Goðasteinn - 01.09.2007, Page 65
Goðasteinn 2007
Ég fór svo sem leið lá inn úr Litlu-Streitum og allt inn fyrir Mið-Kanastaðagil
og lagði síðan á brattann í áttina upp á Hest. Öðru hvoru reyndi ég að kalla í Þor-
stein um talstöðina en það var slitrótt samband. Heyrði ég þó aðeins í þeim yfir
Fauskheiðina og virtist þeim ganga allvel inn úr Tröllagjá. Síðan var þögn í tækj-
unum langa hríð.
Ég seiglaðist móti brekkunni og norðangarranum og stefndi vestan við Hest til
að komast yfir efstu drög Hestgilsins sem er djúpt og hrikalegt hamragil sunnan
við fjallið Hest og dýpkar til austurs uns það mætir ennþá miklu dýpra Gilsár-
gljúfrinu.
Það mun hafa verið að nálgast hádegi þegar ég stóð uppi á há-Hesti í norðan
sveljanda og grimmdar gaddi. Ég hugðist taka til nestis míns úr úlpuvasanum,
brauðsamloku með vænni kjötsneið en hún reyndist þá svo harðgödduð að til
einskis var að reyna að bíta í hana að svo stöddu. En nú náðist aftur samband við
Þorstein.
Þeir voru að klóra sig upp með Hrútkolli fyrir vestan Einhyrning og gekk seint.
Betur þó þegar upp kom og hallaminna varð um sinn. Sá ég brátt til ferða þeirra í
sjónaukanum og gat fylgst með er þeir lögðu í brekkurnar norðvestan Einhyrnings
sem leið lá upp á Síki. En þar reyndist brátt þungt fyrir. Þótt hin öfluga, stórhjóla
dráttarvél væri búin keðjum í bak og fyrir, urðu nú fyrir fannadyngjur sem örðugri
reyndust eftir því sem ofar dró.
Þarna skefur stórfenni í brekkurnar í norðaustanátt. Austan Einhyrnings hefði
e.t.v. mátt komast hærra upp en norðan hans var þá gjörófært vegna hliðarhalla,
þar sem vegurinn hefur síðar verið skorinn inn í hlíðina.
Kaldsamt var uppi á Hesti að fylgjast með þeim færast hægt og hægt upp undir
Síkisbrúnir. Loks kom þar að allt sat fast, þrátt fyrir að kerran hefði verið skilin
eftir og fjórir menn mokuðu eftir megni. Þótt ekki væri kóf að ráði, var nægur
sargandi til að fylla jafnharðan í skófluförin. Þessi barátta stóð eina tvo eða þrjá
tíma. Þá tilkynnti Þorsteinn að þeir hefðu afráðið að skilja vélina eftir og halda
áfram fótgangandi inn að Hellrum og gista þar. Þótti mér það djörf ákvörðun, því
að þeir voru án viðlegubúnaðar.
En þar með var mínu hlutverki lokið og hugðist ég hraða mér til byggða enda
orðinn nokkuð gegnblásinn og kaldur.
En þegar ég fer að huga að niðurleið, ofan af hamrabrúninni á Hesti, kem ég
auga á fjórar kindur neðst í Hesttorfunni, í norðurbrún Hestgilsins. Mér varð fyrst
fyrir að kalla þessi tíðindi í gegnum tækin til Þorsteins og velta upp þeirri spurn-
ingu hvort þarna gæti verið um að ræða sömu kindurnar og þeir væru að leita að.
Eftir lýsingu minni á kindunum fjórum kvað hann þá vissa um að svo væri ekki.
Ég reyndi nú að læðast austur með hömrum og niður austan við kindurnar til að
freista þess að beina þeim vestur og upp með gilinu þar sem það verður grynnra.
63