Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Qupperneq 32
32 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 98. árg. 2022
Viðtal
Ævintýralegt en
ekkert glamúrlíf
Jónína Eir Hauksdóttir er hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni í Fossvogi, hún er einnig í
hlutastarfi á Læknavaktinni og svo tekur hún að sér að vera hjúkrunarfræðingur á setti þegar
verið er að taka upp erlendar kvikmyndir, sjónvarpsþætti eða annað efni hér á landi. Þær
vaktir næra ævintýramanneskjuna Jónínu sem veit fátt skemmtilegra en að fá að fara á nýjar
slóðir með tökuliði, leikurum og öllum hinum sem koma að svona verkefnum. Hún hefur unnið
með heimsfrægum leikurum uppi á jöklum, úti í móa, oft fjarri mannabyggðum í alls kyns
veðrum og vindum. Jónína segir að kuldinn sé erfiðasta áskorunin í starfi sínu sem set medic,
eins og það heitir á ensku. Við settumst niður með ævintýramanneskjunni Jónínu og spurðum
hana spjörunum úr.
Jónína útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1986
og hefur starfað við fagið síðan. „Fyrstu fimm
árin eftir útskrift vann ég á Borgarspítalanum,
eins og hann hét þá, á deild A-6 sem var almenn
lyflækningadeild. Það var afskaplega lærdómsríkur
og skemmtilegur tími. Á þessum tíma voru líka
fjögur heila- og taugaskurðdeildarpláss á deildinni.
Seinna fór ég svo að starfa á bráðamóttöku.“
Var nýfarin þegar hryllingurinn í Útey átti sér
stað
Jónína segist alla tíð hafa verið í tveimur eða fleiri
störfum í einu. „Í um sex ár var ég í 80 % starfi á
bráðamóttökunni og fór svo fimm til sex sinnum á
ári til Noregs þar sem ég tók oftast eins til tveggja
vikna vinnutarnir, á hinum ýmsum deildum og
bráðamóttökum. Stundum var ég lengur í einu. Mér
fannst það á sínum tíma hressandi og skemmtilegt
en eftir á að hyggja var þetta mikið álag. Kosturinn
við að taka vinnutarnir erlendis er að maður kynnist
mörgu fólki, lærir helling og upplifir nýja hluti.
Ég var mest í Ósló, Bergen og Stavanger, tvisvar
sinnum var ég í bænum Hønefoss, sem eyjan Útey
tilheyrir, en það er bærinn sem tók við fórnarlömbum
skotárásarinnar í Útey árið 2011. Ég var nýfarin þaðan
þegar þessi hryllilegi atburður átti sér stað og þakka
forsjánni fyrir að hafa ekki verið á vakt. Ég veit að
nokkrir kollegar mínir á sjúkrahúsinu í bænum hættu
að vinna við hjúkrun eftir þetta,“ segir hún sem lýsir
vel hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér að
upplifa slíkan hrylling í starfi.
Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson og úr einkasafni
Ævintýrasækin og finnst gaman að fara út í vond veður
Jónína hefur, eins og fram hefur komið, ekki eingöngu starfað við hjúkrun á
sjúkrahúsum hérlendis og erlendis því hún hefur fengið að upplifa ótrúleg ævintýri
sem hjúkrunarfræðingur á kvikmyndatökustöðum um allt Ísland; í óbyggðum, í
borginni, litlum þorpum og uppi á jöklum svo eitthvað sé nefnt. En hvernig kom
það til að hún fór að taka að sér verkefni sem hjúkrunarfræðingur á setti? „Þetta
ævintýri byrjaði fyrir meira en 20 árum síðan þegar ég var fyrst beðin um að taka
að mér að vera á setti, en á þeim tíma var ekki algengt að hjúkrunarfræðingur væri
til staðar við tökur á kvikmyndum. Það var að byrja þá og ég vissi í raun ekkert
hvað ég átti að gera og þeir sem ég var að vinna fyrir á þessum tíma vissu það varla