Morgunblaðið - 30.06.2001, Blaðsíða 29
UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. JÚNÍ 2001 29
UNDANFARIN
missiri hafa menn
deilt um það í blöðum
og víðar, hvort virkja
eigi á Austurlandi, til
að knýja norska ál-
bræðslu á Reyðarfirði.
Og hér er ekki venju-
legt íslenzkt skamm-
degisþras á ferðinni –
mönnum er alvara,
sérstaklega þeim, sem
heimta álið og trúa
því að fyrirtækið muni
leysa atvinnumál
Austfirðinga.
Mér er spurn, hvers
vegna eigum við Ís-
lendingar að sökkva náttúruperl-
um okkar undir uppistöðulón til að
virkja fyrir Norðmenn, sem tíma
ekki lengur að virkja fyrir sjálfa
sig í eigin landi.
Vitanlega verðum við að halda
áfram að virkja í þessu landi. En í
því efni verður að fara fram af
fyllstu gát og þyrma náttúruger-
semum landsins, svo sem frekar er
kostur.
En þær virkjanir eiga eingöngu
að vera í þágu Íslendinga einna og
alls ekki til að keyra mengandi er-
lent álver. Við höfum nóg þarfara
við raforkuna að gera og skulum
þar að auki fara okkur hægt og
huga að hagsmunum okkar af
ferðamannaiðnaðinum, er vex með
ári hverju.
Á árinu 1999 nam heildarsala á
raforku hér á landi 16,521 millj-
örðum ísl. króna. Þar af greiddi
stóriðjan 3,837 milljarða, en aðrir
raforkunotendur 12,684 milljarða.
Stóriðjan notaði 63,5% raforku-
framleiðslunnar og greiddi kr. 0,90
á kílóvattstund, en aðrir notendur
greiddu 5,15 kr. fyrir kólóvatt-
stundina og notuðu 36,5% af heild-
arraforkuframleiðslunni. (Heimild:
Orkustofnun.)
Á sama ári (1999) voru gjaldeyr-
istekjur þjóðarinnar af erlendum
ferðamönnum 27,852 milljarðar ísl.
króna, eða rúmlega sjö sinnum
meiri tekjur en af raforkusölu til
stóriðju. (Heimild: Seðlabanki Ís-
lands.)
Samkvæmt þessu mega menn
sjá, að það er hagkvæmara fyrir
hið íslenzkaþjóðarbú að virkja
ferðamannastrauminn, heldur en
straum íslenzkra fallvatna í þágu
erlendrar stóriðju.
Við verðum áfram að virkja til
innlendra þarfa til heimilis- og
búsþarfa, til iðnaðar og ylræktar
og síðast en ekki sízt til þess að
framleiða vetni í þeim tilgangi að
knýja bíla- og skipaflota lands-
manna. Þar getum við gert Ísland
mengunarlaust og með því orðið til
fyrirmyndar meðal þjóða heims.
Það er skemmra í þetta en menn
halda nú. Það væri því glapræði að
vera búinn að binda raforkuna í
stóriðju fyrir útlendinga, er við
þörfnumst hennar sjálfir í eigin
þágu.
Hitt er annað mál, að þegar við
byrjum að framleiða vetni í stórum
stíl er sjálfsagt að kanna hag-
kvæmni þess að reisa vetnisverk-
smiðju á Austurlandi, e.t.v. á
Reyðarfirði, ef því er að skipta.
Það gæti engu síður
en álver styrkt eitt-
hvað atvinnulíf í Aust-
firðingafjórðungi. Þá
er og á það að líta, að
þaðan er stytzt til
meginlands Evrópu
ef/þegar til þess kem-
ur, að við hefjum út-
flutning á vetni til
annarra landa.
Kannski er það ekki
eins fjarlægur draum-
ur og menn kunna að
halda í dag.
En þetta eitt leysir
ekki atvinnuvandamál
hinna dreifðu byggða
þessa lands. Þar þarf fleira til að
koma. Gefa á „trillukörlum“ frjáls-
ar hendur um land allt. Í því efni
er efst á blaði að breyta lögunum
um stjórn fiskveiða (kvótakerfinu).
Að sjálfsögðu eiga trillukarlar að
greiða auðlindagjald til eigandans,
íslenzku þjóðarinnar, fyrir afnotin.
Það gjald á hins vegar að miðast
við verðmæti þess afla sem þeir
færa að landi, en ekki þyngd hans.
Það er hjátrú, en ekki vísindi að
halda því að mönnum, að smá-
bátaveiðar við strendur landsins
stofni fiskistofnum á Íslandsmiðum
í hættu. Það er þvert á móti
kvótakerfið, sem það hefir gert.
Aflinn við Íslandsstrendur var
áratugum saman á seinustu öld
helmingi meiri en sá afli, sem nú
er færður að landi. Þetta stafar af
brottkastinu, sem kvótakerfið hefir
í för með sér – illu heilli.
Það er sennilega drepið jafnmik-
ið á Íslandsmiðum í dag eins og
fyrir kvóta. Mismuninum er bara
kastað aftur í sjóinn, engum til
gagns – nema hýenum hafsins.
Alllengi hafa menn óttast fólks-
flóttann frá hinum dreifðu byggð-
um Íslands til Reykjavíkursvæð-
isins. Til þess að sporna við þeim
flótta hefir mönnum m.a. dottið í
hug að koma upp svokölluðum
menningarhúsum á landsbyggð-
inni. Þeir sem þannig hugsa skilja
ekki vanda landsbyggðarinnar.
Menning hennar er um þessar
mundir fyrst og fremst atvinnu-
menning. Það eru trillukarlar og
strandveiðimenn er halda þeirri
menningu uppi. Ef við gefum þeim
frjálsar hendur, siglir „hin menn-
ingin“ í kjölfarið.
Sumir fiskifræðingar, og e.t.v.
fleiri álíta að unnt sé að halda
fiskistofnum á vöxtum í fiskveiði-
lögsögu Íslands. Þetta leyfi ég mér
að draga mjög í efa, enda sannar
reynzlan af kvótakerfinu hið gagn-
stæða. Hitt veit ég, að náttúruperl-
ur Íslands eru „auðlegð á vöxtum í
Guðanna ríki“ (E.B. Einræður
Starkaðar.) Því skulum við flýta
okkur hægt.
Að virkja og veiða
Magnús Thoroddsen
Virkjanir
Auðvitað verðum við að
halda áfram að virkja,
segir Magnús Thorodd-
sen, en fara verður að
gát og þyrma náttúru-
gersemum landsins.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður.