Eimreiðin - 01.01.1896, Side 32
32
Hún hafði vistaskipti á hverri vordaga krossmessu, sem al-
manakið nefndi, og flutti sig þá optast nær nokkuð langt úr stað.
Atvikin höguðu því þannig, að áður en vistarárið var á enda,
var hún orðin að bitbeini gárunganna og skotspæni slaðursins í
grendinni.
Hún var stirðfætt og klaufhent til verka, meinlaus i orðum
og vildi ekki gera flugu mein, gjörsneydd öllum fegurðar einkenn-
um, og þótti vilja draga sig eptir piltunum. A þessar uglur hengdu
gárungarnir hattana sína. Þeir voru ekki í vandræðum með uglur-
nar, og hún var ekki í vandræðum með vistirnar; því svo mikil
vinnukvenna-ekla var í landinu, að margar góðar konur urðu
»sjálfar« að vera í fjósinu.
Það þarf ekki lengi að litast um í henni Veröld, til þess að
sjá fjölda af konum og körlum, sem giktarverkir syndarinnar eru
búnir að skekkja svo i liðum, að gangurinn er orðinn afskræmi-
legur. Margir fresta til morguns, að greiða tíundir sínar guði og
náunganum. Margur er sá Jóninn og mörg er sú Guðrúnin, sem
láta syndina svæfa sig á kveldin og vekja sig á morgnana, fyrir-
verða sig ekki lifandi vitund fyrir, og eiga góðri heilsu og virð-
ingu að fagna til ellidaga. Þau andlit eru víst teljandi, sem fingra-
för syndarinnar sjást ekki á — seinni hluta vikunnar að minnsta
kosti. Prestarnir þvo þeim í framan á sunnudögunum, sem það
vilja þýðast — eptir því sem þeir hafa vatnið og hendurnar til.
Hinir sitja heima með báða kjammana bildótta.
Sigrún hafði hinar farsællegu trúarskoðanir, sem hún hafði
numið í kverinu og biblíusögunum. Hún hafði engan glæp drýgt
vísvitandi; samvizkan var hvít eins og nýþvegið peysubrjóst. Þó
vildi hún láta þvo sjer, þótti það varlegra og vissara. Hún fór
til messu í hvert sinn, sem messað var, eða messa átti. Það vildi
til, að þjónustugerðin fórst fyrir, sökum lögmætra forfalla.
Og hvort sem presturinn talaði um sambandið milli trúar og
helgunar, eða heimilisfrið og náungakærleika, þá brást það varla,
að tárin flytu niður á höku Sigrúnar; — einkum þegar aptur dró
í ræðuna, þegar þar kom, að presturinn tók til að sameina ræðu-
þræðina og vinda þá saman í hnoða, sem svo valt sjálfkrafa að
tám hinna grátfrjóvu sálna. Það var ekki prestsins skuld, þótt því
væri svo stungið undir sængurhornið, eða fleygt i ruslakistuna,
þegar heim kom.
Enginn villutrúar-mývargur hafði skyggt fyrir sólina í hjer-