Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Blaðsíða 68
70
Inngangur
Fólk sem á við geðræn vandamál að stríða býr við annan félagslegan veruleika en aðrir.
Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fordómar, skömm og félagsleg útilokun eru oft hluti af
daglegu lífi þessara einstaklinga (Angermeyer og Dietrich, 2005). Fordómar og neikvæð
viðhorf gagnvart geðrænum vandamálum móta veruleika þeirra sem glíma við slík vandamál
með margvíslegum hætti. Fordómar geta valdið mismunun, til að mynda á vinnumarkaði, auk
þess sem neikvæðar hugmyndir almennings um geðræn vandamál, sem birtast til dæmis í
fjölmiðlum (Link og Phelan, 2001; Thoits, 1985), geta haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra
sem við þau glíma. Þá getur ótti þeirra sem greinast með geðsjúkdóm við að upplifa höfnun
og skömm orðið til þess að þeir dragi sig úr eðlilegri þátttöku í samfélaginu (Link o.fl., 1989).
Fordómar bitna þannig á lífsgæðum einstaklingsins og fjölskyldu hans (Katching, 2000;
Wahl, 1999) og geta dregið úr notkun á heilbrigðisþjónustu (Estroff, 1981; Markowitz, 2001).
Félagsfræðingar hafa löngum reynt að skilja eðli og afleiðingar fordóma. Sumir af
mikilvægustu félagsfræðingum 20. aldar beindu sjónum sínum að geðrænum vandamálum og
fordómum. Foucault (1965) skoðaði söguleg gögn frá sautjándu öld um það hvernig þeir sem
áttu við geðræn vandamál að stríða voru álitnir minna virði en aðrir og Goffman (1961)
skrifaði um smán (e. stigma) geðsjúkra. Goffman skilgreindi smán sem „einkenni, sem
samkvæmt ráðandi félagslegum viðmiðum dregur mjög mikið úr virði manneskjunnar,
skilgreinir hana sem óhreina og gefur öðrum leyfi til að niðurlægja hana― (Goffman, 1961:3).
Félagsfræðingar hafa nýlega leitast við að þróa líkön til að skilja eðli og afleiðingar fordóma
og í auknum mæli reynt að prófa slík líkön í rannsóknum (Link og Phelan, 2001; Pescosolido
o.fl., 2008).
Erlendar rannsóknir benda til þess að neikvæð viðhorf gagnvart geðrænum vandamálum
hafi ekki verið á undanhaldi á síðastliðnum áratugum, þrátt fyrir aukna vitund almennings um
að geðræn vandamál séu „raunveruleg― og eigi sér oft líffræðilegar skýringar. Líklega kemur
ekki á óvart að fordómar voru útbreiddir um miðja tuttugustu öld, til dæmis í Bandaríkjunum
(Cumming og Cumming, 1957; Starr, 1955). Á þessum tíma var meðferð við geðrænum
vandamálum oftast fólgin í útskúfun úr samfélaginu með vistun á stofnunum sem veittu
ómannúðlega meðferð. Margt hefur breyst síðan á þessum tíma, til dæmis með aukinni
umræðu og stefnumótun um að veita einstaklingum þjónustu utan stofnana. Líffræðilegum
skýringum á geðrænum vandamálum hefur vaxið ásmegin, þar sem læknar, stefnumótendur
og hagsmunasamtök hafa lagt æ meiri áherslu á að líta beri á geðræn vandamál sem sjúkdóma
líkt og um líkamleg vandamál sé að ræða (Phelan, 2005; Schnittker, 2008). Margir hafa talið
að sú breyting að líta á geðræn vandamál sem sjúkdóm fremur en einstaklingsbundið
vandamál geti dregið úr fordómum, þar sem fólk hefur tilhneigingu til þess að líta svo á að
einstaklingar geti ekki borið ábyrgð á því að veikjast af sjúkdómi. Rannsóknir frá ýmsum
löndum benda þó til þess að sjúkdómsvæðing geðrænna vandamála hafi ekki dregið úr
fordómum gagnvart þeim sem eiga við þau að etja (Angermeyer og Matschinger, 2005; Bag
o.fl., 2006; Lauber o.fl., 2004; Pescosolido o.fl., 2010; Phelan, 2005; Schnittker, 2008).
Rannsakendur hafa oft lagt meiri áherslu á að skoða umfang fordóma og neikvæðra
viðhorfa en á að finna skýringar á því hvaða þættir ýta undir slík viðhorf. Enn fremur hafa
fáar rannsóknir beint sjónum að samanburði milli landa (Angermeyer og Dietrich, 2006), enda
hafa samanburðarhæf gögn um fordóma og smán hingað til verið af skornum skammti. Í