Morgunblaðið - 11.01.2001, Qupperneq 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. JANÚAR 2001 45
semi og ósérhlífni og fjölskyldan var
henni allt. Björk átti fjögur börn, níu
barnabörn og tvö langömmubörn.
Hún lagði hart að sér, vann myrkr-
anna á milli við saumaskap til að
koma börnum sínum til náms.
Skoðunum og lífsgildum sínum
kom hún á framfæri við börn,
tengdabörn og barnabörn fyrst og
fremst með eigin framkomu en ekki
með prédikunum eða aðfinnslum.
Björk átti við heilsubrest að stríða
vegna beinþynningur sl. 15 ár. En
fyrir fjórum árum veiktist hún alvar-
lega og var vart hugað líf en hún af
þrjósku og lífskrafti náði heilsu og
fengum við því fjögur ár í viðbót með
henni.
Björk fylgdist alltaf mjög vel með,
hvort sem voru þjóðmál eða dægur-
mál. Hún hlustaði mikið á tónlist og
hafði yndi af, sjálf spilaði hún á orgel
og gítar á sínum yngri árum. Hún tók
þá ákvörðun fyrir ári að flytja á sam-
býli aldraðra í Gullsmára 11 og eign-
aðist þar vinkonur og naut góðs at-
lætis þar síðasta árið en kom í
Reynihvamminn eins oft og heilsan
leyfði.
Björk hélt tengslum við bestu vini
sína og fékk að njóta samvista við
fjölskyldu sína fram á síðasta dag.
Það gladdi okkur fjölskylduna að
Björk átti með okkur þessi jól í
Reynihvamminum eins og öll önnur
jól, glöð og ánægð, en vildi svo gjarn-
an hafa getað eldað handa okkur jóla-
matinn.
Ég þakka Björk samveruna og
sendi vinum og ættingjum hennar
samúðarkveðjur.
Ingi Jón Hauksson,
tengdasonur.
Elsku amma. Þeir voru margir
göngutúrarnir sem ég fékk mér til að
koma að sækja þig í vinnuna þegar
þú vannst í Tinnu í Auðbrekkunni.
Svo löbbuðum við heim saman og þú
fékkst þér kaffisopa áður en ég dró
þig á fætur og bað þig að koma í
bankastjóraleik. Við bjuggum til
banka úr gamla eldhúsinu heima, ég
var bankastjórinn, þú viðskiptavinur-
inn og blýantar og tússpennar pen-
ingarnir. Þetta var uppáhaldsleikur-
inn minn en fáir aðrir en þú virtust
hafa áhuga á að skipta við bankann
minn.
Ég man sérstaklega vel eftir því
þegar þú sast yfir okkur Hauki þegar
við vorum lítil. Við vildum láta lesa
fyrir okkur áður en við fórum að sofa.
Við fórum undir sæng, þú tókst þér
stól og settist á milli herbergja okkar
og last upphátt fyrir okkur úr Lukku
Láka-bók.
Svona varst þú, alltaf til í að leika
og fíflast svolítið. Það var alltaf gam-
an að vera í nærveru þinni því per-
sóna þín var lifandi og skemmtileg.
Kæra nafna, þín verður sárt sakn-
að.
Þín dótturdóttir
Björk Ingadóttir.
Elsku Björk. Það fyrsta sem kem-
ur upp í huga minn þegar ég hugsa til
þín er ótrúleg þrautseigja þín við að
bjóða mér eitthvað gott í gogginn.
Hvort sem það voru kökur eða
nammi, þú gafst ekki upp fyrr en ég
þáði eitthvað. Alltaf þegar ég kom
heim bankaðir þú á gluggann og
bentir mér að koma niður til þín og fá
mér eitthvað gott.
Frá því að Björk I. kynnti mig fyr-
ir þér tókstu mér opnum örmum og
bauðst mig velkominn í fjölskylduna.
Ég varð ekki þeirrar gæfu aðnjót-
andi að kynnast mínum öfum og
ömmum og því var fyllt upp í stórt
skarð þegar ég kynntist þér. Mér fór
strax að þykja vænt um þig og fyrir
mér varst þú amma.
Amma, ég vil þakka þér fyrir þær
stundir sem við áttum saman. Þú
munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.
Þinn vinur
Jónas.
Þú varst alltaf svo góð, bæði við
okkur og aðra. Sama hvernig stóð á
hjá þér, alltaf hugsaðir þú fyrst um
aðra og síðan um sjálfa þig. Þér var
svo umhugað um líðan okkar og ham-
ingju að það mátti varla segja þér frá
því ef eitthvað bjátaði á hjá okkur því
þá varðstu svo áhyggjufull. Þú vildir
til dæmis síður að við værum í fót-
boltanum, ekki vegna þess að þú
hefðir eitthvað á móti íþróttinni
sjálfri – þú varst bara svo hrædd um
að við meiddumst í öllum ærslagang-
inum.
Þú hafðir alveg rosalega gaman af
því að gefa og gleðja aðra en það
mátti helst ekki gefa þér neitt. En
þegar við gáfum þér eitthvað eða
gerðum eitthvað fyrir þig, hversu
smávægilegt sem það var, gladdist
þú alltaf svo mikið, og talaðir jafnvel
um það lengi á eftir. Það gerði okkur
bæði glöð og stolt.
Takk fyrir allar yndislegu sam-
verustundirnar, elsku amma. Núna
líður þér vel og ert loksins búin að
hitta Hans afa aftur.
Þín barnabörn
Hans, Sigrún, Bára, Björk
og Gunnar Tómas.
Í dag verður Björk föðursystir mín
lögð til hinstu hvílu og vil ég minnast
hennar með nokkrum orðum.
Þegar ég var á fjórtánda ári fór ég
í mína fyrstu ferð á suðvesturhornið.
Það kom ekki annað til greina en að
gista í Reynihvamminum hjá Björk.
Það var í hennar augum sjálfsagður
hlutur að skyldfólkið frá Hornafirði
dveldist hjá henni um lengri eða
skemmri tíma, hvert sem erindið til
Reykjavíkur var.
Þegar ég hóf nám í Reykjavík stóð
heimili Bjarkar mér ætíð opið. Oft
hringdi hún í mig og bauð mér að
koma að borða með sér. Hún var
listakokkur og víst er að enginn fór
svangur frá henni. Í þessum heim-
sóknum mínum til hennar spjölluðum
við alltaf mikið saman. Oft sagði hún
mér sögur af foreldrum sínum, systk-
inum og uppvaxtarárunum á Horna-
firði. Einnig vildi hún fá fregnir að
austan en hún hafði alla tíð mjög
sterkar taugar til æskuslóðanna.
Mér fannst athyglisvert hversu vel
hún geymdi ákveðna staði í hjarta
sínu. Jafnvel þó að mörg ár væru lið-
in frá því að hún kom síðast í heim-
sókn gat hún lýst staðháttum eins vel
og hún hefði verið þar nýverið.
Síðustu árin hefur heilsu Bjarkar
hrakað smám saman. Stundum þeg-
ar ég kom í heimsókn til hennar var
greinilegt að hún var sárþjáð en aldr-
ei kvartaði hún. Reyndi frekar að slá
á létta strengi og sagði að það væru
áreiðanlega einhverjir sem hefðu það
verra en hún. En það var einmitt
þessi jákvæðni, glaðværð og umburð-
arlyndi sem var svo einkennandi fyr-
ir frænku mína.
Þegar ég fór ásamt fjölskyldu
minni til að fagna nýliðnum áramót-
um í Hafnarfirði kíktum við í heim-
sókn til Bjarkar. Að vanda tók hún
okkur opnum örmum og við spjöll-
uðum heilmikið saman. Jafnframt
sagði hún að nú vissi hún að endalok-
in væru að nálgast. Það kom því ekki
á óvart þegar fregnin barst af andláti
hennar.
Að leiðarlokum vil ég þakka Björk
samfylgdina og allar þær góðu stund-
ir er við áttum saman.
Hjördís Skírnisdóttir.
✝ Jón Árni Krist-ófersson fæddist
á Klúku í Fífustaða-
dal í Arnarfirði 7.
janúar 1913. Hann
lést á dvalarheim-
ilinu Hrafnistu í
Reykjavík 4. janúar
síðastliðinn. Foreldr-
ar hans voru Krist-
ófer Árnason, f. 2.
ágúst 1874, d. 20. júlí
1956, og Kristín
Jarðþrúður Jónsdótt-
ir, f. 6. maí 1885, d. 2.
október 1951. Jón
var þriðji í röð átta
systkina. Þau voru: 1) Sigríður
María, f. 15. desember 1909, d. 17.
desember 1909. 2) Friðfinna Sig-
ríður, f. 21. febrúar 1911, d. 5.
febrúar 2000. 3) Ragnar, f. 1.
ágúst 1916. 4) Pétur Ástráður, f.
31. október 1917, d. 25. maí 1975.
5) Jóna Péturína Kristín, f. 17.
apríl 1919, d. 18. apríl 1985. 6)
Magnfríður Kristín, f. 12. júlí
1921, d. 27. nóvember 1998. 7)
Þorbjörg Guðrún, f. 8. maí 1926,
d. 21. september 1979.
Jón kvæntist Sigurfljóð Jens-
dóttur frá Selárdal
1. janúar 1946 og
höfðu þau þá verið
heitbundin í fimm
ár. Sigurfljóð var
fædd 10. ágúst 1919.
Hún lést 18. janúar
1998. Jón og Sigur-
fljóð eignuðust tvær
dætur. Þær eru 1)
Ingveldur Jenný, f.
5. ágúst 1941, sem
gift var Hilmari Jak-
obssyni og eignuðust
þau dæturnar Sigur-
fljóð Jónu og Sæunni
Kristínu. Þau slitu
samvistir. Seinni maður hennar
var Björn Björnsson. Þau slitu
samvistir. Jenný er nú í sambúð
með Hauki Eiríkssyni. Barnabörn
Jennýjar eru fimm. 2) Árndís
Alda, f. 7. maí 1948, sem gift er
Bjarna Þór Einarssyni frá Bessa-
stöðum í Miðfirði. Börn þeirra eru
Ingunn Helga, Ragnhildur og Jón
Árni.
Útför Jóns Árna Kristófersson-
ar fer fram frá Bústaðakirkju í
dag og hefst athöfnin klukkan
13.30.
Með þessum orðum langar mig að
minnast elsku föður míns og senda
hinstu kveðjur frá mér og mínu fólki.
Margt kemur í hugann á þessari
stundu. Það að pabbi skyldi fá að
fara yfir landamæri lífs og dauða var
gott. Einnig fannst mér ánægjulegt
að ég skyldi fá að vera hjá honum og
skynja þegar þjáningum hans lauk
hér á jörðu. Þetta líf virðist oft á tíð-
um vera svo erfitt að við mannanna
börn skiljum ekki tilgang þess. Nú er
ég viss um að pabbi er kominn til
Guðs, mömmu og allra sem honum
þótti svo vænt um og eru farin héðan.
Við töluðum oft saman síðustu árin
þegar við sátum saman ein, þá sagði
pabbi mér oft sögur frá því í gamla
daga þegar hann var að alast upp í
sveitinni fyrir vestan. Þá gleymdi ég
mér oft og fannst ég vera með hon-
um bæði á Klúku og í Selárdal.
Það var ótrúlegt að pabbi skyldi
hafa þann dugnað til að bera sem
ungur maður, innan við tvítugt, að
endurbyggja gamlan torfbæ foreldra
sinna við þær aðstæður sem voru í þá
daga. Það var honum örugglega góð
reynsla, því hann var alltaf að byggja
eftir það. Hann var fæddur smiður,
það fór ekki milli mála. Með þessum
línum vil ég þakka föður mínum allar
þær skynsamlegu ráðleggingar sem
hann gaf mér, þótt ég færi því miður
ekki alltaf eftir þeim. Það var, og
verður mér áfram, gott veganesti í
lífinu.
Ég enda þessi kveðjuorð með
nokkrum línum úr uppáhaldsdægur-
lagatextanum hans pabba.
Hér stóð bær sem hríðin barði,
hér stóð bær sem veitti skjól,
hér stóð bær sem pabbi byggði
undir brekku á lágum hól.
(L. Guðmundsson.)
Góði Guð geymi þig elsku pabbi.
Þín dóttir,
Jenný.
Í dag er til grafar borinn Jón
Kristófersson frá Klúku í Fífustaða-
dal í Arnarfirði. Mér er það bæði
ljúft og skylt að minnast hans í fáein-
um orðum og þakka samfylgdina
sem nú hefur varað í rúm þrjátíu ár.
Ég átti því láni að fagna að eignast
hann sem tengdaföður, og hef notið
hans föðurlegu umhyggju æ síðan.
Jón var af þeirri kynslóð sem nú er
að hverfa, sem ólst upp við sjálfs-
þurftarbúskap og sjóróðra á opnum
bátskeljum. Hann tók þátt í vélvæð-
ingu bátaflotans við Arnarfjörð og
var þekking hans á þessum horfnu
atvinnuháttum mjög nákvæm og
honum útbær. Jón var smiður góður
og nutu þess margir, allt frá því að
hann stækkaði bæinn á Klúku forð-
um. Lengst af starfaði hann við húsa-
smíðar með mági sínum, Davíð Jens-
syni húsasmíðameistara. Hann gekk
til verka sinna af eljusemi og um-
hyggju og áttu þau hug hans allan.
Þau verkefni sem honum þótti vænst
um voru þær kirkjur sem þeir félag-
ar unnu. Má þar nefna viðgerðir og
endurbætur kirknanna á Stóra-
Vatnshorni, á Staðarfelli og í Selár-
dal og byggingu Bústaðakirkju. Árið
1978 hóf Jón störf hjá Trésmiðjunni
Víði. Þar nýttist lagni hans og út-
sjónarsemi vel við viðgerðir á hús-
gögnum það sem eftir var starfsæv-
innar.
Hans mesta gæfa í lífinu var að
kvænast heimasætunni í Selárdal,
Sigurfljóð Jensdóttur. Þau giftu sig á
nýársdag 1946 og nutu samvista uns
leiðir skildi í janúar 1998 er hún and-
aðist á heimili þeirra sem þá stóð á
Kleppsvegi 62. Þá hafði Jón annast
hana í veikindum hennar nokkur
undanfarin ár af stakri natni. Þegar
Sigurfljóð var fallin frá sótti Jón um
vist á Dvalarheimilinu Hrafnistu og
fékk þar inni í maí 1999. Þar í fjöl-
menninu kynntist hann fyrst ein-
semdinni og var sárt að geta ekki
sinnt honum betur þessa síðustu
mánuði. Nú er þessu stríði lokið. Ég
og fjölskylda mín þökkum ljúfa sam-
fylgd. Vertu blessaður tengdapabbi
og þakka þér fyrir samfylgdina.
Bjarni Þór Einarsson.
Í dag fylgjum við honum afa mín-
um til grafar og þökkum honum
veruna hér í mannheimum. Ég veit
að síðustu árin voru erfið og sárs-
aukafull og því hvíldin vel þegin þótt
hann afi minn væri ekki maður
kvartana. Að vissu leyti er léttir og
friður í för hans og veit ég að hún
amma mín verður glöð að fá hann
aftur.
Jón og Fljóða voru þau kölluð.
Komu af Vestfjörðum úr litlum döl-
um, þar sem afi gekk yfir fjallið og
fann hana Fljóðu sína. Þau voru hóg-
vært og vinnusamt fólk sem gladdist
yfir lífinu eins og það var. Þau voru
af þeirri kynslóð Íslendinga sem
unni landi sínu og þjóð en ekki
skrumi okkar daglega lífs.
Ég er þakklát fyrir að hafa upp-
lifað stór fjölskylduboð með heima-
bökuðum kökum, hangikjöti og
hveitikökum að vestfirskum sið og
ekki má gleyma félagsvistinni. Ég
mun ávallt geyma myndina um afa
og ömmu í hjarta mínu og reyna að
miðla henni til barna minna og vona
að mínir afkomendur gleymi því
aldrei að við komum frá þessum sér-
staka stað og þessu yndislega fólki.
Megi vættirnar vernda ykkur og
englarnir leiða.
Sigurfljóð Jóna Hilmarsdóttir.
Með þessum línum langar okkur
að minnast afa okkar, Jóns Árna
Kristóferssonar, sem lést hinn 4.
janúar sl. Í bernskuminningum okk-
ar voru afi og amma í Reykjavík einn
af föstu punktunum í tilverunni.
Ekki var farið til Reykjavíkur án
þess að heimsækja þau og þar feng-
um við ávallt hlýlegar móttökur, gott
að borða og svo kaldan búðing í eft-
irmat að hætti ömmu. Bismark-mol-
ar og súkkulaði voru líka alltaf innan
seilingar hjá þeim. Í borgarferðum
voru hefðir eins og að fara með afa í
strætóferðir mikið ævintýri. Afi
hafði ávallt tíma fyrir okkur og
gladdi okkur með sögum, sem oftar
en ekki voru um lífið í sveitinni fyrir
vestan eða af sjónum þegar hann var
ungur. Hann var mjög góður smiður
og eitt sinn smíðaði hann hús í barna-
stærð handa okkur, sem við gátum
leikið okkur að í garðinum heima á
Húsavík. Í húsið hafði hann, af sinni
alkunnu snilld, smíðað alls kyns hús-
gögn og innréttingar þannig að við
höfðum okkar eigið hús með öllum
þægindum sem varð endalaus upp-
spretta leikja og uppátækja hjá okk-
ur. Þegar við urðum eldri lágu leiðir
okkar oftar til höfuðborgarinnar og
hjá þeim afa og ömmu fengum við
sem áður frábærar móttökur með
hefðbundum hætti, þótt ævintýra-
ferðum í strætó hafi fækkað.
Afi og amma voru mjög samheldin
og þegar amma veiktist hugsaði afi
af natni um hana. Þegar amma dó
varð eftir stórt skarð í lífi hans. Núna
eru þau saman á ný.
Guð geymi þig elsku afi.
Ingunn Helga, Ragnhildur
og Jón Árni.
Jón Kristófersson mágur okkar
systkinanna frá Selárdal er látinn.
Okkur er ljúft og skylt að minnast
hans og þakka fyrir allar samveru-
stundir liðinna ára.
Nú, þegar ný öld er gengin í garð,
berum við saman gildi og lifnaðar-
hætti fólks, sem lifði nær alla síðustu
öld, við það sem við búum við í dag,
og er þá flest ólíkt, þegar litið er til
fyrri hluta síðustu aldar.
Jón var fæddur 7. janúar 1913, að
Klúku í Fífustaðardal við Arnar-
fjörð. Þótti hann ungur mikill efn-
ispiltur, sérlega hagur og vinnusam-
ur, enda varð það svo að smíðar urðu
hans aðalævistarf.
Ekki mun hann hafa verið nema
nýlega kominn af fermingaraldri
þegar hann átti stærstan þátt í bygg-
ingu nýs bæjar á Klúku. Hagleikur
hans og verklagni spurðist því um
sveitina og margir bændur í Ketil-
dalahreppi leituðu til hans um aðstoð
við lagfæringar á húsum og bátum.
En í þá daga eins og í dag liggja
leiðir margra suður og fór Jón á ver-
tíðir til Keflavíkur og Grindavíkur,
en heim í sveitina lá svo leiðin á ný
þegar voraði, og þá var stunduð sjó-
sókn á trillubátum eða smíðar eftir
því hvar vinnu var að fá eða eftir leit-
að.
Það var svo árið 1939, að foreldrar
okkar réðust í að byggja nýtt íbúðar-
hús á Selárdal. Var Jón ásamt fleiri
mönnum fenginn til að vinna við
bygginguna, og gekk verkið vel. Og
þá tókust góð kynni hans við systur
okkar Sigurfljóðu, sem síðar varð
konan hans. Hófst þá einnig gott
samstarf föður okkar og Jóns, við
byggingu hússins, bátasmíði og sjó-
sókn.
Jón og Sigurfljóð systir okkar
hófu svo búskap með foreldrum okk-
ar á Selárdal, en til þess þurfti að
stækka húsið, og var það gert. Eftir
nokkurra ára ágætt samstarf á Sel-
árdal fluttu Jón og Fljóða til Bíldu-
dals, og vann Nonni þar við smíðar.
Árið l952 flytja þau til Reykjavík-
ur, og fer Jón þá að vinna hjá Davíð
mági sínum, sem hafði á höndum um-
fangsmikla byggingarstarfsemi.
Meðal annars endurbyggðu þeir
nokkrar kirkjur og þar á meðal Sel-
árdalskirku, og síðan byggðu þeir
Bústaðakirkju í Reykjavík, sem mun
hafa verið síðasta samstarfsverkefni
þeirra. Verkin lofa meistarana. Síð-
ustu vinnuár sín vann Jón hjá Tré-
smiðjunni Víði.
Eftir að Jón og Sigurfljóð voru
komin til Reykjavíkur, gáfust fleiri
tækifæri fyrir fjölskyldur okkar til
samfunda. Enda var það svo að
næstum í viku hverri var hist á heim-
ili þeirra.
Þá má ekki gleyma stórum þætti í
fari Jóns og lífshlaupi, það er vísna-
og ljóðagerð hans.
Hann orti mikið um lífið og fólkið í
sveitinni sinni fyrir vestan, en þó
fyrst og fremst samdi hann ljóð til
okkar í fjölskyldunni og kunningja
og vina á merkisafmælum eða öðrum
tímamótum, og ef veisla var haldin,
þá voru ljóðin flutt af miklum skör-
ungsskap af konunni hans henni
Fljóðu okkar.
Og nú þegar komið er að leiðarlok-
um og aðskilnaði um sinn, flytjum við
Jóni alúðarþakkir fyrir samfylgdina
og allt það góða innlegg, sem hann
lagði til í líf okkar.
Dætrum hanns og fjölskyldum
þeirra færum við okkar hjartans
samúðarkveðjur.
Vertu kært kvaddur, góði vinur.
Blessuð sé minning þín.
Fyrir hönd systkinanna frá Selár-
dal og fjölskyldna þeirra,
Teitur Jensson.
JÓN ÁRNI
KRISTÓFERSSON