Póllinn - maj 2023, Qupperneq 54
Þann 23. janúar síðastliðinn kom Alþingi saman í fyrsta sinn eftir jólafrí. Eina málið á dagskrá var hið umdeilda
útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem frumvarpið er lagt fram heldur það
fimmta og er Jón Gunnarsson fjórði ráðherrann til að leggja það fram.
Lögleiðing mannréttindabrota
Ástæðan fyrir því að við fundum okkur knúin til að skrifa þennan pistil er því okkur blöskrar við
mannréttindabrotunum sem reynt er að lögleiða með þessu frumvarpi. Ekki eingöngu það heldur brýtur
frumvarpið gegn stjórnarsáttmála núverandi stjórnar, lögfestum mannréttindasáttmálum og jafnréttislögum.
Ekki var ráðgast við sérfræðinga í gerð frumvarpsins, enda er það skýrt að ekki er tekið tillit til jaðarhópa og annars
fólks í mismunandi stöðu heldur bara öllum gefinn sami stimpill. Ef að Amnesty International, Rauði krossinn og
Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna o.fl. eru að gagnrýna frumvarpið þá ætti það að vera frekar góð
vísbending um að eitthvað sé að. Væri ekki viturlegra að hlusta á þessi samtök sem sérhæfa sig í mannréttindum
frekar en að hunsa þau? Þó ríki sé þróað og eitthvað lýðræði sé til staðar þýðir það ekki að lögin verndi alla
einstaklinga.
Íslensk útlendingastefna hefur alltaf verið grimm. Sem er frekar mikil hræsni þegar tillit er tekið til þess að við erum
afkomendur flóttafólks og innflytjenda. Ingólfur Arnarsson var flóttamaður frá Noregi. Er ekki kominn tími á að
prófa eitthvað nýtt? Viljum við sem Íslendingar ekki sýna mannúð og manngæsku frekar?
Hvenær urðu mannréttindi einskis virði?
Frumvarpið hirðir lítið sem ekkert um mannréttindi og heldur það þvert á móti áfram með þá vegferð sem
ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur verið á þegar kemur að málefnum fólks á flótta. Þetta er afar furðulegt þar
sem eftir síðustu kosningar bað Katrín sérstaklega um að mannréttindi væru undir hennar ráðuneyti. Hvernig
getum við klappað okkur á bakið fyrir að vera draumavelferðarríki en samt sem áður haldið því fram að kerfið
okkar sé of veikt til að við getum borið virðingu fyrir mannréttindum fólks á flótta.
Það er engu líkara en að ríkisstjórnin hafi hreint og sagt orðið þreytt á að vera ítrekað gerð afturreka með
falleinkunn sína í mannréttindageiranum og sé því að áforma að breyta leikreglunum og geta með því móti haldið
áfram að fremja mannréttindabrot í skjóli laganna. 6. gr frumvarpsins er ákvæði um að svipta fólk þeirri
lágmarksaðstoð sem það fær, að 30 dögum liðnum eftir lokasynjun.
En í hverju er þessi lágmarksaðstoð nákvæmlega fólgin? 5.000-8.000 krónur á viku, herbergi jafnvel með ókunnugu fólki,
neyðarheilbrigðisþjónusta, það er allt og sumt. Núverandi ríkisstjórn skrifaði undir stjórnarsáttmála og verið er að
brjóta alvarlega gegn honum með þessu frumvarpi. Er engu líkara en að þingflokkur Vinstri grænna hafi hreinlega
lagt upp laupana þegar kemur að stefnu þeirra í útlendingamálum. Sjaldan hefur skaupið hitt naglann jafn vel á
höfuðið og þegar „grínast“ var með að gildi þeirra séu til sölu.
Barnasáttmálinn er lögfestur hér á landi en það virðist ekki skipta suma aðila máli þegar þeir vernda ákveðin ákvæði
sem brjóta hann beint. Einnig er vert að nefna að fjölmörg brot eru á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Heilbrigðisþjónusta eru grundvallarmannréttindi.
Lögreglu verður heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði einstaklings
til að geta ferðast. Frumvarpið tryggir lögreglu heimild til þess að afla heilsufarsupplýsinga með því að neyða
heilbrigðisstarfsfólk til að afhenda þessar viðkvæmur persónuupplýsingar. Lögreglu er gefin heimild til að neyða
sjúklinga að gangast undir heilbrigðismat og læknisrannsókn. Í lögum um réttindi sjúklinga sem staðfest voru á þingi
1997 kemur skýrt fram að „sjúklingur ræður sjálfur hvort hann þiggi meðferð eða ekki og að enga meðferð megi
framkvæma án samþykkis sjúklings“.
Í siðareglum félags íslenskra hjúkrunarfræðinga gr. 2.4 sem staðfestar voru 2015 stendur „Hjúkrunarfræðingur
stendur vörð um rétt skjólstæðings til einkalífs með því að gæta trúnaðar og þagmælsku og fer að siðareglum og
lögum þegar hann deilir persónugreinanlegum upplýsingum með öðrum.“ Þetta er ekkert nema hreint brot á
friðhelgi einkalífsins. Í hvaða heimi er þetta í lagi? Bæði Embætti Landlæknis og Læknafélag Íslands hafa skrifað
umsagnir við frumvarpið þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum.
Allt fólk er jafnt
Með lögum skal land byggja
52 Lærið meira hér!