Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 87
85
Ritrýnd grein | Peer review
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
UMRÆÐA
Í þessari rannsókn voru tvær mælingar skoðaðar hjá skjól-
stæðingum sykursýkismóttöku heilsugæslustöðvanna í Fjalla-
byggð og á Dalvík. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess
að reglubundin eftirfylgd og samvinna með skjólstæðingnum
geti skilað árangri á mælingum eins og HbA1c- blóðþrýstingi og
LÞS. Það samræmist niðurstöðum annarra rannsókna (Davies
o.fl., 2022; Miller o.fl., 2016; van Vugt o.fl., 2020). Meginniðurstaða
rannsóknarinnar var að meðal HbA1c gildi hópsins var innan
alþjóðlegra viðmiða á T2, í 72,7% tilfella, ásamt því að HbA1c, LÞS
og slagbilsþrýstingur lækkuðu marktækt á milli mælinga. Mæling
á T2 var valin vegna þess að einstaklingarnir voru búnir að fá
fræðslu og reglulegt eftirlit fram að T2, en móttakan hóf formlega
starfsemi í byrjun árs 2019. Hlutfall þeirra sem ná alþjóðlegum
viðmiðum í HbA1c- gildi er mismunandi eftir rannsóknum, t.d.
í Noregi (64%) (Bakke o.fl., 2019) og í Kanada (49,6%) (Leitier
o.fl., 2013). Í íslenskri rannsókn er hlutfallið um 43%. (Hafdís Lilja
Guðlaugsdóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir, 2018). Möguleg
skýring á lækkun HbA1c gildis getur verið að formlegt utanumhald
og eftirfylgni, teymisvinna og að reglubundin fræðsla fagaðila hafi
áhrif á árangur og meðferðarheldni einstaklinga. Veitt fræðsla var
skráð í 80,7% tilfella og mæting í móttöku var 81,8%. Í rannsókn
van Vugt o.fl. (2020) á Indlandi jókst meðferðarheldni hjá 30%
þátttakenda eftir einstaklingsmiðað eftirlit innan heilsugæslu.
Miðað við aðrar rannsóknir má sjá lækkanir á mælingum fyrstu eitt
til tvö árin eftir að reglubundin eftirfylgni hefst en til lengri tíma litið
(5 ár+) virðast mælingar hækka aftur (Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir
og Árún Kristín Sigurðardóttir, 2018; Miller o.fl., 2016).
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að algengustu fylgikvillarnir
voru hjarta- og æðasjúkdómar (84,1%) og um þriðjungur
hópsins hafði þróað með sér taugakvilla (28,4%). Fótaskoðun
er mikilvægur þáttur þegar kemur að því að meta taugakvilla og
ætti að vera gerð einu sinni á ári en það var einungis framkvæmt í
62,5% tilfella. Allir þátttakendur tóku lyf að staðaldri, flestir tóku
blóðþrýstingslækkandi lyf sem samræmdist algengi hjarta- og
æðasjúkdóma innan hópsins. Á sama tíma voru þó einungis 54,5%
sem tóku blóðfitulækkandi lyf. Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er
heldur hærri en í öðrum rannsóknum. Í rannsókn sem gerð var í
Noregi var tíðnin um 50% (Bakke o.fl., 2019), í Kanada um 30%
(Leiter, 2013) og í annarri íslenskri rannsókn 63% (Hafdís Lilja
Guðlaugsdóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir, 2018).
Hér kemur fram að um 21% þátttakenda notaði annars konar
blóðsykurslækkandi töflur en metformin. Ekki er ráðlegt að fólk
sem hefur skerta nýrnastarfsemi taki inn metformin (Inzucchi o.fl.,
2012). Átta prósent þátttakenda í þessari rannsókn voru með skerta
nýrnastarsfsemi sem var túlkað út frá Gfr<60, hækkun á kreatíni í
blóði og sjúkdómsgreiningum. Alþjóðasykursýkissambandið (IDF,
2021a) áætlar að tíðni nýrnakvilla sé um 40% á meðal fólks með
T2DM. Í rannsókn Das o.fl. (2012) kemur fram að tíðni nýrnakvilla
sé 65,1%. Tíðni nýrnakvilla þessarar rannsóknar var því heldur lág
samanborið við þetta. Tæplega helmingur (44,3%) þátttakenda
notaði GLP-1 hliðstæðulyf til að styðja við blóðsykurslækkun
en í rannsókn Hafdísar Lilju Guðlaugsdóttur og Árúnar Kristínar
Sigurðardóttur (2018) er notkun á GLP-1 hliðstæðulyfjum í
kringum 20%. Hér var fylgni á milli hærra HbA1c- gildis og þess að
nota GLP-1 hliðstæðulyf en notkun á GLP-1 hliðstæðulyfjum er að
aukast. Samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands hefur einstaklingum
sem hafa fengið greiðsluþátttöku í ATC-flokknum sem inniheldur
GLP-1 hliðstæðulyf fjölgað úr 479 einstaklingum árið 2019 í
tæplega 4.000 einstaklinga árið 2022 (Ásthildur Björnsdóttir,
viðskiptastjóri Novo Nordisk, munnleg heimild, 3. apríl 2023). Hér
lækkaði LÞS á milli mælinga sem mögulega má að einhverju leyti
rekja til notkunar á GLP-1 hliðstæðulyfjum. Niðurstöður þessarar
rannsóknar sýndu að þátttakendur stunduðu hreyfingu og gerðu
breytingu á mataræði en þetta tvennt hefur verið talið mikilvægur
hlekkur í heilsu þeirra sem eru með sykursýki, hefur áhrif m.a. á
LÞS, blóðþrýsting og HbA1c (Colberg o.fl., 2010; Umpierre o.fl.,
2011). Ráðleggingar um mataræði og hreyfingu eru mikilvægur
þáttur í vinnu hjúkrunarfræðinga innan móttöku. Ásamt því að
setja markmið með sjálfsumönnun (Aragón, 2019; Emery o.fl.,
2019; ÞÍH, e.d.).
Það er þekkt að einstaklingar vanmeti afleiðingarnar sem sykursýki
getur haft í för með sér vegna þess hversu dulinn sjúkdómurinn
er. Rannsóknum ber saman um að markmið meðferðar við
sykursýki sé að koma í veg fyrir eða seinka fylgikvillum ásamt því
að auka lífsgæði fólks (Davies o.fl., 2022; Mohamed o.fl., 2007).
Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu leggur einnig áherslu á
þessa þætti (ÞÍH, e.d.).
Við skoðun á þjónustu sykursýkismóttökunnar benda niðurstöður
þessarar rannsóknar til að móttakan vinni eftir þeim alþjóðlegu
viðmiðum sem mælt er með að unnið sé eftir, þ.e. skipulagi,
reglulegu eftirliti og fræðslu (Davies o.fl., 2022; ÞÍH, e.d.). Í
niðurstöðum Bautista o.fl. (2020) kemur fram að fræðsla og
eftirfylgni innan heilsugæslu hafi jákvæð áhrif á efnaskipti líkamans
sem samræmist niðurstöðum þessarar rannsóknar. Vinnulag
móttakanna í þessari rannsókn var á þann veg að skjólstæðingar
voru kallaðir inn í eftirlit eftir því sem við átti. Hjúkrunarfræðingar
sáu um allt utanumhald og innkallanir en ákvarðanir um meðferð
og eftirlit voru í samráði við lækna. Tilvísunum til næringarfræðings
og í hreyfiseðil var ábótavant en var vel nýtt þegar það kom
til. Það getur skýrst af fjarveru næringarfræðings seinni hluta
rannsóknartímabils og þess að tilvísun í hreyfiseðil er metin út frá
þörf hverju sinni. En 34,1% þátttakenda stunduðu reglubundna
hreyfingu. Móttakan hóf formlega starfsemi 2019 og var skráningu
ábótavant til að byrja með. Leita þurfti að upplýsingum í stað
þess að þær væru allar skráðar á einn stað á eyðublað vegna
sykursýki, en vinnulag batnaði og skráning jókst og varð ítarlegri
eftir því sem meiri reynsla kom á sykursýkismóttökuna. Þar
með voru upplýsingar aðgengilegri. Út frá fjölda skráninga og
samskiptaseðla má túlka að eftirfylgd skjólstæðinga hafi í heild
verið vel sinnt á rannsóknartímabilinu. Áætlað var að kanna
notkun á Streitulistanum (PAID) sem skimar fyrir streitu í tengslum
við sykursýkina en listinn var einungis lagður fyrir einn einstakling
og því ekki hægt að rýna í niðurstöður honum tengdar. ÞÍH (e.d.)
mælir með að listinn sé lagður fyrir til að skima fyrir sálrænum
vandamálum hjá fólki með sykursýki.
Mikilvægt er að skrá upplýsingar skjólstæðinga í sykursýkismóttöku
á þar til gert eyðublað, sem ætlað er sykursýkismóttökum, í
Sögukerfinu. Með því liggja upplýsingarnar sem mest á einum stað
og auðveldar meðferðaraðilum að hafa yfirsýn yfir hvert tilfelli fyrir
sig. Mikilvægt er að fylgjast með hversu vel meðferðarmarkmið
nást, sjá breytingar sem verða á milli ára og rýna í það sem gengur
vel og það sem betur má gera. Fyrst og fremst skiptir máli að
hjúkrunarfræðingar tileinki sér strax þá verkferla sem alþjóðleg
viðmið mæla með að unnið sé eftir, með því er hægt að fá sem
bestan árangur. Sem dæmi má nefna þá er LÞS skráður hjá 83%
þeirra sem að mæta í móttöku sem ætti öllu jafna að vera hærra.
Samskiptaseðill vegna sykursýki leiðir fagaðilann skref fyrir skref
í gegnum ferlið og því ætti ekkert að gleymast í framkvæmd og
skráningu.