Eimreiðin - 01.01.1917, Side 41
41
Mér þótti vænt um það, en það atvikaðist þó einhvernveginn svo, að
við urðum ekki samferða þangað. Ég fór einn, því ég var búinn að
fá að vita, hvar hann bjó.
Þegar ég kom þangað, var Jón ekki heima. En frú Ingibjörg,
kona hans, tók á móti mér, bauð mér inn og sagði, að hann kæmi
bráðum. Þetta var hérumbil kl. 5 e. m., og kom Jón von bráðar.
Var ég þar svo alt kvöldið fram til kl. .11, ásamt fleirum löndum,
sem voru að smátínast þangað. Þar var margt skrafað um landsins
gagn og nauðsynjar, en það kvöld þó mest um fjárkláðann, sem þá
geisaði hér á landi. Jón Sigurðsson, var lækningamaður, sem kunnugt
er, en margir af gestum hans voru niðurskurðarmenn. En þó hygg
ég, að flestir þeirra hafi orðið lækningamenn, þegar Jón var búinn að
tala yfir hausamótunum á þeim.
Eftir þetta var ég oft hjá Jóni á kvöldin þennan vetur, og voru
þá aldrei færri, er þar borðuðu kvöldverð, en 6, og stundum fleiri.
Ekki man ég nú nöfn allra þeirra, er þar komu, en þessir komu þar
oft: Benedikt Sveinsson, Arnljótur Ólafsson, Magnús
Eiríksson, sem oftast var nefndur »frater,« Steingrímur Thor-
ste' nsson og Sumarliði gullsmiður Sumarliðason, auk
f’orláks Ó. Jóhnsons, sem var þar heimagangur og borðaði þar.
Margir komu þar fleiri, þó ekki muni ég nú nöfn þeirra.
far var ætíð íslenzkur matur á borðum, bæði harðfiskur, hangi-
kjöt og kæfa. Og eftir máltíð var sezt að drykkju, og ávalt drukkið
»toddý.« Bar þá margt á góma, en þann vetur þó mest talað um
fjárkláðann. En veturjnn eftir (1859—60) var frekar slegið á stór-
pólitiska strenginn, og komst þá oft í hart meðal gestanna, því mein-
ingamunur var mikill hjá sumum, sem oft kann að verða.
Þegar sezt var að drykkju, var það vandi Jóns, að halla sér
aftur á bak á stólnum og hneppa frá sér vestinu, og þá reykti hann
hvern vindilinn á fætur öðrum. En þess utan sá ég hann aldrei
reykja. Já, þá var nú pólitíkin ekki látin liggja í láginni. En þar
sem svo langt er um liðið síðan, man ég nú lítt, hvernig ræður féllu.
Þó man ég, að verið var að velta því fyrir sér, hvernig bezt færi á,
að landinu væri stjórnað. Vildu sumir hafa jarl, en aðrir landsstjóra.
með ráðgjöfum og löggefandi þingi, og sumir slógu því jafnvel fram,
hvort ísland gæti ekki verið þjóðveldi. En þá man ég, að Jón
Sigurðsson tók í taumana og sagði: »Látið ykkur ekki detta þjóðveldi
í hug, því það er okkur ofætlun. í sambandi við einhverja þjóð
verðum við að vera. En það segi ég, að út fyrir Norðurlönd megum
við ekki fara. Sambandið verður að vera annaðhvort við Danmörku, •
Svíaríki eða Noreg.« Þá man ég, að spurt var, því við mættum ekki
fara út fyrir Norðurlönd. Þá sagði Jón: »Vegna þess, að ef við
værum f sambandi við eitthvert stórveldi, mundi það gleypa okkur, svo
þjóðerni og tungu væri hætta búin; en smáríkin mundu ekki verða
okkur eins hættuleg, að því er þjóðerni og tungu snertir.« — Ég var
ekki nema rúmlega tvítugur þá, og lítt farinn að hugsa um pólitík; en
ég tók eftir því, sem talað var, og man svo vel, að svona var álit
Jóns, að því er samband við aðrar þjóðir snerti.
Það var mesta unun, að vera kvöldstund hjá Jóni Sigurðssyni.