Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 63
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 61
Gerður Jónsdóttir, 2013). Nýleg rannsókn Kristínar Þórar-
insdóttur o.fl., (2020) sem fór fram innan Heilbrigðis-stofnunar
Norðurlands sýndi að vægi þjónandi forystu hjá yfirmönnum
á hjúkrunarsviðum hefur aldrei verið meira. Aðstæður í
heilbrigðiskerfinu geta verið mjög krefjandi og er mikilvægt
að vinnuumhverfið sé hvetjandi og styðjandi við starfsmenn
(Gunnarsdottir, 2014). Sýnt hefur verið fram á að þjónandi
forysta sé árangursríkur stjórnunarstíll (Hanse o.fl., 2016;
Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013)
sem hentar einkum vel innan íslenskrar heilbrigðisþjónustu
(Gunnarsdottir, 2014; Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015).
Stjórnunarstíllinn ýtir undir góð samskipti, traust og virðingu
á milli yfirmanns og starfsfólks. Þjónandi forysta leiðir einnig
af sér aukin afköst í vinnu, aukna starfsánægju og hollustu til
stofnunar. Jafnframt leiðir hún af sér minni starfsmannaveltu
og meiri ánægju með stjórnendur (Gunnarsdóttir, 2014;
Hanse o.fl., 2016). Til að mynda sýndi rannsókn Huldu
Rafnsdóttur o.fl. frá árinu 2015 að starfsfólk Sjúkrahússins á
Akureyri telur þjónandi forystu eiga þátt í því að auka gæði
þjónustunnar og öryggi skjólstæðinga. Almennt virðist svo
vera að starfsfólk heilbrigðisstofnana á Íslandi sé ánægt með
þjónandi stjórnunarhætti og tengi þá við aukna starfsánægju
(Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015; Kristín Þórarinsdóttir o.fl.,
2020; Þóra Gunnarsdóttir, 2019). Sambærilegar niðurstöður
fengust úr annarri íslenskri rannsókn þar sem skoðað var
hvort tengsl væru á milli starfsánægju og þjónandi eiginleika
stjórnenda. Fjögur sjúkrahús á Íslandi tóku þátt í rannsókninni
þar sem flestir þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar, 33%
voru sjúkraliðar og 18% annað starfsfólk. Þátttakendur
svöruðu bæði könnun um þjónandi forystu ásamt nokkrum
spurningum um starfsánægju. Niðurstöður rannsóknarinnar
sýndu að þjónandi forysta er vissulega til staðar í íslensku
heilbrigðiskerfi og sterk tengsl eru á milli þjónandi eiginleika
hjúkrunarstjórnenda og ánægju starfsfólks í starfi. Rannsóknin
styrkir því þá staðhæfingu að þjónandi forysta henti vel
innan heilbrigðiskerfisins (Gunnarsdottir, 2014). Könnun
Sigrúnar Gunnarsdóttur og Birnu Gerðar Jónsdóttur (2013)
bendir þó til að efla þurfi nokkra þætti líkt og siðferði, traust
og fagmennsku hjá stjórnendum sem fylgja hugmyndafræði
þjónandi forystu á Íslandi. Með því að tryggja velferð og
hag þegna sinna getur þjónandi leiðtogi skapað samfélag
sem ýtir undir lýðræði, réttlæti og farsæld í íslenskum
skipulagsheildum (Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður
Jónsdóttir, 2013).
Hjúkrunarfræðingar í klínískri vinnu
Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta heilbrigðisstéttin
á Íslandi og því mikilvæg forsenda þess að hægt sé að
halda uppi öruggu og skilvirku heilbrigðiskerfi. Hjúkrunar-
fræðingar gegna gríðarlega mörgum hlutverkum innan
heilbrigðiskerfisins og er eitt af þeim stjórnunarhlutverk
(Heilbrigðisráðuneytið, 2020), bæði formlegt og óformlegt.
Almennt séð hafa stjórnendur viðeigandi titla. Rannsóknir
hafa þó sýnt að reynslumiklir hjúkrunarfræðingar sem færir
eru í klínískri umönnun sjúklinga séu óformlegir leiðtogar
meðal jafningja sinna (Lawson og Fleshman, 2020).
Booher o.fl. (2021) gerðu eigindlega rannsókn sem fór fram á
tveimur sjúkrahúsum í Bandaríkjunum þar sem rætt var við
20 klíníska hjúkrunarfræðinga. Allir 20 þátttakendurnir höfðu
eiginleika þjónandi stjórnanda í klínískri vinnu sinni, hvort
sem þeir voru meðvitaðir um það eða ekki. Þá niðurstöðu
fengu rannsakendurnir út frá lýsingum hjúkrunarfræðinganna
á starfi sínu, sem töldu upp öll mikilvægustu einkenni
þjónandi stjórnunarhátta. Hjúkrunarfræðingarnir tjáðu að
hlutverk þeirra væri að forgangsraða og úthluta verkefnum,
samræma umönnun og eiga samskipti við og vinna með öðru
starfsfólki og jafnframt að vera forsvarsmenn skjólstæðinga
sinna, hvetja þá áfram og fræða þá. Hjúkrunarfræðingarnir
lýstu því einnig að þeir teldu hlutverk sitt vera að annast
skjólstæðinga sína með sanngirni, auðmýkt og samkennd
(Booher o.fl., 2021). Auk þess eru hjúkrunarfræðingar
kennarar og fyrirmyndir nýliða og veita leiðsögn í starfi
(Heilbrigðisráðuneytið, 2020). Í rannsókninni kom einnig fram
að hjúkrunarfræðingarnir settu almennt þarfir skjólstæðinga
sinna í fyrsta sæti. Gátu borið kennsl á styrkleika annarra í
starfi og fengið viðeigandi aðstoð til að fá sem besta útkomu
fyrir skjólstæðinginn (Booher o.fl., 2021).
Stjórnendur á hjúkrunarsviðum
Hjúkrunarfræðingar fá oft lítinn undirbúning fyrir stjórnunar-
störf innan heilbrigðiskerfisins sem geta verið mjög flókin
og illa afmörkuð (Gunawan o.fl., 2018). Miklar kröfur eru
gerðar til hjúkrunarstjórnenda. Algengt er að þeir hafi of
mörg verkefni sem leiða til mikillar yfirvinnu og erfiðleika
við að samræma einkalíf og vinnu (Sandra Sif Gunnarsdóttir
og Sigríður Halldórsdóttir, 2020). Hjúkrunarfræðingar í
stjórnunarstöðum hafa tjáð að starfinu fylgi gífurleg ábyrgð,
persónuleg skuldbinding og einangrun sem fjarlægi þá frá
klínísku starfi (Cabral o.fl., 2018). Jafnframt hafa þeir tjáð
að mikið álag fylgi starfinu vegna mönnunarvanda og skorti
á stuðningi frá yfirmönnum (Sandra Sif Gunnarsdóttir og
Sigríður Halldórsdóttir, 2020).
Margir persónulegir þættir geta haft áhrif á eða stuðlað að
stjórnunarhæfni hjúkrunarfræðinga líkt og menntunarstig,
reynsla, aldur og persónuleiki. Til að mynda verða stjórnendur
hæfari eftir því sem menntunarstig er hærra og meiri reynsla
er á stjórnunarhlutverki. Samkvæmt módeli Gunawan o.fl.
(2018) felast þó lykilatriðin í skipulagsheildinni og þátta
innan hennar sem hafa áhrif á hæfni hjúkrunarfræðinga
til að stjórna. Þjálfun og handleiðsla geta haft góð áhrif á
þróun stjórnunarhæfni hvort sem hún kemur frá yfirmanni
eða öðrum og ýtir undir starfsánægju og góð samskipti.
Ákjósanleg þjálfun er sveigjanleg, eflandi og hvetur til
lærdóms af mistökum. Mikilvægt er fyrir hjúkrunarfræðinga
að hafa góða fyrirmynd og fá aðlögun inn í starfið. Einnig þykir
mikilvægt að geta átt persónuleg samskipti við yfirmenn, fá
stuðning frá mannauðsteymi og hafa skýra og afmarkandi
starfslýsingu. Mælt er með því að hjúkrunarstjórnendur
setji sér markmið út frá skipulagsheildinni sem þeir tilheyra
og fái reglulega mat á frammistöðu sinni. Getur það líka
haft góð áhrif á stjórnendur að fara á eflingar námskeið (e.
empowerment program) sem eykur sjálfstraust þeirra í starfi
(Gunawan o.fl., 2018).
Starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga í opinberri stjórnunarstöðu
getur verið mjög streituvaldandi (Cabral o.fl., 2018; Sandra
Sif Gunnarsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir, 2020; Sigríður
Halldórsdóttir o.fl., 2016) og eiga þeir hættu á að þróa með
sér streitueinkenni svo sem stoðkerfisverki og svefnvandamál
(Sigríður Halldórsdóttir o.fl., 2016). Samkvæmt rannsókn
Sigríðar Halldórsdóttur o.fl. (2016) hefur meiri hluti
Fræðigrein