Goðasteinn - 01.03.1964, Qupperneq 49
skrifaði sjálfur um gosið og safnaði gögnum (JS 103 fol., nú í
Lbs.*)) Lætur nærri, að Oddur hafi ætlað að senda Finni handrit
sitt tii Khafnar, ef til vili til prentunar. - En hafi svo verið, fór
á aðra lund, því Finnur andaðist á aðfangadag jóla 1847, 66 ára
að aldri. Oddur lýkur raunar ekki við frásögn sína, fyrr en í
vordögum 1847, en fregnin um lát Finnst hefur varla borizt fyrr
en með vorskipi, Undir ritgjörð Odds stendur að vísu: Þúfu á
Landi 1848, en ártalið getur hafa verið sett allöngu eftir að henni
var lokið. Tileinkunin bendir til þess, að Finnur hafi verið á lífi,
er hún var skrifuð. -
Um feril Heklurits Odds segir Finnur frá Kjörseyri í minn-
ingum sínum (Þjóðhættir og ævisögur, Ak. 1945), að Magnús bróðir
sinn, bóndi og formaður í Junkaragerði hafi eignazt handritið, en
látið það af hendi við Halldór Kr. Friðriksson yfirkennara, handa
Jóni Sigurðssyni. Ég ætla, að hér kunni að vera málum blandað.
Ég hef það eftir traustri heimild, að kunnur læknir hafi fengið
ritið lánað, og frá honum hafi það farið til Jóns. En þetta skiptir
raunar ekki máli nú, því Heklurit Odds er komið heim.
Annað eldrit, sem Oddur skrifaði upp, höf. ýmsir, hafnaði
líka í safni Jóns. Þetta rit er JS 420 4to, 116 bls., skrifað um 1844,
bundið í skinn. Þar er eldrit séra Jóns Steingrímssonar og rit-
gjörð Þorsteins Magnússonar sýslumanns um „jökulbrunann fyrir
austan 1625“, ritgjörð Jóns Salómonssonar um hlaupið úr Mýr-
dalsjökli 1660 o. fl.
Þá er að geta tveggja handrita, er lentu í vörzlu handritadeildar
Bókmenntafélagsins, nú í Landsbókasafni. Hið fyrra er ÍB 169 4to.
Kennir þar margra grasa. I handriti þessu eru ýmsar afskriftir, til
að mynda „Prédikun um okur“ eftir séra Guðm. Einarsson á
Staðastað og „Hugrás“, eftir sama. Ritskrá Lbs. telur, að handriti
þessu fylgi Athugagrein eftir Odd í Þúfu. Oddur mun ekki hafa
gjört þessa afskrift, heldur eignazt handritið og skrifað við það
„athugagrein". Ekki veit ég um hvað hún fjallar, því ég hef ekki
séð handritið; hefur verið í láni í Khöfn lengi. -
*) Meðal handrita Finns eru drög að ritgjörð á þýzku um Heklugosið, hef-
ur e. t. v. átt að birtast í einhverju vísindariti þýzku.
Goðasteinn
47