Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 12
10 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 97. árg. 2021
Október var
mánuður heilsulæsis
Heilsulæsi er hugtak sem hefur verið mikið
í deiglunni síðustu tvo áratugi. Það var ekki
fyrr en með útgáfu Heilbrigðisstefnu – stefnu
fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins
2030 sem heilsulæsi var sett á oddinn á
Íslandi. Þar segir að unnt sé að efla heilsulæsi
með markvissu starfi þeirra sem veita
heilbrigðisþjónustu (Heilbrigðisráðuneytið,
2019). Heilsulæsi varðar ekki bara
einstaklingana sjálfa heldur hefur athygli
manna undanfarið beinst í auknum mæli að
heilbrigðiskerfi og stofnunum. Farið er að
tala um heilsulæsar stofnanir en markmið
slíkra stofnana er að auðvelda fólki að finna,
skilja og nota upplýsingar og þjónustu til að
sinna heilsu sinni (Brach og Harris, 2021).
Margar skilgreiningar eru til á hugtakinu heilsulæsi
en flestar eiga þær það sameiginlegt að ná yfir
hæfni einstaklinga til að afla sér upplýsinga, skilja
þær og nýta til eflingar á eigin heilsu. Með þekktari
skilgreiningum sem notaðar eru í dag er skilgreining
Sörensen og félaga (2012) sem sjá undir myndinni
sem fylgir greininni.
Heilsulæsi er mikilvægt fyrir heilsu manna, því
sé það takmarkað er hætta á misskilningi og að
leiðbeiningum heilbrigðisstarfsfólks sé annaðhvort
ekki fylgt eða að þeim sé fylgt á rangan hátt. Lítið
er vitað um heilsulæsi einstaklinga og stofnana á
Íslandi. COVID-19 faraldurinn hefur þó sýnt okkur hve
mikilvægt er að einstaklingar hafi gott heilsulæsi. Þeir
hafa þurft að taka margar ákvarðanir varðandi heilsu
sína í heimsfaraldrinum og greina á milli áreiðanlegra
og villandi upplýsinga sem birtar hafa verið bæði í
fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Höfundar:
Björk Bragadóttir, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Hildur Einarsdóttir, Landspítali
Jóhanna Ó. Eiríksdóttir, Landspítali
Jónína Sigurgeirsdóttir, Reykjalundur
Katrín Blöndal, Landspítali
Margrét Hrönn Svavarsdóttir, Háskólinn Akureyri
Nanna Friðriksdóttir, Landspítali, Háskóli Íslands
Brynja Ingadóttir, Landspítali, Háskóli Íslands
Snemma í sumar veitti Heilbrigðisráðuneytið styrki til
gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu.
Við sem þetta skrifum fengum rausnarlegan styrk
til að hanna námskeið fyrir heilbrigðisstarfsfólk um
heilsulæsi. Markmið námskeiðsins, sem hægt verður
að nota hvar sem er í heilbrigðiskerfinu, er að efla
færni þátttakenda í að meta og bæta heilsulæsi
sjúklinga og stofnana. Með þessu verkefni viljum við
leggja okkar af mörkum til að vinna að innleiðingu
Heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Hjúkrunarfræðingar munu heyra meira frá okkur
í vetur en við stefnum að því að hafa námskeiðið
tilbúið og í boði fyrir hjúkrunarfræðinga og aðra
heilbrigðisstarfsmenn á haustmánuðum 2022.
Áhugasömum er velkomið að senda okkur hugmyndir
og ábendingar varðandi innihald námskeiðsins á
netföngin bjork.bragadottir@heilsugaeslan.is eða
brynjain@landspitali.is
Brach, C., & Harris, L. M. (
2021). Healthy People 2030
health literacy definition tells
organizations: make information
and services easy to find,
understand, and use. Journal of
General Internal Medicine, 36(4),
1084-1085.
Heilbrigðisráðuneytið (2019).
Heilbrigðisstefna - Stefna fyrir
íslenska heilbrigðisþjónustu til
ársins 2030.
Sørensen, K., Van den Broucke, S.,
Fullam, J. et al. Health literacy and
public health: A systematic review
and integration of definitions
and models. BMC Public Health
12, 80 (2012). https://doi.
org/10.1186/1471-2458-12-80
HEIMILDIR
Heilsulæsi tengist almennu læsi og felur í sér þekkingu, áhuga og hæfni til að finna, skilja, meta
og nýta sér heilbrigðistengdar upplýsingar. Það er nauðsynlegt svo fólk geti tekið ákvarðanir um
notkun heilbrigðisþjónustunnar, fyrirbyggingu sjúkdóma og heilsueflingu til að viðhalda eða bæta
lífsgæði (Sørensen o.fl., 2012).
Margar skilgreiningar eru til á hugtakinu heilsulæsi en flestar
eiga þær það sameiginlegt að ná yfir hæfni einstaklinga til að
afla sér upplýsinga, skilja þær og nýta til eflingar á eigin heilsu.
Heilsulæsi