Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 10
Viðtal
8 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Ört stækkandi hópur fólks
með ópíóíðavanda stærsta
áskorunin
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Varst þú alltaf ákveðin í að verða
hjúkrunarfræðingur?
Nei en ég var alltaf viðloðandi heilbrigðisgeirann, til dæmis var
ég læknaritari um tíma á röntgendeildinni í Fossvogi. Ég held að
það að verða hjúkrunarfræðingur hafi verið í undirmeðvitundinni
alla tíð því ég fann fyrir nokkrum árum minningabók sem ég
hafði skrifað í þegar ég var sjö ára og þar stóð að ég ætlaði að
verða hjúkrunarkona þegar ég yrði stór. Ég fór í Háskóla Íslands
í hjúkrunarfræði þegar ég var 25 ára og útskrifaðist í janúar árið
2004.
Hvert lá leiðin eftir útskrift?
Við fjölskyldan fluttum þá strax til Kaupmannahafnar þar
sem maðurinn minn var að fara í nám og ég fór að starfa
við heimahjúkrun. Það var mikill lærdómur og góð reynsla,
skjólstæðingarnir voru á öllum aldri og hjúkrunin fjölbreytt. Við
fluttum heim haustið 2004 og þá fór ég að starfa á gjörgæslunni í
Fossvogi sem var rosalega góð deild að vera á og ég fékk dýrmæta
reynslu þar. Það sem er öðruvísi á gjörgæsludeild er að þar er ekki
bara verið að hjúkra sjúklingum sem liggja inni á deildinni heldur
líka aðstandendum sem finnst aðstæður á gjörgæslu oft ógnandi.
Þetta var eins og fyrr segir dýrmæt reynsla en líka erfið; hjúkrunin
sjálf var þung og maður þurfti alltaf að vera í viðbragðsstöðu og
til taks í akút aðstæðum. Ég fann fljótt að þetta var ekki mín hilla í
faginu og fór þá að leita fyrir mér. Ég sá svo auglýsingu frá SÁÁ, að
hjúkrunarfræðing vantaði til starfa á Vogi, ég ákvað að sækja um
og fékk starfið. Ég hóf störf árið 2006 og nú 18 árum seinna er ég
enn á Vogi.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um stöðu
aðstoðardeildarstjóra?
Árið 2017 bauðst mér að taka við stöðunni en ég hafði þá verið
deildarstjóranum innan handar í nokkur ár. Það má kannski segja
að ég hafi unnið mig upp í starfið, sérstaklega varðandi daglega
stýringu á deildinni og yfisýn yfir mönnun og starfsmannamál.
Á vaktinni starfa um það bil 35 manns; hjúkrunarfræðingar,
sjúkraliðar, meðferðarfulltrúar og næturverðir. Vogur er lítil
stofnun og hér er gott flæði á milli hlutverka deildarstjóra og
aðstoðardeildarstjóra, störf okkar skarast að ákveðnu leyti
sem skapar góða samvinnu okkar á milli. Bryndís Ólafsdóttir er
deildarstjóri, við bætum hvor aðra upp, vinnum vel saman og
deilum með okkur verkefnum.
Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að
hafa?
Góður leiðtogi þarf að hafa mikla og góða samskiptahæfileika,
búa yfir jákvæðu viðmóti og vera lausnamiðaður. Mér finnst líka
mikilvægt að það sé auðvelt að leita til leiðtoga eða yfirmanna með
öll mál, líka litlu málin. Leiðtogi þarf líka að geta tekið ákvarðanir,
staðið með þeim og keyrt þær í gegn, hann má ekki efast um
sjálfan sig og starfsfólk verður að geta treyst á sinn yfirmann.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?
Ört stækkandi hópur skjólstæðinga með ópíóíðavanda, það þarf
að sinna þessum skjólstæðingum og grípa þá sem vilja aðstoð
fljótt því þetta er hópur sem þolir ekki bið. Umsvifin í kringum
hvern skjólstæðing með ópíóíðavanda eru mikil og rýmin hér á
Vogi þyrftu að vera mun fleiri ef við eigum að ná að sinna öllum
sem þurfa og vilja fá hjálp við sinni fíkn. Þetta er auk þess hópur
sem þarf sérhæfða göngudeildarþjónustu sem fer fram hér á Vogi.
Húsnæðið sem við höfum í dag undir þessa þjónustu er sprungið
og við þurfum einnig fleiri hjúkrunarfræðinga til að sinna þessum
hópi. Afeitrun fer fram á Vogi og svo fara margir á Vík í meðferð
en einnig er göngudeild í Efstaleiti og á Akureyri eru margir
meðferðarmöguleikar.
Hvernig hlúir þú að starfsfólki þínu sem þarf
stundum að takast á við krefjandi aðstæður?
Við tölum mikið saman og styðjum þannig hvert annað. Það fer
enginn starfsmaður einn inn í krefjandi aðstæður og ef starfsmaður
lendir í atviki sem tengist ofbeldi, hótun eða akút ástandi hjá
Leiðtoginn Ásdís M. Finnbogadóttir
Starfstitill: Aðstoðardeildarstjóri á sjúkrahúsinu Vogi.
Aldur: 49 ára.
Fjölskylduhagir: Gift Magnúsi Magnússyni, við eigum þrjú börn.
Leiðtoginn