Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Qupperneq 15
1. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 15
stórum viðburðum og komu inn í verkefnið þegar
aðgerðarstjórn Almannavarna var virkjuð hér á
höfuðborgarsvæðinu. Við byrjuðum í anddyrinu
og fórum svo yfir í stóra salinn og þá fer þessi stóra
maskína í gang. Jákvæðni almennings skipti líka
miklu máli, þessi góða stemning þó að fólk þyrfti að
bíða í löngum röðum. Ég held að það hafi lagt tóninn
þegar elsta kynslóðin, 90 ára og eldri, byrjaði að koma
og mætti spariklædd. Konurnar svo flottar, búnar að
fara í lagningu og klæða sig upp á, í pils, háa hæla og
pels. Þetta var gaman og hátíðlegt, svolítið eins og
„reunion“ því þarna voru árgangar að hittast og það
þekktu allir einhverja.
Hvað hefði mátt betur fara í heilbrigðiskerfinu ef
við gætum spólað tvö ár aftur í tímann?
Ég held að við höfum verið ótrúlega heppin með hvað
þetta gekk allt vel upp. Ég er alla vega ekki komin
á þann stað enn þá að sjá hvað við hefðum átt að
gera öðruvísi. Ég held líka að það hafi verið gæfuspor
að við tókum nær strax öll helstu COVID-verkefnin
út af heilsugæslustöðvunum. Sýnatökurnar voru á
heilsugæslustöðvunum til að byrja með og það var
mjög íþyngjandi fyrir aðra starfsemi að hafa þær þar.
Það var ekki fyrr en við fórum í Keflavík og tókum
að okkur sýnatökur við landamærin að við fengum
verktaka til að sinna því. Það var gagnrýnt í upphafi
en guði sé lof að við gerðum það, annars hefði allt
okkar fagfólk verið í því að taka sýni alla daga. Þegar
við vorum komin með verktaka í sýnatökurnar og
mjög gott sjálfvirknivætt kerfi sáum við að færa þurfti
„Það er alveg frábært hvað margir
hjúkrunarfræðingar sem eru orðnir
lífeyrisþegar hafa komið til að taka þátt
í þessu með okkur. “
sýnatökurnar af heilsugæslustöðvunum og hafa þær á einum stað. Þegar svo var
farið að bólusetja hefði líka verið eðlilegast að gera það á heilsugæslustöðvunum
en þá kom þessi hugsun upp að fría stöðvarnar svo þær gætu haldið sinni
starfsemi áfram. Það var stefnan og ég held að það hafi verið gæfuspor. Við höfum
samt þurft að taka einhverja hjúkrunarfræðinga af stöðvunum til að sinna COVID-
tengdum verkefnum en við erum líka með tímavinnufólk og fleiri sem komið hafa
að þessu. Það er alveg frábært hvað margir hjúkrunarfræðingar sem eru orðnir
lífeyrisþegar hafa komið til að taka þátt í þessu með okkur. Hjúkrunarfræðingar
komu úr öllum áttum, úr einkageiranum, ráðuneytum, Embætti landlæknis,
Tryggingastofnun, Landspítalanum, hjúkrunarheimilum og félaginu okkar. Allir
lögðust á eitt.
Er faraldurinn á undanhaldi?
Já, eigum við ekki að segja það. Fjórða sprautan hefur nú verið í umræðunni eða
hvort það eigi að bíða með hana. Það er ekkert vitað hver þróunin verður, eða
hvort það komi alltaf ný afbrigði. Spurningin er því frekar hvernig við ætlum að ná
stjórn á þessu, með reglulegum bólusetningum eins og inflúensubólusetningum
eða hvort þetta fari jafnvel inn í inflúensubólusetninguna. Ég held að veiran verði
áfram en vonandi vægari eins og hún er núna með ómíkron.
Viðtal
Ræningjarnir úr Kardimommubænum mættu í Laugardalshöll þegar bólusetningar barna hófust.