Goðasteinn - 01.09.1993, Síða 35
hávöðum. Mólagið getur orðið 4—6 m þykkt í Holtunum. í nánd
við forna farvegi ísalokaelfanna má finna foksandhóla, sem nd
eru orðnir að föstu bergi, þó mátulega linu til að grafa í það mann-
gerða hella. Þar er landið þurrara, því að vatn sígur þar greiðar
niður. Forn fjörusandur liggur við þjóðveg, þar sem er Selsandur
í dalverpi Steinslækjar. A sandinum er gróðurleysa og uppblást-
ur, enda fjörusandar með lekari jarðefnum. Um ofanverð Holtin
mynda grágrýtishraun frá hlýskeiðum ísaldar víða holt og hæðir,
sem geta oft verið sæmilega þurr. Þar gætir meiri lektar í ungu
grágrýtinu. Sama er að segja um grófar malarfyllur fram undan
jökulgörðunum miklu, efst í Holtunum, sem eru fornar eyrar.
Ofanverð Landssveit og Rangárvellir eru þakin hraunum, sem
runnið hafa eftir að ísöld lauk. Ófyllt og óveðruð hraun eru ein-
hver iekustu jarðlög, sem finnast hérlendis, enda vella vatnsmikl-
ar lindir fram undan hraununum á þessum slóðum. Öskulög og
áfok á yfirborði hraunanna þétta þau, afstætt séð, þó þess háttar
jarðlög séu í sjálfu sér lek. Þau hægja því á niðursigi úrkomunnar
og gefa gróðri tíma til að nýta vatnið. Einnig hindra þau, að fínni
fokefni skolist beint ofan í hraunin, en þau þétta svo yfirborðið og
geta leitt til jarðvegsmyndunar. Jarðvegsþekjan á hraununum
heldur svo betur í jarðrakann, og raunar því betur sem hún er
þykkari. Þurrlendisgróður getur því verið blómlegur á hraunun-
um, þar sem jarðvegur hefur náð að myndast. Þar sem grunnt er
á rennandi grunnvatn, eða þétting jarðvegs er mjög mikil, getur
meira að segja myndast deiglendi.
Þurrt er víða um neðanverða Rangárvelli og niður um Hvol-
hrepp, þó þar séu engin hraun undir. Því valda þykkir og grófir
jökulársandar frá lokum ísaldar. Veglegir jökulgarðar liggja um
ofanverð Holt frá Búðafossi og austur að Ytri-Rangá hjá Snjall-
steinshöfða, en austan ár liggja þeir áfram austur, ofan við
Gunnarsholt. Þeir marka legu jökuljaðars í eina tíð. Undan þess-
um jökli hafa fallið jökulelfur miklar og skolað með sér möl og
sandi. Mestur hefur vatnsflaumurinn orðið þar sem landið stóð
lægst, en það er á Rangárvöllum. Þar hefur líka borist fram mest
af auri og liggja nú eftir flatir og hallandi jökulársandarnir ofan
að Þverá. Þessir sandar eru lekir, einkunt nær upptökum, þar sem
Goðasteinn 3
33