Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 56
54 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Samkvæmt höfundum PREMIS má aðlaga listann að öðrum
heilbrigðisstéttum, nota efni hans sem útgangspunkta í fræðslu
um ONS eða nota til að kanna þekkingu sama hóps fyrir og eftir
fræðslu. Áreiðanleiki (Cronbach‘s alpha (a), jafnframt kallað innra
samræmi) upprunalega PREMIS er a=0,65-0,96 fyrir lykilkvarða
og undirkvarða listans (Short o.fl., 2006). PREMIS hefur verið
þýddur og staðfærður á grísku og spænsku og þar hélt mælitækið
áreiðanleika sínum gegnum þýðingarferlið (Cases o.fl., 2015;
Papadakaki o.fl., 2013; Papadakaki o.fl., 2012; Rodríguez-Blanesa
o.fl., 2017). Eins hefur PREMIS verið aðlagaður og notaður að hluta
eða öllu leyti til að kanna þekkingu ýmissa heilbrigðisstarfsstétta
og nemenda á ONS eða þá verið notaður í fræðslu (Baird o.fl.,
2015; Connor o.fl., 2011; McAndrew o.fl., 2014; Sawyer o.fl., 2017).
Staðfærsla spurningalista
Mikilvægt er að vanda til við þýðingu og aðlögun spurningalista
að nýrri menningu svo spurningalistinn haldi áreiðanleika
sínum og hugsmíðaréttmæti í gegnum þýðingarferlið (American
Educational Research Association (AERA) o.fl., 2014; Hambleton,
2005; International Test Commission (ITC), 2017; Wild o.fl., 2005).
Ástæðan er sú að þegar spurningalistar eru þróaðir, þá eru þeir
hannaðir fyrir ákveðinn hóp fólks, fyrir ákveðið tungumál og
ákveðna menningu. Þegar heimfæra á spurningalista yfir á annað
menningarsvæði er ekki sjálfgefið að hugsmíðaréttmæti haldi sér.
Helstu samtök innan mælifræðigreina hafa gefið út staðlahandbók
um gerð og notkun matstækja á spurningalistaformi (AERA o.fl.,
2014). Samkvæmt handbókinni og viðmiðum ITC (2017) verður
að gæta þess að listinn endurspegli menningu þess lands sem
nota á hann í og að hann passi fyrir þann úrtakshóp, að hafa hæfa
þýðendur sem hafa gott vald á upprunalegu tungumáli og því máli
sem á að staðfæra listann yfir á. Þó er tungumálaþekking ein og
sér ekki nægjanleg, því þýðendur og ritrýnar þurfa einnig að hafa
góða þekkingu á þeirri menningu sem listinn er ætlaður fyrir sem
og tungutakinu sem svarendahópur listans notar. Í þessu tilfelli er
átt við tungutak heilbrigðisstarfsfólks. Mælt er með því í flestum
tilfellum að nota bæði þýðingu og bakþýðingu. Bakþýðing felur í
sér að listinn er þýddur aftur yfir á upprunalegt tungumál til að
ganga úr skugga um að innihald spurninga haldi sér í þýðingunni.
Sömuleiðis er mælt með að ritrýna niðurstöður bakþýðingar og
leiðbeininga með mælitækinu, með hliðsjón af skýrleika texta
og málvenjum viðkomandi hóps (AERA o.fl., 2014). Megindleg
prófun á borð við þá sem hér er lýst er nauðsynlegur þáttur góðrar
staðfæringar á spurningalista ætluðum öðru menningarsvæði
(Einar Guðmundsson, 2006; Guðmundur T. Heimisson, 2021b).
Með prófun er ekki bara verið að kanna hvort þátttakendur geti
svarað spurningum mælitækis, heldur er líka verið að kanna
uppbyggingu, orðanotkun, skýrleika og annað sem tengist
spurningalistanum (Beatty og Willis, 2007; Collins, 2003, Einar
Guðmundsson, 2005-2006¸ Guðmundur T. Heimisson, 2021a).
AÐFERÐ
Haft var samband við dr. Short, aðalhöfund PREMIS, og leyfi fengið
fyrir notkun. Ásamt listanum komu leiðbeiningar um hvernig á
að vinna úr listanum og kóða til að nota við úrvinnslu. Auk þess
bauðst dr. Short til þess að yfirfara ensku bakþýðinguna á PREMIS
til að tryggja að upprunalegt innihald spurninganna myndi halda
sér í gegnum þýðingarferlið. Þýðingarferli PREMIS var sett upp í tíu
skref til að uppfylla áðurnefndar kröfur um þýðingu spurningalista
(sjá töflu 1).
Tveir hjúkrunarfræðingar með meistaragráðu þýddu PREMIS.
Báðir hafa íslensku að móðurmáli en hafa gott vald á ensku og
reynslu innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Annar þýðandinn
hefur einnig reynslu af því að vinna í bandaríska heilbrigðiskerfinu.
Þýðendurnir þýddu PREMIS hvor í sínu lagi. Fyrsti höfundur
fór yfir þýðingar, skoðaði vafaatriði með þýðendum, hvorum í
sínu lagi, og setti saman fyrstu útgáfu af íslenska PREMIS sem
hér eftir verður kölluð PREMIS-IS. Einn bakþýðandi var fenginn
til að þýða PREMIS-IS aftur yfir á ensku. Bakþýðandinn var ekki
kunnugur PREMIS-listanum fyrir og hafði ekki komið að þýðingar-
ferlinu fram að þessu. Það er mikilvægt að bakþýðandi sé ekki
kunnugur upprunalega listanum til að skekkja ekki bakþýðinguna
(ITC, 2017). Bakþýðandi er íslenskur læknir með M.D.-gráðu
frá enskumælandi háskóla. Bakþýðingin var borin saman við
frumþýðinguna og síðan við upprunalegu ensku útgáfuna. Eftir
lagfæringar var bakþýðingin send dr. Short til yfirferðar. Eftir
nokkrar lagfæringar var PREMIS-IS tilbúinn fyrir hugarferlaviðtöl.
Þátttakendur
Úrtakið fyrir forprófun PREMIS-IS var heilbrigðisstarfsfólk
sem nálgast var með hentugleika- og snjóboltaúrtaki gegnum
samfélagsmiðla og tölvupóst. Hentugleikaúrtak varð fyrir
valinu þar sem markmið rannsóknarinnar var ekki að yfirfæra
niðurstöður yfir á þýðið. Hentugleikaúrtök eru notuð til að kanna
tengsl breyta innbyrðis (Hjördís Sigursteinsdóttir, 2021) þ.e. að
kanna hvort innihald PREMIS héldi sér í gegnum þýðingarferlið.
Þar sem erfiðlega gekk að fá þátttakendur í upphafi var
snjóboltaúrtaksaðferð bætt við. En þá eru þátttakendur beðnir að
benda á aðra hugsanlega þátttakendur (Hjördís Sigursteinsdóttir,
2021). Í forprófun svöruðu samtals 177 heilbrigðisstarfsmenn
listanum að hluta til eða í heild. Svarendahópurinn var mjög
breiður og kom víða úr heilbrigðiskerfinu. Sjá bakgrunn svarenda
í töflu 2. Fimm heilbrigðisstarfsmenn sem valdir voru með
hentugleikaúrtaki voru fengnir í hugarferlaviðtöl.
Framkvæmd
Spurningalistinn var settur upp á Google Forms og forprófunin fór
eingöngu fram í gegnum netið. Svartími var áætlaður um það bil
25 mínútur.
Hugarferlaviðtölin fóru fram fyrir forprófun með fyrsta höfundi og
einum þátttakanda í einu. Fyrst las þátttakandi listann upphátt um
leið og hann svaraði listanum skriflega. Á meðan skrifaði höfundur
Þýðing og prófun á PREMIS: Spurningalisti til að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ofbeldi í nánum samböndum
Tafla 1. Þýðingarferlið
1. Nákvæm undirbúningsvinna og almenn grunnvinna fyrir þýðingu.
2. Þýðing frá ensku yfir á íslensku. Tveir þýðendur með reynslu úr heil-
brigðiskerfinu og málnotkun heilbrigðisstarfsmanna.
3. Þýðingar bornar saman og sett saman fyrsta íslenska útgáfan, PREMIS-IS.
4. Bakþýðing PREMIS-IS yfir á ensku. Einn bakþýðandi.
5. Bakþýðing borin saman við upprunalegu þýðingu. Kanna innihald
spurninga gegnum bakþýðingarferlið.
6. Samræming bakþýðingar. Bæði við upprunalega PREMIS og Dr. Short fór
einnig yfir bakþýðingu. Lagfæring á PREMIS-IS.
7.
Hugarferlaviðtöl við fimm heilbrigðisstarfsmenn. Rýnt í orðalag og
skilning þátttakenda á orðanotkun í PREMIS-IS. Eins hvort listi passi inn í
íslenskt heilbrigðiskerfi hvað varðar orðanotkun og málnotkun.
8. Lagfæringar á PREMIS-IS út frá niðurstöðum úr hugarferlaviðtölum.
9. Prófarkalestur á PREMIS-IS.
10. Skýrsla um ferlið.