slakkna og þá fer allt til fjandans“. Frásögnin lýsir því að það er
mikið í húfi ef kynmökin takast ekki. Auðvelda mátti og stytta
leikhléið með því til dæmis að hafa smokkinn innan seilingar.
Betri upplifunum lýstu þeir sem höfðu notað æfingasmokka
(prófað að nota smokka) áður en að kynmökum kom eins
og fram kemur í eftirfarandi frásögn: „... það virkar mjög
vel og út af því finnst mér ég vera vel undirbúinn“. Góður
undirbúningur skapar greinilega öryggiskennd. Þeir sem
lýstu verri upplifunum höfðu litla reynslu að baki eða voru
jafnvel að stíga sín fyrstu skref í smokkanotkun. Mikilvægt
var að hafa náð fullri reisn áður en smokkur var settur á en
ef leikhlé varð langt gat reynst erfitt að viðhalda reisn: „Það
er frekar vonlaust að setja smokk á þig ef þú ert að flagga í
hálfa ... “. Í þessum orðum felast ákveðin vonbrigði með eigin
kynsvörun. Ungu karlmönnunum gat fundist það spennandi
hluti af ástarleiknum ef hinn aðilinn tók þátt í að setja smokk
á, en öðrum gat fundist það óþægilegt. Hins vegar að taka
smokkinn af var auðvelt og áhyggjulaust.
Margvíslegar frásagnir voru af kynferðislegum tilfinningum
ungu karlmannanna á meðan á kynmökum með smokk
stóð. Voru þær frásagnir af skertri eða minni kynferðislegri
tilfinningu með smokk miðað við kynmök án hans, en einnig
af lítið eða ekkert skertri tilfinningu. Þeir sem lýstu jákvæðri
reynslu höfðu frekar fundið „sinn“ smokk sem að þeir voru
ánægðir með og notuðu að staðaldri. Einn lýsti þessu vel: „Ef
maður er með góðan smokk ... skiptir engu máli, smokkur eða
ekki“. Þá bætti hann við: „... það er svo lítill munur á að vera
með smokkinn að það ... margborgar sig bara að venja sig á
það ... “.
Sumir ungu karlmannanna greindu frá erfiðleikum við að
nota smokk sem tengdist kynlífsvandamálum. Var það
einkum tengt riserfiðleikum. Kynlífsvandi tengt risi gat orðið
í leikhléinu, þegar smokkur var settur á: „... þetta að finna
smokkinn ... getur tekið tíma ... maður getur orðið fljótt