Morgunblaðið - 08.04.1983, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 08.04.1983, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 8. APRÍL 1983 Minningar um Walter Benjamin Erlendar bækur Siglaugur Brynleifsson Gershom Scholem: Walter Benja- min — The Story of a Friendship. Faber and Faber 1982. Gershom Scholem fæddist í Berlín 1897. Hann var 17 ára þeg- ar hann kynntist Walter Benja- min 1915. Scholem hélt til Palest- ínu 1923 og vann þar sitt ævistarf við hebreska háskólann í Jerúsa- lem. Hann flutti fyrirlestra við þá stofnun bæði á ensku, þýsku og hebresku. Rit hans fjölluðu um heimspeki og trúarbrögð gyðinga, Kabbalah, symbolisma og mystík. Hann er talinn meðal kunnustu fræðimanna gyðinga í þeim efn- um. Hann skrifaði einnig minn- ingar sínar úr æsku. Gershom Scholem lést í Jerúsalem 20. febrúar 1982. Þetta rit kom fyrst út hjá Suhr- kamp 1975 og er þýtt á ensku af Harry Zohn. Eins og segir í undir- titli, eru þetta minningar Schol- ems um nána vináttu hans og Walters Benjamins, en þeir kynnt- ust eins og áður segir 1915, Benja- min var þá 23ja ára og Scholem 17 ára. Þeir fundu hvor annan og ræddu endalaust um þau málefni, sem þeim þótti brýnust og þá voru upp á teningnum, mörg þeirra snertu þjóð þeirra og sérstöðu, sem gyðinga, önnur snertu allan heiminn, listir og bókmenntir, heimspeki og trúarbrögð, tíminn leið hratt og viðfangsefnin voru óþrjótandi. Þegar þeir gátu ekki hist, þá skrifuðust þeir á. Scholem lýsir þessum dögum og slíkir dagar voru ekki óalgengir, að minnsta kosti meðal nokkurs brots þeirra, sem höfðu jafnvel meiri áhuga á lifandi menningar- arfi en þeim fræðum, sem þeir hlutu að stunda og sem voru þá forsendan að því að geta notið þessa menningararfs og ávaxtað hann. Og það gerðu þeir báðir svo sannarlega. Walter Benjamin er nú álitinn hafa verið einhver snjallasti bókmenntagagnrýnandi þessarar aldar og Scholem fremst- ur fræðimanna í trúarbragðasögu þjóðar sinnar og dulspeki þeirra trúarbragða. Þrátt fyrir skugga styrjaldar- innar, lifðu þeir báðir æsku sína í umhverfi sem var nokkurnveginn siðað, að minnsta kosti á yfirborð- inu. Borgarastéttin kunni ennþá mannasiði, og menn fóru í skóla til að menntast. Fyrirmynd þeirrar menntunar var húmanisminn, skilningur og góður vilji meðal mannanna. Þessi heimur átti ekki langt eftir. Scholem hvarf til Pal- estínu 1923, taldi sig sjá merki um ógnir og skelfingar í náinni fram- tíð. Benjamin flúði land þegar pöpullinn náði völdunum og svipti sig lífi á flótta undan böðlum þjóðar sinnar 1940. Þessar minningar um Benjamín eru þær merkustu og marktæk- ustu sem til eru og þar með ómet- anlegar. Þessi samantekt er ekki aðeins æviminning, þetta er menningarsöguleg heimild og ber í sér andrúmsloft tíma sem eru þrátt fyrir margvíslegar skugga- hliðar algjör andstæða tíma, sem einkennast af skuggahliðum fyrri tíma og trúðleikum. Silkitromman sýnd að nýju Tónlist Jón Þórarinsson Það var mikill viðburður, þeg- ar ópera Atla Heimis Sveinsson- ar, Silkitromman, við texta eftir Örnólf Árnason var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð í fyrrasumar, og var ítarlega sagt frá frumsýningunni hér í blað- inu 9. júní 1982. Sýningin vakti líka áhuga, jafnvel meðal gesta af fjarlægum löndum. Fljótlega barst leikhúsinu boð um að sýna óperuna á listahátíð í Caracas í Venezuela nú í vor. Það boð var þegið, og verður lagt upp í förina þangað á næstunni. Af þessu tilefni er efnt til nokkurra sýninga á óperunni hér, og var hin fyrsta að kvöldi skírdags, 31. f.m. Skipan í hlut- verk er hin sama og var á sýn- ingunum í fyrra, að því undan- skildu, að Garðar Cortes hefur tekið við því hlutverki, sem Kristinn Sigmundsson hafði á hendi í fyrra, en Kristinn er nú við söngnám og störf í Vínar- borg. Breytingin er þó í raun meiri en mannaskipti í hlut- verki. Hlutverkið er í upphafi skrifað fyrir tenorrödd, en hafði í fyrra verið umritað í skyndingu fyrir baritonrödd Kristins, því að enginn tenor virtist þá í bili tiltækur. Nú var það aftur fært til upprunalegs horfs fyrir ten- orrödd Garðars. Hygg ég, að sú raddskipan megi teljast eðlilegri og æskilegri, þótt Kristinn gerði persónunni vissulega eftirminni- leg skil. Garðar Cortes kom einnig glæsilega fyrir, og varð ekki annað heyrt eða séð en að hann hefði hlutverkið fyllilega á valdi sínu, þótt erfitt sé og æf- ingatími muni hafa verið naum- ur. Þrátt fyrir skemmtilega sviðssetningu Sveins Einarsson- ar, örugga tónlistarstjórn Gil- berts Levine og ágæta frammi- stöðu flytjenda, virtist eitthvað daufari svipur á sýningunni nú á skírdagskvöld en var á frumsýn- ingunni í fyrra. Sum atriði sýnd- ust nú nokkuð langdregin, en önnur varla eins lífleg og spennumögnuð og þá. En þetta á væntanlega eftir að lagast á næstu sýningum, og vonandi á Silkitromman eftir að koma Suður-Ameríkumönnum fyrir sjónir, líkt og okkur hér heima í fyrra, sem skemmtilega hnyttið og nýstárlegt verk, litríkt og á stundum áhrifamikið. Þjóðleikhúsinu og Caracas- förum þess er óskað góðs gengis og fararheilla. Jón Þórarinsson Minningaralbúm um Gunnar Ormslev Hljóm- plotur Birgir ísl. Gunnarsson Það var árið 1952. Á sviðinu í Gamla Bíói stóðu tveir tenórsaxó- fónleikarar og blésu hvor í kapp við annan. Þeir háðu einskonar einvígi á hljóðfæri sín. Þetta voru þeir Ronnie Scott frá Englandi og Gunnar Ormslev frá íslandi. Mörgum okkar, sem sátum úti í sal og hlýddum á, fannst hinn 24 ára gamli fslendingur ekkert síðri og jafnvel mætti kalla hann sig- urvegara. Ronnie Scott hafði þá getið sér góðs nafns í Englandi og hefur reyndar haldið áfram að spila alla tíð síðan en er þó fræg- astur fyrir góðan jazz-klúbb í London, sem ber nafn hans. Gunnar Ormslev hélt líka áfram að spila eða allt þar til hann lést skyndilega fyrir aldur fram þ. 20. apríl 1981. Jazzvakn- ing hefur nú gefið út tveggja plötu albúm til minningar um Gunnar. Ber það nafnið: „Gunnar Ormslev. Jazz í 30 ár.“ Verður hér fjallað nokkuð um þessar plötur. Á þessum fjórum plötusíðum eru lög, sem spanna yfir tímabilið 1949-1979. Á árunum 1950-60 var jazz-Iíf fjörugt hér í Reykja- vík. Frægir erlendir kraftar sóttu okkur heim og í Breiðfirðingabúð voru haldnar jazz-samkomur með fyrirlestrum og hljóðfæraleik. Þegar þetta er haft í huga, er það furðulegt hvað lítið er til af upp- tökum með okkar bestu mönnum frá þessum tíma. Það kemur fram í ágætu yfirliti Vernharðar Linn- et á plötuumslaginu, að það er nánast tilviljun að hægt var að grafa upp elstu upptökurnar á þessari plötu og oft eru þær gerð- ar af vanefnum við frumstæðar aðstæður. Fyrsta lagið á plötunni er sænska þjóðlagið frá Vermlandi (Ack Vármland du sköna). Það er frá árinu 1952, kom þá út á 78-snúninga plötu og er eina lagið sem gefið var út á hljómplötu undir nafni Gunnars Ormslev meðan hann lifði. í þessu lagi fet- aði G.O. í fótspor Stan Getz, sem hafði blásið þetta sama lag inn á plötu árið áður. Stan Getz hafði greinilega mikil áhrif á G.O., bæði tón og tækni. Næsta lag, Hallelujah, er elsta upptaka, sem fannst með G.O., frá árinu 1949. Síðan korria nokkur lög frá árinu 1950, þar sem G.O. leikur með ýmsum ungum mönnum, m.a. með hljómsveit Björns R. Einarssonar og hafa þeir komið mikið við sögu ís- lenskrar tónlistar. Það er gaman að heyra sóló og útsetningar þess- ara manna, sem flestir voru korn- ungir þá. f þessum lögum koma þegar fram einkenni Gunnars Ormslev á tenór-saxófóninn, hinn mjúki og mildi tónn og frábær tækni. síðasta lagið á þessari hlið, Perdído, er tekið upp á hljómleik- um í Austurbæjarbíói, þar sem tvær bandarískar stórstjörnur komu fram með ísienskum hljóð- færaleikurum, þ.e. þeir Tyree Glenn, víbrafón- og básúnuleikari og Chee Konitz, altó-saxófónleik- ari. í þessu lagi átti Gunnar glæsilegt sóló. Þessir tónleikar eru mjög eftirminnilegir fyrir okkur sem þá sátu. Bandaríkja- mennirnir voru hvor með sinn stíiinn og léku ólíka tónlist. Þeir gátu þó sameinast með íslensku strákunum í djammi því, sem fram kemur á plötunni. Þó að upptakan sé ekki góð, er mikill fengur að því að hún skuli hafa varðveist. Á hlið 2 eru upptökur frá árun- um 1955—59. Fyrsta lagið er Gunnar’s Blues, tekið upp á „jamm-session" í Breiðfirðinga- búð 8. jan. 1955. Maður finnur að nú blæs Gunnar af meira öryggi en áður og þarna á hann glæsi- legan einleik. Næstu þrjú lög eru frá árinu 1959, en það eru upptök- ur úr Framsóknarhúsinu þar sem austurríski píanóleikarinn Fried- rich Gulda, sem hér lék með sin- fóníuhljómsveitinni, settist við pí- anóið og lék jazz með Gunnari Ormselv og félögum. Þegar hlust- að er á þessar upptökur þarf ekki að efast um að Gunnar hefur þá verið kominn í röð fremstu ein- leikara í Evrópu. Það er rétt sem segir á plötuumslaginu að það er ómetanlegt að Kristján Magnús- son, pínaóleikari, skyldi hafa fest þessa sessjón á band. Hlustið t.d. á tóninn og sveifluna hjá G.O. í laginu „Lady Be Good“. Síðasta lagið á hlið 2 er tekið upp í Austurbæjarbíói 1. okt. 1959, þar sem Gunnar leikur með tríói Jóns Páls. Fyrsta lagið á hlið 3 er einnig tekið upp við sama tækifæri. I þessum lögum kveður nokkuð við annan tón. Fágaður blær yfir öllu, en ólgandi sveiflan undir niðri leynir sér ekki. Á þess- ari hlið eru síðan lög frá árunum 1960—76, aðallega tekin upp í út- varpssal. Þarna eru betri upptök- ur en áður og síðasta lagið á þess- ari hlið er tekið upp í steríó. Þarna er hvert snilldarverkið á fætur öðru. Ég nefni t.d. „Laura", eina af þessum ballöðum saxó- fónleikara, sem Gunriar leikur af miklum næmleik. Þarna má finna skemmtilegan samleik Gunnars og Viðars Álfreðssonar í lögunum Gunnar Ormslev Blue Daniel og Big D. svo og milli Gunnars og Rúnars Georgssonar, þar sem báðir leika á tenórsaxó- fóna í laginu Slow but Sure. í lag- inu Lover Man leikur Gunnar á altó-saxófón sitt upprunalega hljóðfæri. Hann kann sannarlega tökin á því hljóðfæri einnig, þó að mér hafi alltaf fundist hann skemmtilegri á tenór-saxófóninn. í yngstu upptökunum á þessari hlið er Gunnar farinn að nálgast fimmtugt, fullþroska listamaður, fágaður ef svo ber undir, en neist- inn á fullu. Á hlið 4 kemur fyrst upptaka frá Moskvuútvarpinu í júlí 1957, þar sem Gunnar leikur með félög- um sínum lagið „Little White Li- ers“. Þeir léku þar á heimsmóti æskunnar. í þessu lagi er kraft- mikill og skemmtilegur leikur og engin furða, þó að þeir félagar hafi verið sæmdir gullmerki mótsins sem besta jazzhljóm- sveitin. Á þessari hlið er einnig upptaka frá danska útvarpinu frá árinu 1978. Þar leikur G.O. einleik með „Radioens Big Band“ og er einleikur hans þar með miklum ágætum. Á þessari hlið eru einnig tvö verk eftir Gunnar Reyni Sveinsson. Fyrra verkið er eins- konar kammerjazzverk, sem ber höfundi sínum gott vitni. Hitt verkið er frá árinu 1979, tileinkað Andrési Ingólfssyni, saxófónleik- ara, sem andaðist fyrir aldur fram árið 1978. Þetta er milt og fallegt verk og leikur Gunnars þar stórgóður. í þessari grein hefur fyrst og fremst verið fjallað um leik Gunnars Ormselv á þessum plöt- um. Margra annarra, sem þar koma fram mætti og minnast, en það verður ekki gert hér. Til þessarar útgáfu er mjög vandað. Gunnar Reynir Sveinsson ritar stuttan inngang, Vernharð- ur Linnet ritar stuttlega um Gunnar og getur um, hverjir leiki í hverri upptöku og hvar hún hafi farið fram. Það er gert af ná- kvæmni, þó að það hafi vafalaust verið erfitt að finna út úr þessu svona löngu eftir á, eins og höf- undur getur um. Sjálfum hefði mér fundist fara betur á því að tímaröð hefði ráðið röð laganna, en hún riðlast stundum. Fleiri koma og við sögu, bæði myndlistarmenn og aðrir, sem ekki verður getið hér. Það er mikill fengur að þessari útgáfu. Hún er að hluta saga ís- lenskrar jazz-tónlistar og færir okkur heim sanninn um, hvílíkur snillingur Gunnar Ormslev var. Þessi kurteisi og hlédrægi lista- maður hófst upp í æðra veldi, þar sem hann blés á saxófóninn á sviði eða hljómsveitarpalli. Á slíkum stundum átti hann heim- inn — og við hin fáum svolitla hlutdeild í þessari eign með því að bregða þessum plötum á fóninn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.