Morgunblaðið - 31.08.1996, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 31.08.1996, Blaðsíða 30
30 LAUGARDAGUR 31. ÁGÚST 1996 JttajpniÞlfifeife STOFNAÐ 1913 ÚTGEFANDI: Árvakui' hf., Reykjavík. FRAMKVÆMDASTJÓRI: Hallgrímur B. Geirsson. RITSTJÓRAR: Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. SKREF í RÉTTA ÁTT HEILBRIGÐISRÁÐHERRA, fjármálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa komizt að sam- komulagi um aðgerðir til að tryggja rekstur hátækni- sjúkrahúsanna, Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Tveir eru höfuðkostir þessa samkomulags. í fyrsta lagi leysir það að stærstum hluta fjárhagsvanda þessara sjúkrahúsa á líðandi ári. í annan stað felur það í sér aukna samvinnu og breytta verkaskiptingu, sem leiðir til sparnaðar - og gæti orðið, ef vel tekst til, fyrsta skrefið að sameiningu þessara tveggja fjárfreku há- tækni- og háskólasjúkrahúsa. Stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur setti fyrr á þessu sumri fram samdráttartillögur, eins konar neyðarúr- ræði, til að halda útgjöldum sjúkrahússins innan þröngs fjárlagaramma. Þær voru, sumar hverjar, mjög umdeild- ar. Þær sýnast hins vegar, með og ásamt afleitri rekstr- arstöðu hátæknisjúkrahúsanna, hafa knúið viðkomandi ráðuneyti og borgaryfirvöld til þess samkomulags sem nú hefur verið gert. Samkomulagið felur í sér 430 m.kr. aukafjárveitingu til hátæknisjúkrahúsanna á þessu ári. Það leiðir einnig til aukins samstarfs og verkaskiptingar, sem skila á 340 m.kr. sparnaði í rekstri þeirra á næsta ári. Síðast en ekki sízt er ráðgerð heildarendurskoðun á starfsemi sjúkrahúsa í Reykjavík og nærliggjandi byggðarlögum. Ráðgafarfyrirtæki, sem á að vinna að þessari athugun, á m.a. að meta, hvort hagkvæmt sé að sameina Ríkis- spítala og Sjúkrahús Reykjavíkur að hluta til eða að fullu. Flati niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu, sem ráðið hefur ferð síðuStu árin, var kominn í óefni, að ekki sé fastar að orði kveðið. Hér er á hinn bóginn reynt að nýta fjármuni betur með hagræðingu, samvinnu og verkaskiptingu. Það eru skref í rétta átt. KLÍPA CLINTONS BILL Clinton, Bandaríkjaforseti, hefur í þessari viku hafið baráttuna fyrir endurkjöri sínu af fullum krafti. Áður en hann mætti á flokksþing Demókrata- flokksins í. Chicago ferðaðist hann í fjóra daga í lest um fimm ríki Bandaríkjanna. í þeirri ferð og í ræðu sinni á þinginu á fimmtudagskvöld lagði forsetinn ríka áherslu á að Bandaríkin væru á „réttri braut“ og var- aði við þeirri hættu er stafaði af loforðum Repúblikana um miklar skattalækkanir. Rétt eins og á flokksþingi repúblikana fyrr í mánuðin- um var það hins vegar umgjörðin er skipti meira máli en innihaldið. Áhersla demókrata á flokksþinginu var á ímyndina fremur en þær hugmyndir er þeir hyggjast leggja til grundvallar nái forsetaefni þeirra endurkjöri. Clinton vísaði í ræðu sinni margsinnis til þess að verið væri að kjósa þann forseta er myndi leiða Bandaríkin inn í tuttugustu og fyrstu öldina og beindi þar með athyglinni að aldursmun hans og Doles. Hneykslismál í kringum Dick Morris, einn helsta pólitíska ráðgjafa Clintons, hefði hins vegar ekki getað komið upp á verri tíma. Neyddist Morris til að segja af sér embætti á fimmtudag í kjölfar þess að greint var frá því að hann hefði átt í löngu sambandi við vændiskonu. Clinton hefur til þessa gengið flest í hag- inn í kosningabaráttunni og skoðanakannanir bentu til að fylgi repúblikana væri farið að dala á ný eftir tölu- verða uppsveiflu í kringum flokksþing þeirra. Clinton er óþreytandi baráttumaður og virtist hann á góðri leið með að tryggja sér öruggt forskot á ný. Óvíst er hvort þetta hneykslismál breyti nokkru þar um. Önnur áþekk mál, er komið hafa upp í forsetatíð Clint- ons, virðast ekki hafa haft mikil áhrif á kjósendur. Þetta hneyksii er aftur á móti neyðarlegt í ljósi þeirr- ar staðreyndar að demókratar höfðu á flokksþinginu hamrað á hefðbundnum fjölskyldugildum, sem repúblik- anar hafa til þessa lagt mesta áherslu á. Það eykur einnig þrýstingin á Clinton að sannfæra kjósendur um að sú siðferðilega vafasama ímynd, sem pólitískir andstæðingar hans vilja draga upp af stjórn hans, eigi ekki við rök að styðjast. MORGUNBLAÐIÐ MORGUNBLAÐIÐ TRILLUKARLAR á Suðureyri voru að koma með steinbít að landi þegar forsetahjónin bar að. Forsetinn sagði það kenningu sína að stein- bítsátið væri skýringin á því að svo margir Vestfirðingar hefðu náð frama í þjóðmálum. Þá sagði einn áheyrenda að sennilega væri það rétt, því það þjálfaði kjálkavöðvana. Opinber heimsókn forseta íslands til norðurhluta Vestfjarða Yill tengja sögn byggða og forsetaembættisins * För forseta Islands, Olafs Ragnars Grímsson- ar, um Vestfirði hófst í gær. Helgi Þorsteins- son blaðamaður og Kjartan Þorbjörnsson ljósmyndari fylgdust með heimsókninni. FORSETINN talaði til margra æskuvina sinna í félagsheimilinu á Þingeyri, enda ólst hann þar að hluta upp hjá ömmu sinni og afa. FORSETI íslands lagði blómsveig að minnisvarða um þá sem fór- ust í snjóflóðinu á Flateyri í fyrra. Gunnar Björnsson prestur í Holti las úr nítugasta Davíðssálmi. HEIMSÓKN forseta íslands, Ólafs Ragnars Grímsson- ar, og konu hans Guðrún- ar Katrínar Þorbergs- dóttur, til norðurhluta Vestfjarða hófst í gær. Þau héldu fyrst til Hrafnseyrar, fæðingarstaðar Jóns Sigurðssonar. Með því að velja Hrafnseyri sem fyrsta áfangastað sinn vildi forsetinn leggja áherslu á tengsl forsetaembættisins við land og byggð. Matthías Bjarnason, formaður Hrafnseyrarnefndar, og Hallgrímur Sveinsson, staðarhaldari, tóku á móti forsetahjónunum á Hrafnseyri. Hallgrímur hefur tekið á móti fjórum forsetum í Starfstíð sinni, en Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins kom fyrir hans tíð. Forsetahjónin skoðuðu safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og endurgerð fæðingar- bæjar hans og forsetinn lagði blóm- sveig að minnisvarða um Jón. Guð- rún Edda Gunnarsdóttir, nývígður sóknarprestur, stjórnaði morgun- söng í minningarkapellu í tilefni af heimsókninni. Steyptu ísland og gáfu forsetanum Frá Hrafnseyri var haldið til Þing- eyrar, þar sem Ólafur Ragnar ólst að hluta upp hjá afa sínum og ömmu. Hann heimsótti þar vélsmiðju Guð- mundar J. Sigurðssonar og Co. þar sem afi hans, Ólafur Hjartar, vann frá árinu 1917 og fram yfir 1970, eða í meira en fimmtíu ár. I smiðj- unni voru meðal annars smíðaðir varahlutir í skip, bæði erlend og inn- lend. Þeir voru mótaðir í tré en síðan steyptir. Enn er unnið eftir gamla laginu í smiðjunni og feðgarnir Krist- ján Gunnarsson og Róbert Daníel Kristjánsson_ gerðu fyrir forsetann afsteypu af íslandi og færðu honum að gjöf. Móttaka fyrir íbúa Þingeyrar fór fram í félagsheimilinu og þáði meiri- hluti bæjarbúa boðið. Forsetinn sagði í ræðu frá því að á unglingsárunum hafi hann selt aðgöngumiða að bíó- sýningum í húsinu og hafi það verið fyrsta trúnaðarstarfið sem honum var falið. Frá Þingeyri héldu forseta- hjónin í garðinn Skrúð að Núpi í Dýrafirði sem Sæmundur Þorvalds- son og Auðbjörg Halla Knútsdóttir hafa endurreist og ræktað upp á síð- ustu ijórum árum. Sigtryggur Guð- laugsson, prestur og prófastur að Núpi, kom garðinum upp skömmu eftir aldamót en hann fór í niður- níðslu í byijun níunda áratugarins. Forsetahjónin færðu Sæmundi og Auðbjörgu að gjöf tvær myndir, úr heimsóknum forsetanna Ásgeirs Ás- geirssonar og Sveins Björnssonar í garðinn þar sem þeir sjást við hlið Sigtryggs. Gleðilegt að sjá kraft og lífsgleði barnanna Á Flateyri var haldið kaffisam- sæti til heiðurs forsetanum og Guð- rúnu Katrínu og var þar hvert sæti skipað. Ægir Hafberg talaði til for- setahjónanna fyrir hönd Flateyringa og sagði heimsóknina hvatningu í endurreisnarstarfinu á staðnum. Forsetinn svaraði og sagði meðal annars: „Náttúra Vestfjarða og veð- urguðir eru ekki alltaf jafn mildir og í dag og sagan geymir mörg dæmi um að hún hafi leikið íbúana grátt. Ég vil minnast þeirra sem létu lífið hér fyrir skömmu, en jafnframt finnst mér gleðilegt að sjá þann kraft, þrótt og lífsgleði sem mætir okkur hér. Það er ánægjulegt að sjá þessa skemmtilegu, djörfu og bros- mildu krakka sem munu síðar taka við og tryggja að á Vestfjörðum verði áfram sú blómlega byggð sem er. íslenska þjóðin stendur öll á bak við Flateyringa í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað.“ Forsetinn lagði blómsveig að minnismerki um þá sem létust í snjóflóðinu síðastliðið haust. Eftir stutta viðdvöl að prestsetrinu að Holti héldu forsetahjónin til Suð- ureyrar. Þar heilsuðu þau upp á trillukarla og aðra bæjarbúa við höfnina. Á eftir var haldið kaffisam- sæti í Félagsheimilinu. í dag heim- sækja forsetahjónin íbúa Hnífsdals og Bolungarvíkur en koma síðdegis til Isafjarðar. LAUGARDAGUR 3L.ÁGÚST 1996 .31 Bandalag fatlaðra á Norðurlöndum þingar í Reykjavík Staða fatlaðra milli efnahags- þrenginga og Evrópusamruna FJÓRTÁNDA þing Bandalags fatlaðra á Norðurlöndum, N.H.F., hófst á Hótel Sögu í Reykjavík í fyrradag og lýkur í dag. Bandalagið, sem er sam- band norrænna landssamtaka hreyfi- hamlaðra, fagnar á þessu ári 50 ára stofnunarafmæli sínu. Meðlimir í að- ildarfélögum bandalagsins eru sam- tals um 116 þúsund en þátttakendur í þinginu eru 85. Undanfarin 4 ár hefur ísland setið í forsæti fyrir nor- ræna bandalaginu en Svíar taka við formennskunni á þessu þingi. Fráfarandi formaður N.H.F. er Valdimar Pétursson, sem tók við henni fyrir tveimur árum, er Jóhann Pétur Sveinsson, þáverandi formaður Sjálfs- bjargar, féll óvænt frá, en hann hafði gegnt formennsku í norrænu samtök- unum frá árinu 1992. Guðríður Ólafs- dóttir tók hins vegar við starfi for- manns Sjálfsbjargar. Valdimar segir þetta vera í síðasta sinn sem þing N.H.F. sé haldið í hefð- bundinni mynd. Allt frá árinu 1952 var þing bandalagsins haldið á 4 ára fresti, og hélt eitt land formennskunni á tímabilinu milli þinga. Nú hefur verið ákveðið að formennskutímabilið styttist í tvö ár, og í stað hinna hefð- bundnu allsheijarþinga á ijögurra ára fresti verði efnt til ráðstefna sem Ijalii í hvert sinn um ákveðið málefni. „Reyndar má segja að aðalþingdag- arnir tveir á þinginu núna séu dæmi um slíkar málefnabundnar ráðstefn- ur,“ segir Valdimar. Hálfrar aldar afmæli bandalagsins segir Valdimar ekki verða fagnað á neinn áberandi hátt. Annars vegar verði tímamótanna minnzt með ofan- greindri endurskipulagningu innra starfsins, auk þess sem þau verða nýtt til að vekja endurnýjaða athygli á hagsmunabaráttu fatlaðra. Reyndar hefði sú hugmynd verið rædd að ráða mann til að rita viðburðaríka sögu bandalagsins. En enginn hafi tekið verkið að sér ennþá. Dagskráin Á tímum efnahagssamdráttar hafa aðgerðir eins og niðurskurður ríkisút- gjalda og bágt ástand á vinnumark- aðnum bitnað fljótt á fötluðum. End- urskoðun velferðarkerfisins hefur ver- ið í gangi á öllum Norðurlöndum und- anfarin ár; róttækust hefur hún verið í Svíþjóð og Finnlandi, en þetta er þróun sem ekkert norrænt land hefur sloppið við. Staða fatlaðra í þjóðfélög- um Norðurlandanna hefur átt í vök að veijast í þessum breytingum. Eins og gefur að skilja eru þessar breytingar í brennidepli á þingi banda- lags fatlaðra á Norðurlöndum. En það er margt fleira en efnahagssamdrátt- ur og endurskoðun velferðarkerfa sem hefur áhrif á stöðu fatlaðra. Á síðasta þingi bandalagsins, sem fram fór í Danmörku 1992, var aðeins gest- gjafaþjóðin aðili að Evrópusamband- inu, ESB. Nú eru hins vegar þijár Norðurlandaþjóðir í ESB og tvær tengdar því með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði (EES). Valdimar segir þátttöku Is- lendinga í þessu samstarfi opna nokkra nýja mögu- leika - hún skili m.a. fé til verkefna til hagsbóta fyrir fatlaða. __________ Þótt málefni fatlaðra séu almennt flokkuð undir félagsmál og sá málaflokkur er eftir sem áður á valdi stjórnvalda í hveiju aðildarlandi en er ekki á könnu hinna sam- eða yfirþjóðlegu stofnana ESB, hafa stefna og ákvarðanir Evrópusam- bandsins á ýmsum öðrum sviðum bein eða óbein áhrif á stöðu fatlaðra á Norðurlöndum, Af þessari ástæðu er samstarf um málefni fatlaðra á sviði Evrópusam- bandsins og EES ofarlega á baugi um þessar mundir. Fyrri aðalráð- stefnudagur þingsins var helgaður umræðu um Evróputengd mál. Ber í því sambandi að nefna spurninguna um hvaða áhrif EES-samningurinn Bandalag fatlaðra á Norðurlöndum fagnar á þessu ári hálfrar aldar afmæli sínu. Fulltrúar frá landssamtökum fatlaðra á öllum Norðurlöndunum sóttu þing bandalagsins í Reykjavík og ræddu á þessum tímamótum stöðu fatlaðra á Norðurlöndum og í Evrópu. Auðunn Arnórsson heimsótti þingið og tók nokkra þingfulltrúa tali. Valdimar Pétursson Guðríður Ólafsdóttir Pekka Tuominen Gunnar Buuvik Karen Madsen Birgitta Anderson Óttast að samevrópskir staðlar rýri hina norrænu hafi á félagsmál, hvaða þýðingu hin svokallaða HELIOS-áætlun ESB hef- ur haft á þróun félagsmála og stöðu fatlaðra í apildarlöndum ESB, en Noregur og ísland eru þátttakendur í HELIOS-áætluninni með EES-samn- ingnum. Nýsköpuð ráðgjafarnefnd samtaka fatlaðra í Evrópu (The Independent Disability Forum) var þinggestum líka hugleikin í gær. Rætt var um hvert hlutverk hennar eigi að vera og hvaða vonir menn binda við starf nefndar- innar. Fyrsta þingdeginum lauk með hringborðsumræðu um stefnu ESB í málefnum fatlaðra árið 2000. ________ Seinni ráðstefnudagur þingsins, föstudagurinn, var heigaður umræðu um breytt hlutverk Norður- landaráðs, en með endur- skipulagningu þess var fé- lagsmálanefnd þess lögð niður, sem málefni fatlaðra höfðu heyrt undir. Sjálfstæð norræn nefnd um málefni fatlaðra er hins vegar starfandi og vitaskuld var starfsemi hennar tekin fyrir á þinginu. Mat formanna Blaðamaður Morgunblaðsins hitti formenn norrænu landssamtakanna fimm, og fékk þá til að skýra frá því hvernig þeir meta stöðu fatlaðra í hverju landi fyrir sig, á Norðurlöndum almennt og í Evrópu. Guðríður Ólafsdóttir, formaður Sjálfsbjargar l.s.f.,_ segir hagsmuna- baráttu fatlaðra á íslandi undanfarin fimm ár hafa snúizt í harða varnarbar- áttu. Frá stofnun Sjálfsbjargar árið 1959 hafi samtökin, rétt eins og syst- urfélög hennar á hinum Norðurlönd- unum, leitazt við að auka skilning almennings og stjórnvaida á þörfum hreyfihamlaðra og vekja athygli á þeim hindrunum sem hvarvetna verða á vegi þeirra í daglegu lífí. Og orðið töluvert ágengt. Nú séu hins vegar ýmis teikn á lofti um að erfitt muni einfaldlega að halda í þau réttindi sem áunnizt hafa. Efnahagssamdrátturinn sem ríkt hefur frá upphafi þessa ára- tugar hefur haft margvíslegar afleið- ingar fyrir fatlaða og á það jafnt við um öll Norðurlöndin. Guðríður segir að erfitt sé að sumu leyti að bera saman stöðu fatlaðra á Norðurlöndun- um, aðstæður séu býsna mismunandi, þó vissulega sé sá mismunur lítill að teknu tilliti til landa utan Norðurlandanna. Gagnsemi Norðurlandasamstarfsins segir hún liggja fyrst og fremst í upplýsinga- skiptum. Mikið af þekkingu og reynslu er miðlað milli landssambandanna - hver lærir af öðrum. Ef einhver hug- mynd virkar vel í einu landi er hún oft tekin upp í hinum. Segja megi að Svíar og Danir séu oftast fyrstir til að lögleiða nýjungar sem bæta stöðu fatlaðra; íslendingar séu hins vegar tiltölulega seinir til að innleiða nýjar reglugerðir, til dæmis hafí reglur um bætt aðgengi fyrir fatlaða að opinber- um byggingum ekki verið festar í byggingareglugerð hér fyrr en árið 1979. Efnahagssamdráttur síðustu ára hefur að sögn Guðríðar leitt til mikill- ar fjölgunar örorkulífeyrisþega í al- mannatryggingakerfinu. Samdráttur í þjónustu við fatlaða sem fylgifiskur efnahagskreppunnar sé þó vandamál sem gæti ekki síður á öðrum Norður- löndum, segir hún. Atvinnumál og menntun Atvinnumál eru eitt þeirra mála sem snerta stöðu fatlaðra mjög og eru formönnunum hugleikin. Gunnar Buuvik, formaður norsku landssam- takanna, bendir á, að í nýlegri könnun sem gerð var í Noregi, hafi komið í ljós, að um 80 af hundraði fatlaðra sem höfðu aflað sér háskólamenntun- ar hefðu atvinnu, en hlutfallið væru öfugt hjá hreyfihömluðum með litla menntun. Þetta sýni skýrt mikilvægi þess að fatlaðir afli sér menntunar - og sé gert það kleift. í Danmörku hefur mikið verið gert til að bæta úr atvinnumáium fatlaðra. Að sögn Karen Madsen, formanns danska landssambandsins, var komið upp atvinnumiðlun fyrir fatlaða fyrir tveimur árum sem hafi á stuttum tíma skilað miklum árangri - um 2.000 manns í öllum héruðum Danmerkur sneru sér til miðlunarinnar á fyrsta starfsári hennar. Mjög erfitt sé þó að finna nákvæmar tölur yfir Jjölda fatl- aðra sem hafa vinnu í Danmörku, því upplýsingar um fötlun launþega eru ekki skráðar. Sérstaða Norðurlanda Það sem öllum norrænu fulltrúun- um er hugleikið, er að staða og þróun félagsmála innan Evrópusambandsins er með þeim hætti, að þeir óttast, að hún gæti stefnt ýmsu af þvi sem áunn- izt hefur í réttindamálum fatlaðra á Norðurlöndum í hættu í framtíðinni. Fulltrúarnir leggja áherzlu á mikil- vægi þess að Norðurlöndin leggi sam- an krafta sína til að veijast þessari hættu. Buuvik segir málið snúast um þann mun sem er á grundvallarhugsuninni að baki stefnunni í málefnum fatlaðra á Norðurlöndunum annars vegar og í hinum ýmsu aðildarlöndum ESB hins vegar, einkum þeirra suðlægu. Á Norðurlöndunum haldi menn sig við hugmyndina um félagslega sam- stöðu þjóðfélagsins, sem nái einnig til fatlaðra, og meginregluna um að fatlaðir hafí rétt til að staða þeirra í þjóðfélaginu sé jöfnuð upp til að þeir fái að njóta sín sem einstaklingar þrátt fyrir fötlun sína. I Suður-Evr- ópulöndum sé þessu öðruvísi varið. Þar byggist afstaðan til fatlaðra og uppbygging þjónustu við þá á almenn- um tryggingum. Hinar ólíku leiðir til fjármögnunar þjónustu við fatlaða skýra þetta frek- ar, eins og Pekka Tuominen, formað- ur finnsku landssamtakanna, bendir á. Á Norðurlöndum er stærstur hluti þessarar þjónustu fjármagnaður af skattfé, í Suður-Evrópu hins vegar af tryggingafyrirtækjum og framlög- um ýmiss konar. Sá háttur sem hafð- ur er á þessu á Norðurlöndum gefur ---------- fötluðum einstaklingum visst öryggi og ekki sízt sjálfstæði sem ekki er til að dreifa í hinu kerfinu. Einnig einkennir það starf að málefnum fatlaðra á Norðurlöndum, að þar eru Norðurlanda- samstarf fatl- aðra í endur- skoðun þau félög sem koma nærri starfinu fyrst og fremst félög fatlaðra sjálfra en ekki félög ófatlaðra sem vinna fyrir málstað fatlaðra. Birgitta Anderson, formaður sænsku landssamtakanna, bendir á að á Norðurlöndunum sé búið að byggja upp heimaþjónustu, sem gerir fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi úti í þjóðfélaginu, en í Suður-Evr- ópu hafi það fólk sem er þannig fatl- að að það þurfi á slíkri þjónustu að halda ekki kost á öðru en að búa á stofnunum. Ljóst er að norræna „mód- elið“ er dýrara. Það sé því mikil tog- streita um hvaða stefna verði ofan á í Evrópusambandinu.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.