Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Side 14
14 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 98. árg. 2022
miklu álagi í svona langan tíma og ég held að það eigi
eftir að koma betur í ljós, það er enginn vafi. Það má
líkja þessu við að fara í stríð, svo kemur fólk til baka
og allt er búið, þá er mjög erfitt að keyra orkuna upp
að nýju. Ég held að helsta áskorunin sé eftir, hún komi
eftir faraldurinn.
Hvernig hvetur þú samstarfsfólk þitt áfram?
Með jákvæðni. Það er ofboðslega gott starfsfólk
sem við erum með hérna á Heilsugæslunni og mér
finnst ég geta treyst því svo vel. Ég er ekki að anda
ofan í hálsmálið á fólki heldur treysti ég því til að
tala saman. Ég ber mikla virðingu fyrir teymisvinnu
og vil hafa teymi í hlutunum. Ég þarf alls ekki að
vita allt og stýra öllu og bara helst ekki. Ég vil
heldur vera leiðbeinandi ef eitthvað vantar og mér
finnst mjög gott að taka þátt sjálf. Ég hef mikið gert
það í COVID-19 verkefnum; ég fer á gólfið og tek
þátt í að bólusetja, blanda lyf, taka sýni og sinni
öðrum aðkallandi verkefnum. Ég hef þá líka betur á
tilfinningunni um hvað málið snýst. Til dæmis um
daginn þegar mörg börn voru í sýnatökum og ég
heyrði á starfsfólki að það væri allt að kikna. Þá fór
ég einn dag á gólfið með þeim og tók þátt og eftir það
veit ég um hvað málið snýst, þetta eru ekki lengur
bara tölur á blaði. Ég get þá sagt við sóttvarnalækni:
„þetta gengur ekki lengur, þetta er ófremdarástand,
við verðum að gera eitthvað.“ Og í kjölfarið var farið í
að taka út allar þessar sýnatökur á börnum.
Það er mikilvægt, þó svo maður sé framkvæmdar-
stjóri að vera líka á gólfinu og vita hvernig hlutirnar
ganga fyrir sig, hvað gengur vel og hvað ekki. Maður
þarf að geta verið alls staðar í lífinu.
Hvernig hlúir þú að starfsfólkinu?
Ég geri örugglega ekki nóg en það deilist líka á alla
fagstjóra í heilsugæslunni, sem eru mjög flinkir að
hrósa sínu fólki. Við hrósum en við höfum náttúrlega
ekkert svigrúm sem ríkisstofnun til að gera eitthvað
annað en að hrósa starfsfólki. Ég finn einnig að það
er vel metið að geta verið jafningi; að vinna með
starfsfólki á gólfinu og að taka þátt í þessu með því.
Hefur starfsandinn eitthvað breyst, þreyta eða
er meiri samheldni nú en áður en faraldurinn
skall á?
Kannski ekki breyst mikið, það er mikið álag og fólk
fer ekki varhluta af því en ég held að það sé meiri
samheldni. Það er svona hvoru tveggja. Því tel ég að
okkar helsta áskorun sé ekki komin enn, hún kemur
eftir COVID. Ég er alla vega að búa mig undir það og
sé alveg fyrir mér að það verði átak að koma öllum í
gang aftur með önnur verkefni og þróun og að byggja
upp og halda áfram því góða starfi sem hefur verið á
Heilsugæslunni.
Þegar þú varst að undirbúa bólusetningar,
hvernig gerðir þú það og voru einhverjar
fyrirmyndir erlendis frá varðandi skipulag og
framkvæmd?
Nei, það var engin fyrirmynd en mikil teymisvinna
og allir lögðu sitt af mörkum. það var náttúrlega
frábær hópur hjúkrunarfræðinga í þessu og svo voru
lögreglan og sjúkraflutningamenn líka með okkur,
að ógleymdum forriturunum. Margrét Héðinsdóttir
hjúkrunarfræðingur var með okkur frá byrjun, hún
er með innbyggða flæðishugsun og er alltaf að
hugsa um flæði og ferli og hún kom til dæmis allri
lyfjablönduninni upp í mjög gott flæði. Varðandi
skipulagið eins og það þróaðist í Laugardalshöllinni
þá var Jórlaug Heimisdóttir hjúkrunarfræðingur
sem stýrði því flæði, ásamt sjúkraflutningamönnum
og lögreglu, þegar við fórum yfir í Laugardalshöll.
Þeir eru sérfræðingar í flæði og skipulagi á
„Ég held að það hafi sett tóninn þegar elsta
kynslóðin, 90 ára og eldri, byrjaði að koma
og mætti spariklædd. Konurnar svo flottar,
búnar að fara í lagningu og klæða sig upp á,
í pils, háa hæla og pels. Þetta var gaman og
hátíðlegt ...“
Viðtal