Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 2
4
Jón Rúnar Sveinsson tekur hið félagslega húsnæðiskerfi á Íslandi til umfjöllunar. Hann
kemst að þeirri niðurstöðu að þróun félagslegra íbúðabygginga fór hér hægt af stað og allt
fram á sjöunda áratug 20. aldar var lítið byggt, bæði í samanburði við almennar íbúðabygg-
ingar á Íslandi og við það sem þekktist erlendis. Hinar félagslegu íbúðir hér á landi voru
lengst af í einkaeign, en það var mjög fátítt erlendis. Verkalýðshreyfing og verkalýðsflokkar
voru virkir aðilar framan af í baráttu fyrir félagslegu húsnæði en frumkvæðið færðist síðar á
hendur ríkis og sveitarfélaga. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar varð allsráðandi við lok síð-
ustu aldar, sem gerði að verkum að félagslega kerfinu var lokað og treyst var eingöngu á
frjálsan húsnæðismarkað. Sú ákvörðun setur fjölda Íslendinga miklar skorður þar sem þeir
eiga erfitt með að komast yfir húsnæði eftir efnahagshrunið. Jón Rúnar spáir því að það dragi
úr séreignarstefnunni á næstu árum líkt og gerðist í Finnlandi eftir hinar miklu efnahagsþreng-
ingar þar í landi.
Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg fjalla um fordóma og geðræn vandamál á
Íslandi í samanburði við Bandaríkin og Þýskaland. Niðurstöður þeirra sýna að fordómar eru
minni á Íslandi en í Bandaríkjunum, en virðast í flestum tilfellum vera meiri en í Þýskalandi.
Almenningur á Íslandi hefur meiri fordóma gagnvart geðræn vandamálum en líkamlegum.
Samanburðurinn við Bandaríkin og Þýskaland sýnir fram á að sömu þættir hafa oft áhrif á
fordóma á Íslandi og í samanburðarlöndum, en í sumum tilfellum eru niðurstöðurnar ólíkar.
Greinar þær sem hér birtast sjónum lesenda endurspegla þá breidd sem félagsfræðin
hefur að geyma hvað aðferðir og kenningar varðar. Þær spanna allt frá gagnrýnni kenn
ingarlegri hefð til spurningalistakannana þar sem beitt er ályktandi tölfræði í anda raunhyggju.
Það er einlæg ósk ritstjórnar og útgefenda að viðtökur tímaritsins verði góðar – að það
sjáist fljótt að þörf sé á sérstöku tímariti félagsfræðinga á Íslandi. Við hvetjum félagsfræðinga
og félagsvísindafólk að tryggja framtíð tímaritsins með því að senda greinar til birtingar.
Ingi Rúnar Eðvarðsson Þóroddur Bjarnason