Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Side 8
10
útskýringar á hugtakinu „efnahagsstétt―, þá deilir fólk í sömu efnahagsstétt svipuðum lífs-
möguleikum, en þeir ákvarðast af sambærilegri markaðsstöðu (Weber, 1978). Til þess að
efnahagsstétt myndi þjóðfélagsstétt þarf, hins vegar ákveðna félagslega lokun vegna tak-
markaðs félagslegs hreyfanleika innan og milli kynslóða. Þetta kallast stéttarmyndun og er
m.a. lýst í samsetningarkenningu (e. structuration) Giddens (1973).
Einnig reikna ég með því að þeir sem neðar eru í stéttakerfinu séu viljugri til þess að
svara spurningum um huglæga stéttarstöðu. Sem fyrr segir taldi Weber (1978) að öreigar
hefðu skýrasta sýn á stéttakerfið sökum stéttarstöðu sinnar. Þessari kennisetningu deilir
Weber með Marx (1972) og Durkheim (1933), auk fjölda annarra merkra fræðimanna, s.s.
DuBois (1996) og Bourdieu (1977).
Hins vegar geri ég jafnframt ráð fyrir því að „einstaklingsvæðing stéttakerfisins― (Beck,
1992; Scott, 2002) dragi úr tengslum huglægrar stéttarstöðu og hlutlægrar stéttarstöðu. Nánar
tiltekið: Aukin einstaklingsvæðing veldur því að sjálfsmynd fólks veltur meira á ákvörðunum
þess en síður á stéttarstöðu (Beck, 1992). Að sama skapi breytir aukin einstaklingsvæðing því
samhengi (e. context) sem fólk upplifir sig sjálft í (Irwin, 2008). Ekki er þó hægt að sannreyna
hvort stéttakerfið íslenska sé einstaklingsvæddara en áður út frá þeim gögnum sem liggja til
grundvallar þessari rannsókn, enda einungis um eina mælingu á ákveðnum tímapunkti að
ræða. Frekari rannsóknir þarf til að kanna haldbærni tilgátunnar.
Íslendingar hafa engu að síður ávallt verið miklir einstaklingshyggjumenn (Stefán
Ólafsson, 2003), auk þess sem einstaklingshyggju hérlendis hefur vaxið fiskur um hrygg
undanfarin ár (Axel Hall o.fl., 2002). Þetta kemur meðal annars fram í minnkandi
„stéttakosningu“ samkvæmt Alford-kvarðanum á árunum 1983 til 2003 (Ólafur Þ. Harðarson,
2004). Hafa ber þó í huga að Alford-kvarðinn, sem sýnir muninn á hlutfalli verkafólks sem
kýs vinstri flokka og hlutfalli millistéttarfólks sem kýs vinstri flokka, er býsna grófur mæli-
kvarði (Manza o.fl., 2005). Hann getur þó gefið ákveðna vísbendingu um langtíma þróun.
Tilgáta mín er eftirfarandi: Aukin einstaklingsvæðing breytir því samhengi sem fólk
upplifir sig sjálft í, á þann veg að þegar dregur úr áhrifum stéttakerfisins hafa félagsleg tengsl
við fjölskyldu, vini og samstarfsmenn meiri mótandi áhrif á stéttavitund þess. Eftir því sem
síðarnefndu áhrifin aukast verða einstaklingar síður líklegir til þess að taka tillit til stétta-
kerfisins. Þetta gerir einstaklinga hneigðari til þess að (Levy, 1991: 63):
[1] taka einungis tillit til síns nánasta félagslega umhverfis til að skilja hvað gerist og
hvers vegna, [2] útskýra félagslega hegðun með vísun í einstaklingseinkenni, sér í lagi
tilhneigingar einstaklinga og skapgerðareinkenni, [og] [3] virða að vettugi félagslega
sköpun ójafnaðar, mismununar og formgerðarhindrana.
Eftir þessum sömu nótum held ég því fram að bæði nánasta félagslega umhverfi og
stéttarstaða hafi áhrif þegar fólk er spurt hvaða þjóðfélagsstétt það tilheyrir. Þetta er í sam-
ræmi við kenningar um viðmiðunarhópa (Bott, 1957; Lockwood, 1966; Merton, 1968; Stouff-
er o.fl., 1949), sem kveða á um að nálægir samferðamenn hafi mikil áhrif á sýn fólks á eigin
stöðu í þjóðfélaginu (Evans og Kelley, 2004: 4):
Þetta er sérstök „brjóstvitsaðferð― – tilhneiging til þess að sjá þjóðfélagið út frá alhæf-
ingum byggðum á eigin reynslu og kunnuglegum ímyndum í fjölmiðlum. Kjarni málsins