Morgunblaðið - 11.09.1986, Blaðsíða 67
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 11. SEPTEMBER 1986
67
Sanngjarnt jafntefli
gegn Evrópumeisturunum
ísland - Frakkland
0:0
Evrópumeistarar Frakka uröu
að sætta sig við markalaust jafn-
tefli er liðið hóf titilvörn sína í
Evrópukeppninni á Laugardals-
velli í gærkvöldi. íslenska liðið
hefði í fullu tré við Evrópumeist-
arana og sanngjörnustu úrslitin
voru án efa markalaust jafntefli
því lítið var um marktækifæri í
leiknum. Frakkar voru greinilega
ekki alveg á því að sætta sig við
að tapa öðru stiginu hér á landi
því eftir leikinn voru flestir þeirra
með hundshaus og vildu ekki
þakka leikmönnum íslands fyrir
leikinn, nokkuð sem er, sem bet-
ur fer, mjög sjaldgæft. Sumir
þeirra litu þó á þessi úrslit björt-
um augum enda er alltaf ágætt
að fá stig á útivelli. Þeir 13.730
áhorfendur sem mættu á Laugar-
dalsvöllinn studdu vel við bakið
á liðinu í gær.
Fyrri hálfleikur í þessum leik var
mjög rólega leikinn af beggja hálfu
og kom það á óvart hversu seint
Frakkar keyrðu upp hraðann í
leiknum en það gerðu þeir ekki
fyrr en um miðjan síðari hálfleik.
Þessi hraði hentaði íslenska liðinu
ágætlega og strákunum tókst að
skapa sér nokkur þokkaleg mark-
tækifæri.
Litlu munaði
Tvivegis á sömu mínútunni,
þeirri fimmtu, mátti ekki muna
miklu að ísland næði forystunni.
Pétur Pétursson var nærri kominn
inn í sendingu frá Bats markverði
en varnarmaður náði að bjarga
áður en í óefni var komið. Síðan
náði Pétur knettinum aftur og gaf
á Ásgeir sem gaf fyrir markið á
Arnór en skot hans fór yfir. Það
hefði ekki verið amalegt að skora
á upphafsmínútum leiksins og til
þess hefði ekki þurft nema smá-
veigis heppni.
Frakkar voru nokkrum sinnum
nærri því að skapa sér færi en þau
voru þó flest hættulaus. Eitt þeirra
var þó verulega hættulegt en það
var á 14. mínútu er Stopyra átti
hörkuskot að marki en Bjarni varði
meistaralega. Þetta var eina um-
talsverða marktækifæri Frakka i
fyrri hálfleik.
Góð marktækifæri
Amór átti skot að marki úr góðu
færi á 15. mínútu eftir geysilega
skemmtilega og vel útfærða sókn
upp hægri kantinn. Það var Sigurð-
ur sem hóf sóknina og gaf upp í
hornið á Ragnar sem lék á einn
Frakka og lyfti knettinum inn í vita-
teig þeirra. Ómar skallaði knöttinn
fyrir fætur Arnórs en skotið fór í
varnarmann og þaöan i horn. Þetta
var besta marktækifæri leiksins
en það fór forgörðum.
Eitt umtalsvert færi áttu íslend-
ingar enn áður en flautað var til
leikhlés. Arnór tók þá hornspyrnu
á 22. mínútu og eftir að knettinum
hafði veriö fleytt áfram að stöng-
inni fjær reyndi Sævar skot úr
erfiðri aðstöðu en Ragnar var í
mjög góðri aðstöðu fyrir aftan
hann og hefði náð góðu skoti.
Greinilegt að Sævar vissi ekki af
honum og því fór sem fór.
Seinni hluti fyrri hálfleiks var
mjög rólegur og tíðindalítill —
reyndar alveg tíðindalaus. Frakkar
náðu yfirhöndinni á miðjunni fram
að leikhléi en enn sem fyrr gekk
Morgunblaóiö/Júlíus
• Besta marktækifæri leiksins. Sævar Jónsson teygir sig í boltann án þess að vita af Ragnari Margeirs-
syni fyrir aftan sig í upplögðu marktækifæri.
hvorki né rak hjá þeim að finna
leiðina að markinu. Þar var vörnin
við öllu búin og braut allar tilraun-
ir þeirra á bak aftur.
Sá seinni betri
Síðari hálfleikur var mun
skemmtilegri en sá fyrri. Meiri
hraði og betri knattspyrna. Strax
á 49. mínútu bjargaði Bjarni meist-
aralega skoti frá Vercruysse sem
var kominn einn i gegn. Islending-
ar byggðu upp sókn sem endaði
með því að Atli ætlaði að skjóta
en hitti illa. Arnór náði þó knettin-
um áður en hann fór útaf og gaf
á Sigurð sem gaf fyrir þar sem
Ásgeir náði góðu skoti dálítið á ská
við markiö, en beint á Bats.
Það var greinilegt að það fór í
taugarnar á þeim frönsku að þeir
skyldu ekki ná yfirhöndinni eftir að
þeir keyrðu upp hraðann i leiknum.
Þeir fóru að brjóta klaufalega af
sér og það endaði með því að
Ferguson dómari varð að sýna
þeim Amoros, Ayache og Ver-
cruysse gula spjaldið en Péturfékk
einnig að sjá það um svipað leyti
eftir að hann lenti í samstuði við
Bats.
íslendingar beittu nú skyndi-
sóknum meira en áður enda
sóknarlotur Frakkanna bæði lang-
ar og þungar. Ásgeir sendi eina
„gullsendingu" á Arnór sem reyndi
að hlaupa Bola af sér en það gekk
ekki enda var Boli einn sterkasti
maður Frakka í þessum leik.
Arnór var enn einu sinni á ferð-
inni þegar hann og Sigurður tóku
nett þrihyrningsspil framhjá tveim-
ur varnarmönnum Frakka en skot
Arnórs rétt „lak“ framhjá stöng-
inni. Nú var sóknarlotum íslands
lokið og komið að Frökkum að
þjarma dálítið að íslenska markinu.
Stórsókn Frakka
Á lokamínútum leiksins áttu
þeir ein þrjú þokkaleg marktæki-
færi. Stopyra komst nærri því í
gegn en Sævar bjargaöi á síðustu
stundu eftir að Ágúst Már hafði
kinksað hroðalega. Sævar bjargaði
síðan aftur er Paille var rétt að
skjóta sér inn fyrir vörnina en
besta færi leiksins kom þó þegar
leikið hafði verið í 91 mínútu.
Vercruysse fékk þá knöttinn al-
einn rétt utan við markteigshorn
Islendinga en hann var allt of seinn
að átta sig á því sem var að ger-
ast og Gunnar Gíslason náði af
honum boltanum. Þarna skall
hurðin fræga svo sannarlega nærri
hælum. Vercruysse haföi greini-
lega ekki búist við knettinum þvi
hann rúllaði í gegnum vítateig ís-
lands án þess nokkur næði honum,
en sem betur fer bjargaðist málið
á síðustu stundu.
Góð úrslit
íslenska liðið stóð sig ágætlega
i þessum leik, baráttan var í góðu
lagi og með smá heppni hefði það
getað skorað mark. Ef það hefði
tekist þá er víst að leikurinn hefði
orðið mun skemmtilegri, en það
varð nú ekki. Leikaðferð liðsins var
rétt, það að leika með Gunnar sem
aftasta mann var viturlegt. Skipt-
ingarnar hjá varnarmönnunum
voru góðar og sárasjaldan að það
kom upp misskilningur milli manna
þar. Bjarni markvörður stóð sig
mjög vel í markinu. Öruggur og
yfirvegaður.
Miðjumennirnir stóðu einnig fyr-
ir sínu, sérstaklega með tilliti til
varnarinnar en það myndaðist oft
á tíðum of stór gat á milli sóknar-
innar og miðjunnar. Framlínan var
einnig ágæt í leiknum en þó hefur
Pétur oft leikið betur en núna.
Þeir eru þó stórhættulegir, Pétur
og Arnór, og það má aldrei líta af
þeim, þá er voðinn vis.
í fyrri hálfleik tóku miðjumenn
íslands á móti Frökkum frekar
framarlega á vellinum og mun
framar en búast hefði mátt við.
Þetta gaf góða raun á meðan
Frakkar léku sinn rólega bolta en
er þeir juku hraðann í síðari hálf-
leik urðu miðjumenn okkar að
bakka til að taka þá aftar á vellinum
og við það þyngdust sóknarlotur
Frakkanna en þeim tókst þó ekki
að skapa sér mörg hættuleg mark-
tækifæri.
Frakkar slakir
Franska liðið olli miklum von-
brigðum í þessum leik og þá
sérstaklega í fyrri hálfleik. Þá léku
þeir rólega á milli sín, reyndu ekk-
ert upp á eigin spýtur og virtust
vera að þreifa sig áfram. Þessar
þreifingar tóku allt of langan tíma
og liðið komst aldrei almennilega
í gang.
Bestu menn þeirra að þessu
sinni voru þeir Tigana sem er heil-
inn á bak við allar sóknir þeirra
og Fernandez sem er geysilega
hreyfanlegur á vellinum og hjálpar
bæði til í vörn og sókn. Skemmti-
legur leikmaður það. Boli átti
einnig góðan leik og greinilegt að
þar er á ferðinni framtíðarmiðvörð-
ur Frakka. Amoros er greinilega
ekki eins og hann á að sér og
hefur oftast verið betri. Fyrirliði
þeirra, Battiston, átti einnig ágæt-
an dag en sem lið náði franska
landsliðið aldrei saman.
„Náðum ekki að
sýna okkar bolta“
- sagði Jean Tigana
„VIÐ náðum ekki að sýna okkar
bolta f kvöld. Völlurinn var of
þröngur og við náðum þar af leið-
andi ekki að opna vörnina hjá
íslendingum og dreifa þannig
betur spilinu,u sagði Jean Tigana,
ein helsta stjarna franska liðsins
eftir leikinn í gærkvöldi.
„íslenska liðið kom okkur mjög
á óvart. í því eru margir skemmti-
legir leikmenn. Þetta er áfall fyrir
okkur að tapa stigi hér en svona
er knattspyrnan," sagði Tigana og
var greinilega mjög vonsvikinn
með úrslit leiksins eins og allir leik-
menn franska liðsins. Tigana hefur
leikið alls 48 landsleiki fyrir Frakk-
land. Hann lék alla 7 leiki liðsins í
heimsmeistarakeppninni í Mexíkó.
#-----
TIMKEN
keilulegur
FÁLKINN
SUÐURLANDSBRAUT 8