Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 45
43
Ritrýnd grein | Peer review
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Mér fannst ég verða
aftur ég sjálf -
Reynsla kvenna af
notkun hormóna-
uppbótar meðferðar
á breytingaskeiði
INNGANGUR
Náttúruleg tíðahvörf eru skilgreind sem varanleg stöðvun tíða eftir 12 mánaða tíðateppu án
annarra meinafræðilegra eða lífeðlisfræðilegra orsaka (La Rosa o.fl., 2019). Talað er um þrjú
stig breytingaskeiðs: Breytingaskeið, tíðahvörf og eftirtíðahvörf. Breytingaskeið er tímabil frá
fyrstu einkennum að tíðahvörfum sem getur hafist allt að 10 árum áður en tíðahvörf eiga
sér stað. Á þessu skeiði getur konan upplifað ýmis líkamleg og andleg einkenni. Tíðahvörf
eru greind þegar tólf mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum (Verdonk o.fl., 2022). Skeiðið
eftirtíðahvörf tekur síðan við sem er skilgreint sem „allt æviskeið konunnar eftir að tíðahvörf
eru að fullu komin fram“ ( CEMCOR, ed.). Meðalaldur kvenna sem fara í tíðahvörf er 51 ár.
Þegar kona er í kringum 45 ára þá lækka kvenhormón í líkama hennar og þessi lækkun getur
leitt til aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta getur leitt til þess að helmingur
kvenna þrói með sér háþrýsting en einnig aukast líkur á hækkun á kólesteróli, aukningu á
líkamsþyngd og þróunar á sykursýki tegund 2 (Verdonk o.fl., 2022).
Tíðahvörf kvenna marka varanleg lok tíðablæðinga og einkenni geta jafnvel aukist. En
einkennin eru t.d. hitakóf, liðverkir, skapsveiflur, svefntruflanir, minnistap, þurrkur í
leggöngum, rýrnun í slímhúð legganga og þyngdaraukning (Jayasena o.fl., 2019; Samarasiri
o.fl., 2017; Vaccaro o.fl., 2021). Talið er að 60-80% kvenna í Bandaríkjunum upplifi hita-
og svitakóf á breytingaskeiði eða tíðahvörfum og finna 32-46% kvenna fyrir miðlungs eða
alvarlegum einkennum. Miðgildið í árum hjá konum sem upplifa hita- og svitakóf er 7,4 ár
(Shiozawa, 2023). Í rannsókn Yisma et al. (2017) þar sem tíðni ýmissa tíðahvarfaeinkenna
voru skoðum meðal kvenna á aldrinum 30-49 ára kom fram að algengustu einkenni
tíðahvarfaeinkenna voru; hitakóf (65,9%), erfiðleikar við að sofna (46,6%), þunglyndiseinkenni
(46,0%) pirringur (45,1%) og kvíði (39,8%).
Á eftirtíðahvörfum stuðlar lækkandi magn hormóna að aukinni hættu á vöðvarýrnun,
þunglyndi, beinþynningu, aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og illkynja sjúkdómum
(La Rosa o.fl., 2019). Eftir tíðahvörf kvenna aukast líkur á mjaðmagrindarbroti og þvagleka.
Sumar konur upplifa einnig minnkaða kynhvöt og minni tíðni kynferðislegra hugsana á
breytingaskeiðinu og eftir tíðahvörf (Jayasena o.fl., 2019). Þessi einkenni geta haft mikil áhrif
á daglegt líf kvenna og geta leitt að lokum til verri lífsgæða (Samarasiri o.fl., 2017). Lífslíkur
kvenna hafa aukist talsvert síðustu áratugi og í dag má búast við að 50% kvenna muni ná
90 ára aldri árið 2030 (Lambrinoudaki o.fl., 2022). Niðurstöður Moser og félaga (2020) sýndu
að konur sem eru með einkenni breytingaskeiðs eru marktækt líklegri til þess að upplifa
þunglyndi, kvíða og svefnleysi.
Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi um breytingaskeiðið og tíðahvörf og engar
tölulegar upplýsingar eru fáanlegar um tíðni einkenna eða hormónauppbótarmeðferðar
meðal kvenna. Í rannsókn Ásthildar Björnsdóttur (2017) á reynslu kvenna á breytingaskeiði,
Höfundar
ÍRIS DRÖFN BJÖRNSDÓTTIR
Hjúkrunarfræðingur,
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
SIGFRÍÐUR INGA KARLSDÓTTIR
Prófessor við Háskólann á Akureyri
SÓLRÚN ÓLÍNA SIGURÐARDÓTTIR
Hjúkrunarfræðingur,
Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins