Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Blaðsíða 32
34
Bjarnhéðinsdóttir], 1917c: 41). Áskorun fundarins vegna hinna nýstofnuðu bjargráðanefnda
var send bæði til stjórnvalda og bæjarstjórnar Reykjavíkur, og gekk út á að bæta tveimur
konum við í nefndirnar og skipa framvegis slíkar nefndir báðum kynjum. Í framhaldi af
hinum fjölmenna fundi og áskorun hans sendi stjórn Kvenréttindafélagsins Bjargráðanefnd
Alþingis bréf sem hefst á eftirfarandi orðum: „Vér konur höfum furðað oss mjög á því að í
öllum dýrtíðarráðstöfunum Alþingis, landsstjórnar og bæjarstjórnar, skuli konurnar ekkert
vera kvaddar að þessum málum“. Stjórnin rökstyður mál sitt ítarlega og setur fram þá tillögu
að „sett verði sérstök nefnd skipuð bæði færum húsmæðrum eða hússtjórnarkennslukonum og
karlmönnum, sem bæði landsstjórnin og hinar dýrtíðarnefndirnar geti snúið sér til, þegar um
einhver þau mál er að ræða, sem nánast snerta heimilin“ ([Bríet Bjarnhéðinsdóttir], 1917d: 57-
58).
Framhald málsins varpar áhugaverðu ljósi á ráðandi hugmyndir um þegnrétt kvenna
og þær þversagnir sem hann hvíldi á. Málið var tekið fyrir á Alþingi þar sem bjargráðanefnd
efri deildar tók málinu vel en það var hins vegar fellt í neðri deild (Kristín Ástgeirsdóttir,
2002: 159). Bríet sat sjálf í bæjarstjórn á þessum tíma og lagði þar fram tillögu í samræmi við
áskorun Kvenréttindafélagsins. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar þann 16. ágúst
1917. Miklar umræður urðu um málið, einkum tillögu Bríetar, og var breytingartillaga lögð
fram við hana. Málinu lyktaði með að svohljóðandi tillaga frá Knud Ziemsen borgarstjóra var
samþykkt:
Bæjarstjórnin ályktar að kjósa 5 manna nefnd, er skipuð sé konum, til þess að leiðbeina
heimilum um sparnað í dýrtíðinni og hagnýtingu matvæla og eldsneytis. Nefndin skal
því aðeins skipuð, að þær konur utan bæjarstjórnar, sem bæjarstjórnin kýs, vilji taka að
sér kauplaust það starf, sem nefndarmönnum er ætlað (Fundargerð bæjarstjórnar
Reykjavíkur 16. ágúst 1917).
Konurnar neituðu hins vegar að taka sæti í nefndinni. Hún átti að vera launalaus og þeim þótti
ljóst að hún væri valdalaus (Auður Styrkársdóttir, 1998; Kristín Ástgeirsdóttir, 2002).
Þarna kristallast þau átök sem áttu sér stað um samfélagslegt hlutverk kvenna og þær
þversagnir sem konurnar urðu að takast á við. Þær krefjast þess að vera taldar með og teknar
með, þær vilja samvinnu við karla og rökstyðja hlutdeild sína að hluta til með tilvísan í
þekkingu sína og hæfni sem húsmæðra. Alþingi hafnaði ósk þeirra, eins og fyrr segir.
Mótleikur bæjarstjóra var hins vegar að skipa kauplausa og valdalausa kvennanefnd sem
konurnar höfnuðu þátttöku í. Hér er tekist á um forsendurnar fyrir þegnrétti kvenna og hvernig
hann skuli skilgreindur. Konurnar vísa í hagsýni kvenna og segja má að bæjarstjóri hafi nýtt
sér þau rök til að halda þeim jaðarsettum og valdalausum; þær áttu jú að kenna fólki að spara.
Tekist er á um eftir hvaða farvegi umræðan eigi að renna. Andstaða kvennanna og viðleitni
þeirra til að skilgreina sjálfar forsendurnar fyrir þátttöku sinni mætir andstöðu og þær verða
undir í þeim átökum. Réttindabarátta kvenna er vörðuð hugmyndafræðilegum átökum á borð
við þessi þótt þau hafi borið mismunandi hátt eftir tímabilum.
Eftir fyrsta áfanga borgaralegra réttinda um 1915 tók að myndast gjá innan kvenna-
hreyfingarinnar. Annars vegar voru konur sem studdu ráðandi orðræðu sem vegsamaði
húsmóður- og móðurhlutverkið, og hins vegar voru þær sem töldu að konur ættu jafnframt því
rétt á hlutdeild í opinberu lífi. Um 1930 hafði húsmæðrahugmyndafræðin náð undirtökunum.