Goðasteinn - 01.09.1993, Page 42
réttu kalla náttúruhamfarir. Hér á eftir verður stuttlega gerð grein
fyrir nokkrum hliðum á áhrifum sumra þessara þátta.
Jarðskjálftar
Jarðskjálftar eru einhverjar hinar geigvænlegustu náttúruham-
farir, sem við þekkjum. Þeir valda spjöllum, ógn og skelfingu á
stórum svæðum samtímis. Hins vegar spilla þeir ekki landkostum
til langframa, svo orð sé á gerandi. Aðalspjöllin eru hrun húsa og
felmtur og hræðsla hjá fólki og fénaði. Endurreisn húsa - og hug-
arróar, að mestu - tekur ekki alltaf langan tíma, að jafnaði, en
veldur þó um skeið verulegri fyrirhöfn, óþægindum og kostnaði.
Jarðskjálftarnir valda þannig tímabundið mikilli röskun, en spjöll
af þeirra völdum eru lítil til lengri tíma. Einni tegund landbreyt-
inga af völdum skjálftanna getur meira að segja brugðið til beggja
vona um spjöll eða landbætur. Það eru sprungurnar, sem myndast
sums staðar við skjálftana. Á skjálftabeltinu á Suðurlandi stefna
þær yfirleitt frá suðri til norðurs, eða því sem næst. I þeim geta
verið fjárhættur, en í annan stað opna þær stundum leið ofan í
grunnvatn á þurrklendissvæðum.
Stórfelldir jarðskjálftar hafa orðið á Suðurlandi, nærfellt nteð
aldar bili hinar seinni aldir, sem heimildir ná til. Vara skjálftarmr
jafnan nokkra mánuði, með rykkjum og hléum. Hafa þeir í seinni
tíð verið kallaðir Suðurlandsskjálftar. Þeirra hefur gætt mest á
belti frá Ölfusi og austur í Landsveit og Rangárvelli. Síðasti
skjálftinn varð 1896 og er nú hins næsta beðið, þó ekki sé það með
óþreyju. Eru góðar heimildir um skjálftann 1896, m.a. frá Þor-
valdi Thoroddsen (1899). Miklir skjálftar urðu 1784 og hrundu þá
m.a. hús biskupsstólsins í Skálholti. Þeir komu í kjölfar Skaftár-
elda og juku til muna á eymdina á Suðurlandi. Afleiðingum þeirra
lýsti m.a. Hannes biskup Finnsson (1970/1796). Svo virðist sem
byggð á Suðurlandi hafi rétt furðu fljótt við eftir þessa ógnar-
skjálfta, svo örðugar sem aðstæður allar voru að öðru leyti. Renn-
ir það stoðum undir þá skoðun, að jarðskjálftar valdi hvorki land-
kostarýrnun né búseturöskun til langframa, svo sviplegir sem þeir
eru, meðan á þeim stendur.
40
Goðasteinn