Goðasteinn - 01.03.1964, Side 30
dóu ung. Yngstur þeirra er Tómas, forstjóri Ölgerðarinnar Egill
Skallagrímsson í Reykjavík. Þorvarður hét einn son Erlends og
Ingveldar (f. 1801, d. 1876). Hann bjó í Stóra-Klofa á Landi. Kona
hans var Guðrún Árnadóttir frá Hamragörðum. Þau urðu kynsæl.
Valdís Erlendsdóttir átti Loft Loftsson bónda á Kaldbak. Ekki
er margt manna frá þeim komið. - Önnur börn Erlends og
Ingveldar urðu fremur skammlíf.
Erlendur og Ingveldur bjuggu í Litla-Klofa frá 1824 til 1830,
en árið 1831 flytja þau að Þúfu, syðst í hreppnum og vestarlega.
Liggur land Þúfu að Holtamannahreppi að sunnan, og landslagi
svipar meira til Holta en Landsveitar, þar sem harðvelli er víðast
hvar. Bærinn stóð sunnanvert í holti allháu, en umhverfis það
er mýrlendi, hagar og engjar frá Gömlu-Þúfu*). Túnið hefur ekki
verið stórt, töðufall varla verið meira en 40 hestar. Þúfan er
10 hundraða jörð að fornu mati. Árið 1703 átti Páll Björnsson í
Selvogi jörðina. Áhöfn var þá 5 kýr, einn vetrungur, 32 ær, 8
gimbrar, n sauðir, 25 lömb og 11 hross. Segir í jarðabókinni, að
fóðrast kunni 3 kýr. Þar segir ennfremur, „engjar svo litlar sem
engar. Hagþröngt mjög og jörðin afkomulítii, liggur peningur
ábúanda uppá nágrönnunum." - Tíu hundraða jörð þótti raunar
ekki mjög stór, en þó viðunandi meðalbónda. Landkostir voru ærið
misjafnir, og ekki er einhlýtt að miða gildi jarða við stærðina
eina. En þótt engjar Þúfu hafi verið litlar sem engar, hlýtur heyja
að hafa verið aflað að mestu utantúns.
Þau níu ár, er Erlendur bjó í Þúfu (1831-1839), var þar oftast
7-8 manns í heimili. Lausafjártíund hans var um 8 hundruð oft-
ast. En það þótti sæmileg afkoma, er söm var tala heimilisfólks
og tíundaðra hundraða lausafjár.
Þá öld var liðin síðan Erlendur bjó í Þúfu, var töðufall talið
100 hestar, en úthey 160 (mætti hafa 90 meira), nautgripir 2,
sauðfé 100 og hross 7. Til hlunninda er talin mótekja. En síðustu
tvo til þrjá áratugi hafa orðið miklar breytingar í Þúfu. Stórt og
fallegt tún er komið, þar sem áður voru móar einir. Mun Þúfan
nú mega kallast allgóð bújörð.
*) Bærinn hefur verið fluttur austar. Þar hefur verið ræktað stórt tún.
28
Goðasteinn