Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Page 100
100 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 98. árg. 2022
Að efla virðingu í daglegri hjúkrun
sjúklingana, að það sé hreint, bjart og laust við hávaða
(Nightingale, 1859) sem er samhljóma líkaninu sem hefur verið
þróað með þessari fræðilegu samantekt.
Líkanið virðing í daglegri hjúkrun (mynd 4) lýsir eiginleikum
og áherslum í hjúkrun sem stuðla að virðingu sjúklinga á
sjúkrahúsum. Á sjúkrahúsum er virðing ekki alltaf viðhöfð sem
skyldi og er þá ekki endilega við einstakt starfsfólk að sakast
heldur er það menningin á stofnuninni sem stýrir hegðun
þess. Hvernig stofnun er stjórnað hefur áhrif á virðingu (Lin
o.fl., 2012). Menning innan stofnunar leggur grunn að ýmsum
hefðum og reglum eins og að blanda saman kynjum á stofu og
hvernig tjöldin sem eru umhverfis rúm sjúklinganna hylja.
Menning innan stofnunar getur haft áhrif á framkomu
hjúkrunarfræðinga en samkvæmt Walsh og Kowanko (2002) er
vanvirðing á ábyrgð kerfisins vegna tímaskorts og álags, það
væri ekki við starfsfólkið að sakast. Skortur á starfsfólki ylli því
að því væri ekki gert kleift að starfa faglega eins og það óskaði
sér helst. Það yrði þreyttara, hefði minni tíma fyrir hvern
sjúkling og samskiptin minnkuðu sem allt ógnaði virðingu
sjúklingsins (Bagheri o.fl., 2012). Afleiðingin gæti því orðið
minnkandi starfsánægja og kulnun meðal hjúkrunarfræðinga.
Stofnunin gæti bætt virðingu með því að huga að þessu
og leggja áherslu á og styðja við framkomu sem stuðlar
að virðingu við sjúklinga. Það hefur verið sýnt fram á að
hægt sé að stuðla að þessari framkomu með kennslu og
fræðslu um virðingu og skilgreiningar á henni og hvernig
birtingarmyndir hennar kæmu fram í umönnun. Hluti af
þessari kennslu væri að fá hjúkrunarfræðinga til að ígrunda
störf sín og auka þekkingu á viðhorfum og framkomu sem
efla virðingu. Samkvæmt rannsókn Kyle, Medford, Blundell,
Webster, Munoz og Macaden, (2017) er hægt að kenna
virðingu gegnum hlutverkaleiki og af reynslu sjúklinga sem
segðu frá aðstæðum sínum sem efldu virðingu eða lýstu
virðingarleysi. Tilfellarannsóknir og samúðaræfingar sem
hjálpa okkur við að setja okkur í spor annarra eru einnig
leiðir til að kenna virðingu, en þá væri gott að láta umræður
fylgja í kjölfarið. Hjúkrunarfræðingar hafa oft góða þekkingu
á samskiptum og strax í grunnnámi er til dæmis lögð áhersla
á virka hlustun og óyrta tjáningu. Niðurstöður rannsóknar á
tengslum virkrar hlustunar, samkenndar, sjálfsmeðvitundar
og persónumiðaðrar hjúkrunar (Haley o.fl., 2017) sýndi
fram á að með virkri hlustun gætum við lært samkennd.
Vinnufyrirkomulag og verkferlar stofnunar eins og t.d. að
standa við rúm sjúklings og tala yfir hann geta verið ógn
í samskiptum er varðar óyrta tjáningu þó að það að veita
upplýsingar sé vissulega einn þáttur samskipta. Einnig er
ítrekað rætt við sjúklinga um viðkvæm málefni þrátt fyrir að
annar sjúklingur sé inni á stofunni. Við þurfum jafnframt að
vera meðvituð um hvernig við tölum við fólk og hvaða orð
við notum, það eru ekki allir hrifnir af því að vera kallaðir
elskan og vinur og slík orðanotkun getur hreint og beint virkað
niðurlægjandi.
Líkanið virðing í daglegri hjúkrun var sett fram til að hægt væri
að efla virðingu í daglegu starfi með því að huga að fjórum
undirstöðum hennar í umönnun sjúklinga. Ef við hugum að
umhverfi sjúklinga, erum meðvituð um hvernig við höfum
áhrif á líðan þeirra í gegnum eiginleika okkar og samskipti
og hugum að einstaklingsmiðuðum þörfum þeirra eflum við
virðingu þeirra. Markmið hjúkrunar felur alltaf í sér að bæta
líðan sjúklinga og það getum við gert með því að hagnýta
okkur þekkingu á virðingu í daglegri hjúkrun.
Kostir og gallar
Kostur þessarar rannsóknar var að hugtakið virðing var
skoðað út frá mismunandi hópum eins og sjúklingum,
hjúkrunarfræðingum, hjúkrunarnemum, öðru
heilbrigðisstarfsfólki, umönnunaraðilum og starfsfólki í
félagsþjónustu. Gallar rannsóknarinnar voru að flestar
rannsóknirnar voru eigindlegar og lýsa upplifun sem
takmarkar yfirfærslu á þýði. Einnig er hugtakið virðing
mjög víðfeðmt.
Hjúkrunarfræðingar geta í sínu daglega starfi nýtt sér
nokkra samverkandi þætti til að viðhalda og efla virðingu
sjúklinga, sem beinast af því að hver sjúklingur upplifi
að á hann sé hlustað og óskir hans virtar. Þarna skiptir
persónumiðuð hjúkrun máli og mikilvægt er að hafa
heildræna þekkingu á sjúklingnum. Forðast þarf að
mismuna og/eða hlutgera sjúklinga en styðja við sjálfstæði
þeirra og val. Hjúkrunarfræðingar verða að geta sýnt
sjúklingum góðmennsku og athygli og verið málsvarar
þeirra og félagar. Það eru litlu þættirnir sem viðhalda eða
efla virðingu sjúklinga sem felast oft í að bregða út frá
rútínunni og hafa löngun til að gera eitthvað meira fyrir
sjúklinginn. Áhrifin af litlu þáttunum eru að sjúklingarnir
upplifa sig sem einstakar manneskjur. Samskipti eru
mikilvægur þáttur virðingar. Það þarf að gefa sjúklingum
tíma, hlusta á þá, veita þeim upplýsingar og sýna þeim
trúnað. Það þarf að gefa því gaum hvernig við tölum um og
við sjúklingana. Umhverfið þarf að hlúa að virðingu, það
þarf að vera hreint í kringum sjúklinga og auðvelt að geta
veitt þeim næði.
ÁLYKTANIR