Goðasteinn - 01.03.1964, Page 81
við rökkurljósið, sem hjúpar fólk í danssölum, æskublóminn er
svo fagur í björtu ljósi.
Ég hverf aftur til æsku minnar. Árið 1926 ætlaði ég til Vest-
mannaeyja. Það talaðist svo til, að unnusti minn sækti mig, þegar
farið yrði, og sú stund rann upp. I stóra pappatösku var ég búin
að raða öllum hannyrðum mínum, sparifötum og ýmsum fatnaði.
Öðrum farangri kom ég fyrir í poka, sem átti að vega á móti
töskunni í flutningi. Ég átti nýtt, brúnt veski með farareyri mínum
og lagði það efst í töskuna. Pabbi kom að í því og afhenti mér
70 krónur, sem ég átti geymdar hjá honum. Ég bætti þeim við í
veskið og lagði það á sama stað. Pabba varð þá að orði: „Ætlar
þú virkilega að hafa þetta í töskunni?“ Ég svaraði: „Ég get hvergi
haft það annarsstaðar.“ Veskið var svo stórt, að ekki var hægt að
hafa það í vasa nema brjóta það saman til skemmda. Handavinnu
mína ætlaði ég að fullgera, eftir því sem mér ynnist tími og efni
til. Þar átti ég m. a. þrjú milliverk og voru 12 svanir í hverju.
Guðleif Kristjánsdóttir frá Auraseli gaf mér stofninn, borða með
tveimur svönum og manna kenndi mér að hekla.
Einu sinni sat ég úti hér heima í Mörk og var að hekla. Pabbi
gekk þar hjá. Mér varð þá að orði: „ Nú hef ég gert vitleysu,
en ætli það sjáist?“ Hann svaraði: „Ef þú sjálf veizt af vitleysu,
þá rektu það upp. Guðsaugu sjá allt.“ Oft hafa þessi orð hljóm-
að fyrir eyrum mínum síðan.
Ferð mín að heiman gekk að óskum upp að Þverá. Það var
ekki mikið í henni þennan dag en háar skarir beggja vegna. Við
héldum út í vatnið en vorum ekki langt komin, þegar reiðhestur
minn fældist. Unnusti minn hafði snör handtök, náði í tauminn
og tókst að sefa klárinn. Héldum við svo áfram spölkorn, en þá
varð hinn hesturinn hamstola, tók til að prjóna og láta öllum
illum látum. Hentist hann eftir straumnum og andartak hvarf mér
maður og hestur. Þetta stóð skamma stund, en mér fannst hún
löng úti í miðjum álnum. Ég bjóst við, að sama æði kæmi á hest
minn, og brugðið gat til beggja vona með, hvort unnusti minn
bjargaðist úr voðanum. Allt fór þó betur en áhorfðist, við slupp-
um ósködduð til lands. Voru þá tveir menn frá Árkvörn í Fljóts-
hlíð komnir til hjálpar. Fórum við heim með þeim og fengum
Goðasteinn
79