Goðasteinn - 01.09.2007, Page 34
Goðasteinn 2007
ekki af því. Hann hafði aldrei sagt henni frá því enda kom henni það bara ekkert
við. Sumt er betra að vita ekki hafði hann hugsað þegar hún spurði hann hvernig
hefði gengið í fjósinu meðan hún var að heiman. „Það gekk bara vel,“ hafði hann
sagt. Honum fannst að hún hefði ekki trúað sér en hún spurði ekki frekar út í þetta.
Eins gott kannski því að hann vissi að hann hefði ekki staðist augnaráð hennar til
lengdar. Það var eitthvað við þessi augu. Það var eins og þau vissu allt sem ekki
átti að vitnast eða var hann kannski sjálfur ekki alveg með hreina samvisku?
Kannski ekki en maður mátti nú eiga sín leyndarmál í friði, eða hvað? Skrítin
þessi samviska, hvað var hún að stjórna hans málum. Björg hafði stundum sagt
við hann að hann ætti að leita sér hjálpar, fara til sálfræðings eða geðlæknis.
Hvílíkt bull. Það var ekkert að. Hann var ennþá ungur og frískur og hafði alveg
stjórn á sínum málum, fannst honum. Samt læddist að honum sá grunur einstaka
sinnum að Björg hefði nú eitthvað til síns máls. Hvað myndu nágrannar hans
halda um hann ef þeir fréttu að hann gengi til sálfræðings? Þeir myndu halda að
hann væri klikkaður. Til þess mátti hann ekki hugsa. Maður átti nú sitt stolt. Ætti
hann kannski að fara og tala við prestinn? Það væri kannski ekki vitlaus hugmynd.
Æ, hann var ekki viss, ekki að hugsa um það núna. Annars var þessi nýi prestur
víst ansi huggulegur. Ung og einhleyp kona. Kannski yrði Björg ekki ánægð með
að hann færi að ræða við hana um vandamál sín. Kannski voru bara engin vanda-
mál til staðar. Kannski að hann myndi spyrja Björgu þegar þau væru komin í
rúmið í kvöld hvernig henni litist á þessa hugmynd. Hann yrði auðvitað að vera
tilbúinn að opna sig við prestinn. Hvernig ætli það myndi ganga? Hún svona ung
og falleg og bláókunnug að auki. Hann sem gat ekki einu sinni talað við konuna
sína um allt það sem honum lá stundum á hjarta. Honum fannst að Björg hefði
ekki alltaf skilið það sem hann var að reyna að segja henni ef honum leið illa. Hún
sagði að hann væri stundum að velta sér upp úr smámunum sem engu máli skiptu.
Hann var ekki sammála en sagði ekkert bara til að halda friðinn. Samt leið honum
ekki vel á eftir þegar þessi staða kom upp. Stundum langaði hann til að gráta en
kunni ekki við það fyrir framan Björgu. Hann hafði stundum vatnað músum en
bara smávegis og þá bara þegar enginn sá til. Kannski var hann svona lokaður eða
bara gat ekki tjáð sig á eðlilegan hátt. Kannski væri bara best að láta sig hverfa frá
þessu öllu saman. Ætli það myndi einhver sakna hans? Hann var ekki viss. Átti
hann að stinga af, skrifa bréf og hverfa svo bara eitthvað út í buskann? Kannski
var það ekki rétta leiðin. Hann hafði stundum verið að hugsa um að stinga af, fara
eitthvað út í heim og týnast þar. Hann hafði einu sinni verið kominn með
kindabyssuna í hendurnar en fann hvergi skotin. Svo hafði hann séð að þetta var
engin lausn. Honum þótti ennþá vænt um Björgu og hvað myndi dóttir hans halda
um hann ef hún svo mikið sem frétti af þessu? Hann yrði ekki merkilegur pappír í
hennar augum á eftir. Nei, þá var betra að bfta á jaxlinn og reyna að horfa fram á
32