Bændablaðið - 08.06.2023, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. júní 2023
FRÉTTIR
Við Norðurlandsveg - 560 VarmahlíðSími: 453 8888 - Opið virka daga kl. 9-17
Fylgstu með okkur á
velavalehf
Tindar og festingar - Sláttuvélahnífar og festingar
ALLT TIL ALLS!
Drifsköft - Tindar - Hnífar
Síur - Drifsköft og drifskaftsefni
velaval.is
alltaf opin!
Sendum um land allt!
Hrossarækt:
Telur breytingar á vegvísi
kynbótasýninga jákvæðar
– Þröskuldur fyrir tölteinkunn lækkaður hjá fimm vetra hrossum
Vorsýningar kynbótahrossa
fara rólega af stað. Nokkrar
breytingar hafa orðið á vegvísi um
kynbótahross sem kynbótaknapi
telur gagnlegar.
Fyrsta kynbótasýning sumarsins
er haldin dagana 5.–9. júní á Hellu.
Þar eru 128 hross skráð til leiks.
Fyrsta kynbótasýningin var á
dagskrá 30. maí–2. júní en var aflýst
þar sem ekki var næg skráning,
en lágmarksfjöldi hrossa á hverja
sýningu eru 30 hross. Sömu sögu
er að segja um kynbótasýningar sem
átti að halda í Víðidal vikuna 5.–9.
júní og í Spretti vikuna 12.–16. júní.
Elsa Albertsdóttir ræktunar-
leiðtogi segir að á hverju ári mæti um
1.000 hross til dóms. Vorsýningarnar
fari hægt af stað en það virðist
vera hefðin þegar ekki er um
Landsmótsár að ræða. Þá sé yfirleitt
meiri ásókn í miðsumarssýningarnar.
Elsa hvetur alla þá sem huga á
sýningar til kynbótadóms að kynna
sér vel efni og innihald vegvísis um
kynbótadóma hrossa sem gefin er út
af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
(RML) á hverju vori. Þar er að finna
allar helstu upplýsingar um reglur
og framkvæmd sýninganna, s.s.
ræktunarmarkmiðin, dómsskalann,
siðareglur og upplýsingar um
leyfilegan búnað. Í vegvísi hvers árs
er einnig að finna ýmsar áhugaverðar
tölulegar upplýsingar.
Leyfilegur beislisbúnaður
í stað bannlista
Elsa segir að helsta breytingin á
reglum er varða kynbótasýningar
hrossa sé sú að nú er tilgreindur listi
yfir leyfðan beislabúnað.
„Í stað þess sem áður var þá
var tilgreindur bannlisti og því allt
leyft sem ekki var á bannlistanum.
Ákveðið var að breyta þessu til
einföldunar og birta eingöngu
lista yfir þann beislabúnað sem er
leyfður.“ Leyfilegur búnaður eru
hringamél og stangir með einum
taum og mélalaus búnaður með
skilyrðum. Einjárnungar með
vogarafli (stöngum) eru ekki leyfðir.
Ein breyting hefur verið gerð
er varðar fyrirkomulag reiðdóma,
svokallaða þröskulda fyrir hærri
einkunnir. Til glöggvunar þá er gefin
einkunn fyrir tölt í hæfileikadómi
sem hefur 16% vægi. Einnig er gefin
einkunn fyrir hægt tölt sem hefur
ekki vægi en sú einkunn hefur sterk
tengsl við tölteinkunnina og þarf að
ná ákveðnum þröskuldum svo hægt
sé að gefa hærri einkunnir fyrir tölt.
„Ákveðið var að láta það sama
gilda hjá fjögurra og fimm vetra
hrossum varðandi tengsl á milli
hægs tölts og tölts, þannig að
þröskuldurinn verði 8,0 fyrir hægt
tölt svo þau eigi möguleika á 9,0 í
einkunn fyrir tölt.
Áður var þröskuldurinn 8,5 fyrir
hægt tölt hjá fimm vetra hrossum svo
þau ættu möguleika á 9,0 fyrir tölt,“
segir Elsa. Ástæðuna fyrir þessari
breytingu segir hún vera að fimm
vetra hross séu óhörðnuð og þurfa
ekki að sýna sömu burðareiginleika
á hægu tölti og eldri hross en ættu
samt að eiga möguleika á hærri
einkunnum fyrir tölt.
Lækkun á þröskuldi jákvæð
Kynbótaknapi ársins 2022, Helga
Una Björnsdóttir, er í óða önn að
undirbúa hross fyrir kynbótasýningar
sumarsins. Aðspurð sagðist Helgu
Unu lítast vel á kynbótasumarið sem
er fram undan og þá sérstaklega ef
veður færi að skána. Helga Una
stefnir með þó nokkurn fjölda hrossa
til sýninga. „Þetta eru svona um 20–
30 hross sem ég stefni með í sýningu
núna á vorsýningunum. Ég er með
fullt af fínum ungum hrossum og svo
einnig einhver aðeins eldri.“
Aðspurð um uppfærslur vegvísis
kynbótadóma hrossa taldi hún þær
jákvæðar og þá sérstaklega lækkun
á þröskuldi er varðar tengsl á milli
hægs tölt- og tölteinkunna.
„Ég er þó þeirrar skoðunar að
það ætti að prófa það að dæma
þessa eiginleika í sitthvoru lagi, án
þröskulda, hægt tölt og tölt. Ég held
að það gæti komið betur út.
En ég held að þetta sé góð þróun
að lækka þröskuldinn í 8,0 fyrir hægt
tölt svo fjögurra og fimm vetra hross
eigi möguleika á hærri einkunnum
fyrir tölt.“
Betra ef fleiri hross
kæmu til dóms
Helga Una segir að miklar kröfur
séu gerðar til hrossa sem mæta til
kynbótadóms, þau hross þyrftu að
geta ótrúlega mikið til að komast
vel í gegnum kynbótadóm. „Það eru
til dæmis ekki mörg fjögurra vetra
hross sem þola mikla þjálfun og að
hægt sé að sýna þau til afkasta á
vellinum. Hrossin eru þó alltaf að
verða betri og betri heilt yfir.“ Hvað
varðar fjölda hrossa sem mæta til
kynbótasýninga telur Helga Una að
farið sé að velja meira úr hvaða hross
mæta til dóms heldur en áður. „Það
er leiðinlegt ef hross sem eru fín, en
kannski engir ofurhestar, mæti ekki
til dóms. Það væri skemmtilegra ef
fleiri hross myndu mæta í dóm, til
að sjá betur heildarmyndina,“ segir
Helga Una.
Að loknum vorsýningum ættu
línur svo að fara að skýrast hvaða
hross fara fyrir Íslands hönd á
heimsmeistaramót íslenska hestsins
sem haldið verður í Hollandi í ágúst.
/ÞAG
„Ég held að þetta sé góð þróun að lækka þröskuldinn í 8,0 fyrir hægt tölt svo fjögurra og fimm vetra hross eigi
möguleika á hærri einkunnum fyrir tölt.“ segir Helga Una Björnsdóttir sem sýnir hér Bárð frá Sólheimum á Landsmóti
hestamanna 2022. Mynd / ghp
Kynbótasýningar 2023
Vorsýningar
5.–9. júní Hella
12.–16. júní Hella
12.–16. júní Hólar
19.–23. júní Hella
19.–23. júní Selfoss
19.–23. júní Hólar
Fjórðungsmót Austurlands 6.–9.
júlí
Miðsumarssýningar
17.–21. júlí Hella
17.–21. júlí Hólar
24.–28. júlí Hella
Síðsumarssýningar
14.–18. ágúst Selfoss
21.–25. ágúst Hólar
21.–25. ágúst Hella
Forkólfar á Austurlandi
sameinast í FKA
Stjórnarkonur FKA Austurlands f.v.: Jóhanna Þráinsdóttir, Valdís Björk
Geirsdóttir, Ragna S. Óskarsdóttir, Heiða Ingimarsdóttir, Jóhanna Heiðdal
og Jóna Björt Friðriksdóttir. Á myndina vantar Öglu Heiði Hauksdóttur,
Hrafndísi Báru Einarsdóttur og Rebekku Rán Egilsdóttur. Mynd / FKA
Konur á Austurlandi hafa nú
stofnað Félag kvenna í atvinnu-
rekstri á Austurlandi. Stofnfundur
FKA Austurlands var haldinn
eystra í lok maí og sóttu hann
rúmlega hundrað konur af öllu
landinu.
Markmiðið með stofnun
félagsins, sem verður landsbyggðar-
deild í Samtökum kvenna í atvinnu-
lífinu (FKA) ásamt Norðurlandi,
Suðurlandi, Suðurnesjum og Vestur-
landi, er að efla konur, stuðla að
auknu samtali kvenna á milli, fjölga
tækifærum kvenna í atvinnulífinu á
Austurlandi ásamt því að tengjast
öðrum félagskonum FKA óháð
staðsetningu.
„Nú er það kvenna á öllu
Austurlandi að ákveða hversu bratt
þær mæta í fjörið í FKA en næstu
skref eru að hrista hópinn saman
og efla tengslin. Svo koma þær
af krafti í starfið hjá félaginu sem
er bæði blómlegt og fjölbreytt,“
segir Andrea Róbertsdóttir,
framkvæmdastjóri FKA.
Í stjórn FKA Austurlands sitja sjö
konur og tveir varamenn. Það kemur
í hlut þeirra að móta starfið út frá
gildum og markmiðum FKA en þróa
starfsemina á þann hátt að gagnist
konum á Austurlandi sem best.
Þess má geta að í ársbyrjun
2006 stofnuðu konur á Austurlandi
samtökin Tengslanet austfirskra
kvenna, TAK, sem enn er starfandi
og var stofnað til að efla konur
á Austurlandi til þátttöku og
sýnileika hvarvetna í samfélaginu
og við stjórnvölinn.
/sá
Hátækni á Blönduósi
Foodsmart Nordic er nýtt
framleiðslufyrirtæki fæðubótar-
efna og hefur sérhannað húsnæði
á Blönduósi undir vinnsluna.
Í fréttatilkynningu segir að
framleiðsla á tilraunastigi sé
hafin og hyggist forsvarsmenn
fyrirtækisins, þau Katrín Amni
Friðriksdóttir og Viðar Þorkelsson,
hefja formlega starfsemi í sumar.
Að sögn þeirra er meginmarkmið
Foodsmart Nordic að gera Ísland
að virkum og vaxandi þátttakanda á
alþjóðlegum fæðubótarmarkaði. Að
baki félaginu standi öflugur hópur
fjárfesta og þar af sumir með rætur
á svæðinu. Rannsóknasetur félagsins
er á Skagaströnd. Fæðubótarefnin
eru framleidd úr íslensku sjávarfangi
en rannsóknir hafa staðið yfir á
m.a. kollageni, sæbjúgnadufti og
fiskpróteinum úr íslenskum þorski.
Fjárfesting í fasteign að Ægisbraut
2 og tækjabúnaði nemur um eða yfir
500 m.kr. og stefnt að frekari stækkun
þegar fyrirtækið hefur haslað sér
völl. Áætlað er að framleiða um
150 tonn fullunninna afurða nú í
fyrsta áfanga. Framleiðslan verður
gæðavottuð til útflutnings.
Viðar segist vænta þess að
Foodsmart Nordic auki fjölbreytni
í atvinnulífinu á Blönduóssvæðinu.
„Bein störf á svæðinu í tengslum
við reksturinn verða um 15 á
næstu 2-3 árum. Þá eru ótalin
afleidd störf tengd núverandi
uppbyggingu og svo viðskiptum til
framtíðar, auk þess sem uppbygging
nýsköpunarstarfsemi hefur jafnan
hvetjandi áhrif á nærumhverfið,“
segir Viðar. /sá