Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Blaðsíða 73
75
Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg
hlutfall). Þegar gögnin eru takmörkuð við þá þátttakendur sem eru með gild svör á öllum frum
- og fylgibreytum er fjöldi svarenda á Íslandi 847, samanborið við 991 í Þýskalandi og 1229 í
Bandaríkjunum. Alls voru um það bil 12% svarenda á Íslandi með ógild svör, 10% í Þýska-
landi og 7% í Bandaríkjunum. Aðeins er unnið með gögn frá svarendum sem hafa gild svör
við þeim spurningum sem unnið er með hér. Hlutfall ógildra svara er tiltölulega lágt í þessum
gögnum og því er lítil hætta á alvarlegri bjögun niðurstaðna (Allison, 2009).
Til að tryggja sambærileika milli landa var farið í samstarf við rannsóknarteymi sem
sér um gagnasöfnun fyrir The International Social Survey Programme (ISSP) í hverju þátt-
tökulandi. Könnun okkar er ekki hluti af ISSP, en samstarf við þá stofnun tryggir gæði gagn-
anna og hjálpaði til við að velja rannsóknarstofnun í hverju landi sem sá um gagnaöflun.
Persónulýsingar
Könnunin fór þannig fram að í upphafi fékk hver þátttakandi af handahófi eina af þremur
persónulýsingum. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að nota slíkar lýsingar frekar
en að spyrja beint um fordóma, þar sem almenningur í þróuðum iðnríkjum hefur lært hvernig
viðhorf eru ásættanleg og veit að ekki er við hæfi að vera með fordóma gagnvart geðrænum
vandamálum. Þriðjungur þátttakenda fékk persónulýsingu á einstaklingi með geðklofa-
einkenni (Persónulýsing A), annar þriðjungur fékk lýsingu á einstaklingi með þunglyndisein-
kenni (Persónulýsing B) og síðasti þriðjungurinn fékk lýsingu á einstaklingi með astma-
einkenni (Persónulýsing C; samanburðarhópur). Mikilvægt er að nota samanburðarhóp, en
rannsóknir hafa sýnt að sumir einstaklingar eru neikvæðir í garð annarra án þess að nokkrum
einkennum sé lýst (Martin o.fl. 2007).
Rannsóknarteymi með fulltrúa frá hverju þátttökulandi valdi að nota astma til saman-
burðar, þar sem það er líkamlegur sjúkdómur sem ólíklegt er að svarendur í nokkru landanna
hafi neikvæð viðhorf gagnvart. Ekki kemur fram í lýsingunum hvort um greindan sjúkdóm sé
að ræða. Persónulýsingarnar má finna í viðauka 1. Þegar þátttakendur höfðu fengið að heyra
persónulýsinguna fengu þeir spurningar um viðbrögð og viðhorf þeirra gagnvart hinum
tilbúna einstaklingi, til að mynda um hvert þeir töldu vera eðli vandamálsins, hvernig bæri að
bregðast við, hvort þeir vildu búa við hliðina á viðkomandi og svo framvegis. Að sjálfsögðu
er erfitt að mæla neikvæð viðhorf nákvæmlega eins og þau birtast í samfélaginu, en þessi
tækni hefur marga kosti fram yfir aðrar aðferðir sem mæla neikvæð viðhorf. Í fyrsta lagi er
skýrt hvaða sjúkdóm einkennin eiga við, enda er ekki verið að vísa til geðrænna vandamála
almennt heldur sértækra einkenna sem tengjast ákveðinni sjúkdómsgreiningu. Í öðru lagi er
einstaklingnum lýst án þess að hann sé greindur með nafngreindan sjúkdóm, sem er nær þeim
veruleika sem mætir almenningi í samfélaginu. Í þriðja lagi gerir þessi aðgerð okkur kleift að
mæla þekkingu svarenda á einkennunum og jafnframt hvernig þeir stimpla þau. Þar með er
unnt að meta áhrif bæði einkenna og stimplunar á neikvæð viðhorf gagnvart einstaklingnum í
persónulýsingu.
Mælingar: Háðar breytur
Við mælum fjórar víddir neikvæðra viðhorfa: hefðbundna fordóma, neikvæðar tilfinningar,
félagslega fjarlægð og ógn/hættu (Martin o.fl., 2000). Hefðbundnir fordómar eru mældir með
fjórum spurningum: hvort svarandi telji einstaklinginn óútreiknanlegan, ekki eins gáfaða/n og
aðra, ekki eins duglega/n og aðra og hvort hann telji að ekki sé hægt að treysta honum (Ísland