Goðasteinn - 01.03.1964, Page 71
Hjalti Jónsson í Hólum:
Björn Kjaftur
Maður hét Björn. Hann átti heima á Austfjörðum á síðari
hluta 19. aldar. Mun hann lengst hafa verið á Eskifirði. Ekki hef
ég frétt um ætt hans eða uppruna. Hann var almennt nefndur
Björn kjaftur, vegna þess að hann þótti fljótur að kasta frarn
skammavísum um þá, sem honum fannst hann eiga eitthvað sök-
ótt við. Einhverju sinni komu fram í sjóþorpi á einum firðinum
níðvísur, sem eignaðar voru Birni. Þær byrjuðu svona:
Yrki ég enn um andskotann,
á mér níðast gjörði hann.
Þó hvinnskur bæði og svikull sé,
samt hann ætíð vantar fé.
Lítil þessi ljóð ég honum læt í té.
Ekki hef ég heyrt fleiri erindi úr brag þessum og hygg, að sögu-
maður minn hafi ekki kunnað fleiri.
Nú var maður þar í þorpinu að nafni Jón. Hann tók til sín
vísurnar, og mun það hafa verið álit manna, að þeim væri til
hans beint. Hann fór til sýslumannsins og kærði Björn fyrir að
hafa ort níð um sig. Sýslumaður kallaði þá báða á skrifstofu sína
á ákveðnum tíma, og mættu þeir þar. Hann spurði Björn, hvort
hann hefði ort níð um Jón. Björn svaraði fáu, en dró upp úr vasa
sínum blað, sem hann rétti sýslumanni, og sagði, að á því væru
vísur þær, sem um var að ræða.
Þegar sýslumaður hafði lesið vísurnar, sneri hann sér að Jóni
og sagði við hann: „Viltu heita djöfull og andskoti, Jón minn?“
Jón kvað nei við því. „Þá er ekkert meira um þetta að segja,“
sagði sýslumaður, „því hér er ekkert annað nefnt.“ „Mér fannst
þetta svo líkt lýsingunni á mér,“ sagði Jón.
Goðasteinn
69