Póllinn - mai 2023, Síða 12
Forsetakosningarnar árið 2016 í Bandaríkjunum eru okkur enn ferskar í minni vegna
afleiðinga þeirra á alþjóðasamfélagið. Mörg telja þau skemmdarverk sem Donald John
Trump vann á sinni stjórnarsetu svo mikil að áratugi gæti tekið að vinna þau til baka. Í
kosningunum stóð valið á milli hans og Hillary Rodham Clinton og annarra.
Vegna framkomu Trump í kosningabaráttunni hélt almenningur og alþjóðasamfélagið sigur
Clinton vera öruggan. Einnig bentu nær allar kannanir til þess að Clinton myndi bera sigur af
hólmi. Hins vegar vöknuðu Bandaríkjamenn og alþjóðasamfélagið upp af vondum draumi
þegar það var í raun Trump, sá illa hegðandi, sem bar sigur úr býtum.
Hvað var það sem gerðist sem gaf Trump sigurinn? Trump náði að sigra hjörtu hvítra og
ómenntaðra Bandaríkjamanna og boðaði róttækar breytingar á stjórnmálum sem marga
þyrsti í. Einnig má leggja til að Clinton hafi ekki vakið upp þessa sömu spennu hjá sínum
kjósendahóp sem leiddi til þess að stór hluti hans hélt sig heima til þess að sleppa við vesenið
að fara á kjörstað. Það mætti segja að sá kjósendahópur sem hefði kosið Clinton Pókemon
FÓR ekki á kjörstað (e. Pokémon GO to the polls). Sá hópur hélt auðvitað að sigur Trump
væri nær ómögulegur, og því næstum óþarfi að fara á kjörstað.
Spyrja mætti hvort staðan hafi verið sú sama í kosningum um nýtt heiti á tímariti
stjórnmálafræðinema. Segja mætti að Hillary Clinton hafi verið öruggi kosturinn. Hún var
ekki jafn umdeild og andstæðingur hennar táknaði framhald af forystu Demókrata sem
höfðu átt forsetastólinn frá sigri Obama árið 2008. Clinton táknaði fyrir marga öruggt val og
áframhald af stöðugum stjórnmálum samanborið við óvissuna sem fylgdi Trump. Svolítið
eins og nafnið „Íslenska leiðin“ gerði fyrir meðlimi nemendafélags stjórnmálafræði.
Nemendur tóku breytingar jafnvel ekki nógu alvarlega til þess að taka tíma úr sínum degi til
þess að kjósa um nýtt nafn. Íslenska leiðin var ágætiskostur og framhald af því sem allir
nemendur þekktu. Var einhver séns á að því yrði í rauninni breytt?
Í þessari viðlíkingu er nafnið „Póllinn“ að sjálfsögðu Donald Trump. Enginn vildi þetta nafn
nema öfgamenn og ómenntaðir og vitlausir nemendur. „Íslenska leiðin“ er hún Hillary
Clinton, augljós kostur sem merkti framhald af því sem við þekkjum. En svo var langbesti
kosturinn sem nemendur gerðu sér ekki grein fyrir að hefði getað skapað bjartari framtíð
fyrir nemendafélagið: „Þinghelgin.“ Nafnið hafði getað sameinað nemendur
stjórnmálafræðinnar og hjálpað okkur öllum að vera stolt að faginu okkar, nemendafélaginu
og því litla samfélagi sem við tilheyrum. Margir voru þó ekki tilbúnir fyrir þetta frábæra nafn
og þorðu ekki að kjósa það. Í þessari viðlíkingu er Þinghelgin eins konar Bernie Sanders,
eitthvað sem hefði getað orðið svo frábært en fékk aldrei möguleika á að líta dagsins ljós.
Til að draga þetta saman er gott að taka fram þann boðskap sem fylgir þessari grein. Mætum
á kjörstað þótt okkur finnist enginn valkostur sérstaklega spennandi, finnist einn valkostur
öruggur sigurvegari, nennum ekki að fara eða höldum að okkur sé sama um málefnið. Þá
getum við komið í veg fyrir annan Trump og annan Pól.
Lýðræðisslys
10