Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 68
66 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
upplýsingum sem þyrfti að muna. Þetta gat valdið kvíða ef upp
komu aðstæður þar sem teymisstjóri sá sér ekki fært að mæta til
vinnu. Ingibjörg upplifði sig því ómissandi því það var svo margt
sem ekki væri skráð heldur hlutir sem hún þyrfti að halda utan um
og muna. Hún fékk því kvíða og samviskubit þá daga sem hún sá
ekki fram á að geta mætt.
Flóknar starfsaðstæður
Að takast á við dagskipulagið
Teymisstjórum fannst mikilvægt að létta á álagi á sjúkraliðum
þegar farið var að bera á þreytu gagnvart skjólstæðingum með
mikla hjúkrunarþyngd og reyndu að koma til móts við óskir þeirra.
Ingibjörg sagði:
Það eru alltaf föst plön en við erum búnar að vera duglegar
að laga til plönin ef það er eitthvað og þær hafa t.d. bara verið
duglegar að skipta böðum ef einhver er búin að vera í marga
mánuði þar sem er þungt og er komin þreyta og vill kannski bara
aðeins létta á dögunum.
Stundum var þó lítið svigrúm til að bregðast við og hliðra til í
dagskránni en veikindi starfsfólks og skyndilegar breytingar í
teymi hvað varðaði heilsufar skjólstæðinga höfðu þau áhrif að
sjaldan var hægt að létta á álaginu. Endurskipuleggja þurfti
daginn með stuttum fyrirvara og bæta vitjunum á starfsfólk. Hvað
þetta varðar kom fram að veikindi starfsfólks í einu teymi gátu haft
áhrif á hin teymin þar sem að þá þurfti að samnýta starfsfólk. Erna
lýsir þessu: „Svo þegar eru veikindi þá þarf maður að deila heilu
plönunum, það er ekki oft auka mönnun og þá þarf maður að deila
yfir á hin teymin“. Erna upplifði stundum ríg á milli teyma þegar
þessar aðstæður komu upp og lýsti hún því að slíkt ætti að vera
óþarfi á einum og sama vinnustaðnum. Þétt dagskipulag hafði
einnig þau áhrif að erfitt gat verið að mæta því ef upp komu óvænt
vandamál hjá skjólstæðingum. Í slíkum tilvikum gat verið erfitt að
fá starfsmann til að sinna því með stuttum fyrirvara og því lentu
slíkar vitjanir oftar en ekki á teymisstjórum. Ingibjörg lýsti létti
þegar fækkaði aðeins skjólstæðingum í teyminu hennar:
Akkúrat núna eru margir ekki heima og þá finn ég hvað það gerir
mína vinnu miklu léttari þegar stundataflan er ekki alveg full og
líka bara ef einhver hringir og ég get sagt: „heyrðu, ég skal biðja
hana að kíkja á þig“. Maður getur bara veitt betri þjónustu þegar
ekki er allt í botni.
Þegar dagskipulagið var þétt fór gjarnan dýrmætur tími í langar
boðleiðir. Langan tíma gat tekið að ná sambandi við lækna eða
aðrar heilbrigðisstofnanir sem komu að málefnum skjólstæðinga.
Skráningarkerfið reyndist ekki vera nægilega skilvirkt og upplifun
teymisstjóra var að þurfa að skrá sömu upplýsingar á fleiri en einn
stað eða eins og Fanney sagði: „Við erum ekki með neitt á einum
stað lengur og það er þessi tvískráning alls staðar“.
Að takast á við mismunandi aðstæður á heimilum skjólstæðinga
Teymisstjórarnir greindu frá margs konar áskorunum við að starfa
inni á heimilum fólks sem gæti verið leið til að vaxa í starfi en að
sama skapi ýttu undir streitu og álag. Vegna þess hve fjölbreyttur
skjólstæðingahópurinn var upplifðu teymisstjórarnir sig þurfa
að vera tilbúnir til að takast á við allt mögulegt. Hjúkrunarþarfir
skjólstæðinga voru margs konar og þurftu teymisstjórarnir oft að
tileinka sér fljótt nýja þekkingu og leikni, líkt og Ingibjörg sagði:
„Það þarf að vera með opinn huga og vera tilbúin til að stíga inn í
alls konar vélar, tæki og tól“. Og Hanna tók í sama streng: „Það er
bara allt, maður sér allt. Það er líka jákvætt, maður verður alger
„expert“ í alls konar, og bara það sem er inni á borðinu bara núna,
maður verður sjúklega klár í því“.
Aðstæður voru mismunandi heima hjá fólki og aðgengi til að
sinna hjúkrun var oft takmarkað, sérstaklega í eldri eða litlum
íbúðum. Það reyndi því á hyggjuvit starfsfólks sem þurfti að
vera lausnamiðað og finna leiðir svo hægt væri að mæta þörfum
skjólstæðinga og tryggja um leið viðunandi vinnuaðstæður.
Karítas nefndi:
Þeim er að fækka þessum húsnæðum sem eru alveg eiginlega
fáránleg hvað varðar hjúkrun. Maður getur ekki alltaf búist við
að þetta sé fullkomið, þetta eru heimili fólks, maður getur ekki
ætlast til þess að aðstæður séu eins og á spítalanum.
Þrír teymisstjórar töluðu einnig um mikilvægi viðeigandi
hjálpartækja inni á heimilum og samvinnu við aðrar heil-
brigðisstéttir, svo sem iðjuþjálfa, til að aðlaga umhverfið og
styðja þannig bæði við starfsfólk og þá sem búa á heimilinu.
Samt sem áður var vinnurýmið sjaldan eins og best væri á kosið.
Átti það líka við um aðstæður til að taka á móti símtölum og skrá
niður upplýsingar varðandi skjólstæðinga. Áreiti var oft mikið
frá símanum, bæði þegar aðrir teymismeðlimir hringdu til að fá
leiðsögn eða heilbrigðisstofnanir með upplýsingar um ákveðna
skjólstæðinga. Þetta kom skýrt fram í viðtalinu við Önnu sem
upplifði sig sjaldan hafa „back-up“ eða í aðstæðum til að taka á
móti og skrá mikilvægar upplýsingar:
Svo náttúrlega líka þú ert í vitjunum, þú ert samt með símann
og þú átt einhvern veginn alltaf að vera til taks og svara
sjúkraliðunum, þær hringja, svo er kannski heilsugæslan að
hringja, læknir er að hringja, MS setrið og þú ert sjálf bara í
vitjun. Ég væri til í að geta svarað núna en bara get það ekki.
Mann vantar pínu „back-up“.
Það sama átti við ef óvænt atvik komu upp í vitjunum hjá fólki,
þá þótti Önnu erfitt að hafa ekki liðsinni annars starfsfólks og
upplifði sig eina bera ábyrgð á hjúkrun og verkþáttum sem
voru fyrir utan hennar þekkingarsviðs. Það reyndi því á að finna
lausnir á vandanum og vinna með þá þætti og þekkingu sem
teymisstjórarnir höfðu yfir að ráða.
Stuðningur og skipulag
Að fá aðlögun í upphafi starfs
Vegna þess hversu yfirgripsmikið starfið reyndist vera töldu allir
teymisstjórarnir mikilvægt að nýtt starfsfólk fengi góða innleiðingu
í hlutverkið. Það reyndist hins vegar vera ábótavant, flestir töldu
sig ekki hafa fengið aðlögun við hæfi og lýstu því að vera „hent út í
djúpu laugina“. Diljá sagði: „Ég fékk eiginlega enga aðlögun, þetta
voru tveir dagar“.
Þá kom fram að þó að aðlögun væri stutt væri mikið magn
upplýsinga sem þyrfti að ná yfir en Lína lýsti sinni upplifun: „Þú
þarft að taka inn gríðarlegt magn af upplýsingum [...] og maður
situr bara með hausinn á yfirsnúningi og það er ekki séns að ná utan
um þetta sko“.
Þótt flestir teymisstjórar hafi komið inn í starfið með reynslu
annars staðar frá var margt öðruvísi frá fyrri reynslu sem þurfti að
setja sig inn í og óljóst hvað nákvæmlega tilheyrði þeirra starfi.
Þessu lýsti Anna:
„Suma daga nær maður ekki höfðinu upp úr vatninu“: Reynsla hjúkrunarfræðinga af starfi teymisstjóra í heimahjúkrun