Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 44
Ritrýnd grein | Peer review
Mér fannst ég verða aftur ég sjálf -
Reynsla kvenna af notkun
hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði
ÚTDRÁTTUR
Tilgangur
Tilgangur þessarar rannsóknar var að afla aukinnar þekkingar á reynslu
kvenna af hormónauppbótarmeðferð á breytingaskeiði. Breytingaskeið
getur hafist allt að 10 árum áður en tíðahvörf skella á. Á þessu skeiði getur
konan upplifað ýmis líkamleg og andleg einkenni. Hormónameðferð tengd
breytingaskeiði er árangursríkur meðferðarmöguleiki til meðhöndlunar á
líkamlegri og andlegri vanlíðan.
Aðferð
Eigindleg fyrirbærafræðileg aðferð var valin og stuðst við
Vancouver-skólann í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru 12 íslenskar
konur á aldrinum 47-53 ára sem höfðu verið á hormónauppbótarmeðferð
síðustu 3-24 mánuði og voru valdar með tilgangsúrtaki. Tekin voru 12
einstaklingsviðtöl, rituð upp orð fyrir orð og að lokum þemagreind.
Niðurstöður
Yfirþema rannsóknarinnar var: Mér fannst ég verða aftur ég sjálf. Jafnframt
voru sex meginþemu greind: Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann,
Það kviknaði aftur á mér, Félagsleg tengsl byggð upp, Eftirsjá að tímanum
sem ég missti, Virk hlustun og samskipti og Þetta þroskar mann. Konurnar
greindu frá jákvæðum líkamlegum, andlegum og félagslegum breytingum
eftir að þær byrjuðu á hormónauppbótarmeðferð. Til dæmis hurfu verkir
í liðum og þær hvíldust betur á nóttunni sem var ein af ástæðum þess að
þær byrjuðu á hormónameðferð. Í rannsókninni kom fram að konurnar
hefðu viljað fá greiningu fyrr þar sem þær áttu nokkrar læknisheimsóknir
að baki og upplifðu eftirsjá að tímanum þegar þær voru að kljást við
einkenni breytingaskeiðs. Einnig hefðu þær viljað fá meiri skilning frá
fagfólki þegar þær leituðu eftir aðstoð.
Ályktun
Álykta má að hormónauppbótarmeðferð bæti verulega líkamlega-,
andlega- og félagslega líðan kvenna á breytingaskeiði. Mikilvægt
er að heilsugæslan komi til móts við konur sem eru að ganga í
gegnum breytingaskeiðið og bæti stuðning og fræðslu til þeirra um
breytingaskeiðið þannig að þær geti tekið upplýsta ákvörðun um ávinning
og áhættuþætti hormónauppbótarmeðferðar.
Lykilorð
Hormónauppbótarmeðferð, breytingaskeið, reynsla, konur, fyrirbærafræði.
HAGNÝTING
RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA
Hvaða nýjungar koma fram í
niðurstöðum þessarar rannsóknar?
Konur upplifa mikla byltingu á lífsgæðum við
að fara á hormónauppbótarmeðferð. Það tók
oft langan tíma fyrir þær að fá rétta greiningu
og upplifðu þær eftirsjá að tíma þegar þeim
hefði getað liðið betur. Konurnar hefðu
viljað fá meiri hlustun og viðurkenningu frá
heilbrigðisstarfsfólki.
Hagnýting
Mikilvægt er að bæta fræðslu til einstaklinga og
fagfólks heilsugæslunnar um breytingaskeiðið
og hormónauppbótarmeðferðir. Síðustu ár
hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu
og bæði hið opinbera og einkareknar
heilbrigðisþjónustur boðið upp á fræðslu um
breytingaskeiðið. Mikilvægt er að halda áfram
þessari vinnu og bæta fræðslu til einstaklinga
og fagfólks heilsugæslunnar um breytinga-
skeiðið og hormónauppbótarmeðferðir.
Hvaða þekkingu bæta niðurstöður
þessarar rannsóknar við hjúkrunar-
fræði?
Niðurstöður gefa til kynna að þátttakendur
endurheimtu það líf sem þær áttu áður en þær
fóru á breytingaskeiðið. Þátttakendur upplifðu
eftirsjá að tímanum sem þær hefðu getað verið á
fullum dampi ef þær hefðu verið meðhöndlaðar
fyrr með hormónauppbótarmeðferð. Einnig
hafði vanlíðan fyrir hormónauppbótarmeðferð
áhrif á félagsleg tengsl þátttakenda.
Áhugavert væri að rannsaka reynslu kvenna af
hormónauppbótarmeðferð með megindlegum
aðferðum þar sem hægt væri að nota stærra
úrtak og greina betur hvaða áhrif slík meðferð
hefur á líðan kvenna.
Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga
Rannsóknin sýnir að mikilvægt er fyrir
hjúkrunarfræðinga að halda áfram að efla
fræðslu og ráðgjöf um breytingaskeiðið og
tíðahvörf til kvenna. Í dag mega heilsugæslu-
hjúkrunarfræðingar sem eru með meistarapróf
og hafa farið í námið Ráðgjöf um getnaðarvarnir
og lyfjaávísanir, skrifa upp á getnaðarvarnir.
Mögulegt er að víkka út þetta starfssvið og
bjóða hjúkrunarfræðingum einnig upp á
menntun um hormónauppbótarmeðferðir
hjá konum. Það er því mikilvægt að
hjúkrunarfræðingar taki það hlutverk að sér
að sinna aukinni þörf kvenna fyrir fræðslu
og stuðning í kringum breytingaskeiðið.
En með því gætu hjúkrunarfræðingar sinnt
aukinni ráðgjöf á heilsugæslu til kvenna um
breytingaskeiðið og mögulega skrifað upp á
hormónauppbótameðferð ef þörf er á því.
doi: 10.33112/th.100.2.1