Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 33

Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Page 33
 35 Þorgerður Einarsdóttir Auðvelt er að ímynda sér að atburðir eins og þeir sem getið er hér að ofan hafi átt þátt í að vinna slíkum hugmyndum fylgi. Húsmæðrahugmyndafræðin myndaði farveg fyrir íhaldssama þjóðernisstefnu sem litaði hugmyndir um samfélagslegt hlutverk kvenna, hlutdeild og þegnrétt áratugum saman. Á millistríðsárunum styrktist þessi hugmyndafræði í sessi og enn frekar eftir seinna stríð (Sigríður Matthíasdóttir, 2004). Þótt amast væri við því að konur ynnu utan heimilis gerði að minnsta kosti þriðjungur kvenna það alla 20. öldina (Hagstofa Íslands, 2004). Konum var ekki meinuð samfélagsleg þátttaka en hlutdeild þeirra var skilyrt af menningarlegum hugmyndum um hlutverk þeirra sem mæðra og húsmæðra. Þetta skapaði lífi þeirra umgjörð rétt eins og hið opinbera regluverk og kerfislægir þættir á borð við velferðarkerfi, skólakerfi og fleira. Farvegir orðræðunnar eiga þátt í að skilgreina þá valkosti sem í boði eru og ramma inn túlkun einstaklinganna á þeim sömu valkostum; hið skilyrta val er gjarnan túlkað sem frjálst og óháð efnislegum aðstæðum og hugmyndafræðilegum valdatengslum (Hirschmann, 2006). Þótt konur á Íslandi teldu sig „...lagalega rétthæstar allra kvenna í víðri veröld“ var þegnréttur þeirra skilyrtur af hugmyndum samtímans. Baráttan fyrir fullum þegnrétti hélt þó áfram og fór vaxandi. Ísland í byrjun 21. aldar – minnsta kynjabil í heimi Aðstæður á Íslandi í upphafi 21. aldar eru með því besta sem gerist í efnahagslegu og félagslegu tilliti (Hagstofa Íslands, 2009). Staða kvenna er einnig með því besta sem þekkist, rétt eins og talið var nærri 100 árum fyrr. Þannig mældist Ísland með minnsta kynjabilið af 134 löndum heims 2009 og 2010 samkvæmt WEF, eins og kynnt var hér í upphafi (Haussman o.fl., 2010). Hafa ber í huga að mælikvarðar eins og kynjabil WEF eru félagslegur tilbúningur með þeim takmörkunum og fræðilegu álitamálum sem þeim fylgja. Hér eru allir slíkir varnaglar slegnir. Eigi að síður segja þeir ákveðna sögu um ástand mála og gera mögulegan samanburð milli tímaskeiða og heimshluta. WEF styðst við fjóra mælikvarða: a) efnahagslega þátttöku og tækifæri, b) menntun, c) pólitíska þátttöku og d) heilsu (Hausmann o.fl., 2010). Hugtakið þegnréttur er ekki notað af WEF en mælikvarðarnir eiga sér nokkra hliðstæðu við þá þætti sem fjallað var um hér að framan (atvinnuþátttöku, menntun, pólitíska þátttöku, gerendahæfni) og því er freistandi að rýna nánar í þá. Efnahagsleg þátttaka og tækifæri fela í sér atvinnuþátttöku, laun fyrir sambærileg störf, atvinnutekjur, og kynjahlutfall meðal stjórnenda og sérfræðinga. Menntun felur í sér læsi, grunnmenntun, framhaldsskólamenntun og háskólamenntun. Heilsa er mælistika sem felur í sér líkur á heilbrigðu lífi og kynjahlutfall meðal nýbura, en um heilsu verður ekki fjallað hér. Loks fela stjórnmál í sér hlutfall kynja á þingi og meðal ráðherra, sem og það tímabil síðastliðin 50 ár sem kona hefur verið þjóðhöfðingi (Hausmann o.fl., 2010). WEF hefur mælt kynjabilið síðan 2006 og býr til vísitölu úr ofangreindum mælikvörðunum, frá 0 og upp í 1,0. Það land sem mælist lægst árin 2009 og 2010 er Jemen með heildarvísitöluna 0,46 bæði árin, en Ísland er hæst með 0,85 árið 2010, og fór úr 0,83 árið 2009. Ekkert land er því laust við kynjabil og þau sem hæst eru vantar umtalsvert upp á til að loka því (Haussman o.fl., 2010). Á árunum 2006 til 2008 var Ísland í 4. sæti á lista WEF yfir kynjabilið, á eftir Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Árið 2009 brá svo við að Ísland var í fyrsta sæti en þess ber að geta að hverfandi munur er á efstu sætunum (Hausmann o.fl., 2010). Það er athyglisvert að þetta

x

Íslenska þjóðfélagið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Íslenska þjóðfélagið
https://timarit.is/publication/1165

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.