Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 36

Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 36
 38 mynd karlmennskunnar. Nú eru kynímyndir orðnar ýktari og ágengari. Ein af táknmyndum kvenímyndarinnar í dag er kynferðislega ögrandi og aðgengileg kona (Þorgerður Einarsdóttir, 2006). Í dægurmenningu og auglýsingum hafa verið settar í öndvegi ungar konur sem meðvitað gera út á kynverund sína og meint kynferðislegt vald. Þær kvenímyndir eru settar í lokkandi búning frelsis og valdeflingar. Gamlar hugmyndir um kynbundin valdatengsl mara þó í hálfu kafi. Hið meinta vald kvenna er skilyrt; það er háð körlum og samþykki þeirra. Þessar kvenímyndir eru réttlættar með hugmyndafræði póstfemínisma sem tengir sig við orðræðu femínisma, en byggist á þeim forsendum að jafnrétti sé náð og femínisminn sé úreltur. Klámvæðing, hlutgerving og undirskipun er nú klætt í búning valdeflingar (Katrín Anna Guðmundsdóttir, 2010; Gill, 2009; McRobbie, 2009). Frjálshyggjusjónarmið og einstaklingshyggja hafa sett umtalsvert mark á hugmyndir samtímans um kynjatengsl. Það er tímanna tákn að hugmyndir um frelsi og sjálfsforræði (e. personal autonomy) eiga mikið upp á pallborðið. Þau sjónarmið hafa verið sterk að jafnrétti sé nú náð og konur hafi nú raunverulega möguleika á að haga lífi sínu á þann veg sem þær kjósa. Þannig sé sjálfsforræði kvenna ekki heft af þvingandi ramma af neinu tagi og kynjamunur, t.d. á vinnumarkaði, sé ekki sprottinn af mismunun heldur stafi einfaldlega af því að konur hafi aðrar óskir og langanir en karlar og séu síður tilbúnar til að fórna fjölskyldulífi fyrir atvinnuframa (Hakim, 2007). Hér höfum við hugmyndafræðilega réttlætingu fyrir táknmyndina um hina frjálsu konu sem tekst á hendur hlutverk af fúsum og frjálsum vilja, hvort sem það er hefðbundið móðurhlutverk eða sem merkisberi hins klámvædda kynþokka. Þessir hugmyndastraumar eru nátengdir hugmyndum um póstfemínisma sem fjallað var um hér að framan og hefur mörg einkenni frjálshyggju. Þóroddur Bjarnason og Andrea Hjálmsdóttir (2008) hafa sýnt fram á að viðhorf unglinga í dag eru marktækt neikvæðari til jafnréttismála en viðhorf jafnaldra þeirra voru fyrir einum og hálfum áratug. Athyglisvert er að unglingarnir réttlæta hefðbundnar hugmyndir sínar um kynhlutverk með eðlishyggju og nýfrjálshyggjuhugmyndum, en slík sjónarmið hafa unnið á, sérstaklega meðal stráka (Þórodd- ur Bjarnason og Andrea Hjálmsóttir, 2008). Vert er að huga að því að hugmyndir samtímans um frelsi byggjast á djúpstæðari hugmyndum um val, valfrelsi og raunverulega valkosti. Sjálfsforræði þýðir að hugsanir og athafnir okkar séu okkar eigin og ekki orsakaðar af ytri þáttum (Þorgerður Einarsdóttir, 2010). Frelsi og val eru flókin ferli og valkostirnir eru ávallt skilyrtir; frelsi og val byggjast á kerfislægum aðstæðum þar sem sumir valkostir eru aðgengilegri og raunhæfari en aðrir (Hirschmann, 2006). Nýfrjálshyggjan, hrunið og kynjajafnréttið Stökk Íslands í fyrsta sæti í mælingu WEF árin 2009 og 2010, úr fjórða sæti árið 2008, er athyglisvert. Þetta gerist eftir mesta efnahagsáfallið í sögu landsins og tengist hruninu á áhugaverðan hátt. Aðdragandi hrunsins er vel þekktur. Markaðshyggja fékk byr undir báða vængi í okkar heimshluta upp úr 1980 og upphófst hér á Íslandi fyrir alvöru með EES- samningnum og auknu viðskiptafrelsi á 10. áratugnum. Markaðurinn var hafinn í æðra veldi og Ísland var, að mati fræðimanna, tilraunastofa í róttækri frjálshyggju (Stefán Ólafsson, 2008, Stieglitz, 2003). Nýfrjálshyggjan byggðist á einkavæðingu ríkisfyrirtækja, svo sem banka og fjármálastofnana; og auðlinda, svo sem fiskistofna og orkulinda; regluslökun og

x

Íslenska þjóðfélagið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Íslenska þjóðfélagið
https://timarit.is/publication/1165

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.