Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1960, Side 74
78
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
röð, 1.30x1-00 m að stærð. Það er óljóst, en ótvíræð mannaverk eru
þó á því. Loks er óvönduð hleðsla fyrir innsta kima hellisins, og má
vera að hún sé sett til varnar því að farið sé þangað inn, enda er það
ekki hættulaust vegna þess hve hellisgólfið er þunnt þar.
Víða á hellisgólfinu, einkum í fleti og kró við norðurvegg og þar
í grennd var talsvert af kindabeinum, jafnt hausbein og leggir sem
önnur bein, og voru flest leggbein brotin til mergjar. Einnig fundust
þar nokkrar hrosstennur. Ekki voru þar nein ókjör af beinum, svo að
þau lægju í hrúgum, en talsvert var þó af beinum í flestum gjótum
Gólfflötur hellisins meS varnarvegg og svefnbálki. — Plan of the
cave witli wall and stone-paved sleeping bunk.
í gólfinu. Beinin voru mörg mjög fúin, en sum voru þó næsta heilleg.
í fletinu við norðurvegg fundust tvær litlar pjötlur úr eir eða látúni
og rétt þar hjá brotið brýni úr glimmerskifer, svo mjótt að það hefur
vart verið nothæft til að brýna annað með því en skónálar.
Innan við innri króarvegginn voru lítilfjörlegar eldleifar í gólfinu,
viðarkolamolar og aska. Hvergi annars staðar í hellinum fundust
nein merki eftir eld.
Hellisgólfið er á að gizka 8—10 m neðar en yfirborð hraunsins, en
það er á þessum slóðum í 460 m hæð yfir sjávarmál. Er því næsta kalt
í hellinum og lítill gróður þar niðri, helzt skófir og dálítill mosi. Ekki
er hægt að sjá, að gróður á hleðslum sé að neinu ráði minni en á
veggjum hellisins né rjáfri.