Morgunblaðið - 18.08.2001, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 LAUGARDAGUR 18. ÁGÚST 2001 MORGUNBLAÐIÐ
KONUR sem stunda íþróttir eru allt
að fjórum sinnum líklegri til að slíta
krossbönd við íþróttaiðkun en karlar,
að sögn Ejnars Eriksson, fyrrum pró-
fessors við íþróttameiðsladeild Karol-
inska sjúkrahússins í Stokkhólmi og
ráðstefnustjóra ráðstefnu um lið-
speglanir og íþróttameiðsl, sem nú fer
fram í Reykjavík. Hlutfallið fer eftir
því hvaða íþrótt konurnar stunda.
Mest er áhættan í boltaíþróttum eins
og fót-, hand- og körfubolta og skíða-
íþróttinni.
Ejnar segir ástæðuna vera að kon-
ur hreyfi sig á annan hátt en karlar.
Þetta megi t.d. sjá með því hvernig
konur og karlar lenda eftir stökk.
Karlar beygja hnén meira meðan fæt-
ur kvenna eru beinni við lendinguna.
„Það er mikilvægt að þeim skila-
boðum verði komið til ungs íþrótta-
fólks að það geti dregið úr áhættunni
á krossbandameiðslum með sérstakri
þjálfun. Til dæmis með því að æfa sig í
að lenda með beygð hné og gera
styrkjandi æfingar,“ segir hann.
Æfingar dragi
úr hættu á áverkum
Ejnar segir að rannsóknir hafi sýnt
fram á að hægt sé að draga úr tíðni
krossbandaáverka með því að taka
þessar æfingar inn í þjálfunina. Hann
segir mikilvægt að þjálfarar hugi að
þessu. Helstu ástæður þess að konur
hreyfa sig á annan hátt en karlar eru
að þær eru með breiðari mjaðmir og
eykst áhættan einnig ef vöðvar í inn-
anverðu lærinu eru veikari en vöðv-
arnir á lærinu framanverðu, sem er
algengt hjá konum.
Bæklunarlæknir í Osló fékk nýlega
styrk frá norsku ríkisstjórninni upp á
30 milljónir norskra króna til rann-
sóknar á krossbandaáverkum í kjöl-
far þess að ein helsta kempan í norska
kvennalandsliðinu í handknattleik
sleit krossböndin við æfingar fyrir Ól-
ympíuleikana í Sydney í Ástralíu.
Ejnar segir að miklar vonir séu
bundnar við þessar rannsóknir þar
sem enginn læknir hafi hingað til
fengið jafn háan styrk til að rannsaka
þessa áverka. Ejnar leggst gegn því
að ungar hæfileikaríkar stúlkur séu
færðar upp um flokk, þannig að 14 ára
stúlkur leiki á móti 16 ára stúlkum,
eins og gjarnan hefur tíðkast. Hann
segir að þannig auki þær verulega
hættuna á að slíta krossböndin. Hann
vill að þetta verði bannað, þó að hann
telji í lagi að ungar stúlkur þjálfi með
þeim eldri. „Þær leggja sig í hættu
sem gæti eyðilagt líf þeirra. Því jafn-
vel þó við gætum skorið upp, gæti
áverkinn bundið enda á íþróttaferil-
inn og eyðilagt liði til langs tíma litið.“
Íslendingurinn Jón Karlsson, pró-
fessor við Sahlgrenska háskóla-
sjúkrahúsið í Gautaborg, heldur fjóra
fyrirlestra á ráðstefnunni. Í gær
fjallaði hann um hvaða áhrif kross-
bandaslit hafa til langs tíma litið.
Slitgigt gerir vart við sig
um áratug eftir aðgerðina
„Nýjar sænskar rannsóknir sýna
að mjög algengt sé að um tíu árum
eftir að stúlkur fá áverka á krossbönd
fái þær slitgigt í hnéð, þegar þær eru
kannski aðeins um 30-35 ára gamlar.“
Jón segir að undir venjulegum kring-
umstæðum ætti slitgigt ekki að gera
vart við sig fyrr en á efri árum. „Að
slíta krossband er meiri háttar áverki.
Ekki aðeins fyrir liðböndin, heldur
einnig fyrir liðbrjóskið, sem getur síð-
ar leitt til slitgigtar,“ segir Jón. Fólk
sem hefur slitið krossband gangi
þannig að óvenju mikið reyni á liðþóf-
ana og liðbrjósk, sem orsaki gigtina.
„Í dag vitum við ekki hvernig við
getum komið í veg fyrir að slitgigt
myndist. Þetta er mikil áskorun fyrir
rannsóknarmenn framtíðarinnar,“
segir hann. Jón tekur þátt í sænskri
rannsókn á því hvernig slitgigtin
myndast. Hann segir stutt síðan
rannsókninni var hrundið af stað og
að þetta sé langtíma verkefni.
Aðeins um tíu ár eru síðan byrjað
var að skera upp við slitnum kross-
böndum með liðspeglunartækni. Í
dag getur sjúklingur farið heim sama
dag og aðgerðin er gerð og er aðeins
lítið ör á hnénu eftir aðgerðina. Jón
segir að áður hafi örið verið tæplega
40 cm langt og að sjúklingur hafi verið
allt upp í eitt og hálft ár að jafna sig.
Bæklunarlæknarnir Ágúst Kára-
son og Stefán Carlsson báru hitann
og þungann af skipulagningu ráð-
stefnunnar, sem nú er haldin í fyrsta
sinn. Um 100 læknar, sjúkraþjálfarar,
stoðtækjafræðingar og íþróttafræð-
ingar sitja ráðstefnuna og eru fyrir-
lesarar um 20 talsins.
Um helmingur þátttakenda eru Ís-
lendingar, en hinir koma víðsvegar að
úr heiminum. „Við erum hér með
rjómann af vísindamönnum á þessu
sviði, bæði vestan hafs og austan,“
segir Stefán. Hann segir að stór hluti
fyrirlesaranna hafi borgað ferðina og
uppihald sjálfur, sem sé mjög óvenju-
legt.
Stúlkur fjórum
sinnum líklegri til
að slíta krossbönd
Alþjóðleg ráðstefna um liðspeglanir og íþróttalæknisfræði í Reykjavík
HAFSTEINN Jóhannsson, frosk-
kafari, kafaði fyrstur manna nið-
ur að El Grillo og er greint frá
þeirri ferð í bók Rúnars Ármanns
Arthúrssonar, Hafsteinn á Eld-
ingunni, sem kom út árið 1993.
Þar segir m.a. um upphaflegan
tilgang köfunarleiðangursins:
„Það var norskur bátur sem
fékk Hafstein til að kafa niður að
olíuskipinu til að leita að ankeri
sem hafði slitnað frá við það að
festast í flakinu. Þetta var mánu-
daginn 12. ágúst 1963. Engin dufl
voru höfð til að merkja staðinn
þar sem skipið liggur og kom oft
fyrir að skip týndu ankerum þar,
enda segir Hafsteinn að nóg hafi
verið að sjá af þeim þar niðri.
Ankeri norska bátsins kom þó
ekki í leitirnar þrátt fyrir að
hann kafaði nokkrum sinnum til
að leita að því, enda skipið stórt.
Á hinn bóginn var margt að sjá
sem gladdi auga gamalreynds
áhugamanns um skotvopn og
sprengibúnað. Skipinu var sökkt
á miðjum Seyðisfirði á stríðs-
árunum þegar þýskar sprengju-
flugvélar gerðu árás á það. Það
var því vel vopnum búið eins og
önnur skip sem önnuðust birgða-
flutninga fyrir stríðsaðila. Komið
hafði verið fyrir 20 mm vél-
byssum til loftvarna, sinni á hvor-
um brúarvæng, og tvær loftvarn-
arbyssur aðrar voru á þilfari auk
stórrar fallbyssu. Þá sá Hafsteinn
að þar var urmull af djúp-
sprengjum í stæðum á dekkinu.“
Hafsteinn hafði ekkert með sér
upp úr djúpunum eftir þessa ferð
en ákvað að fara aftur niður að
flakinu síðar og skoða sig betur
um.
„Tækifæri kom svo til þess í
september þetta sama ár. Þá fór
hann nokkrar ferðir niður að El
Grillo. Um þetta leyti var staddur
breskur tundurduflaslæðari á
Seyðisfirði svo Hafsteini datt í
hug að tilvalið væri að reyna að
hreinsa fjörðinn af þeirri hættu
sem djúpsprengjurnar sköpuðu
fyrir nágrennið. Hann brá tógi á
eina sprengjuna og færði síðan í
tal við bæjaryfirvöld hvort ekki
væri ráð að hífa hana upp svo
hinir bresku sérfræðingar gætu
litið á hana og gefið úrskurð um
hvort mikil hætta stafaði af þeim
sprengjum sem um borð væru.“
Aukaútgjöld fyrir byggðina
Bæjaryfirvöld töldu hins vegar
að hugmyndir af þessu tagi gætu
haft í för með sér umtalsverð
aukaútgjöld fyrir byggðina og
ráðamenn vildu ekki láta hreyfa
við sprengjunum.
„Hafsteinn tók með sér sýn-
ishorn af ýmsu sem hann sá þar
niðri þó hann léti það vera að
draga djúpsprengju upp á yfir-
borðið. Hann fór síðan nokkrar
ferðir niður að flakinu til að
skoða það eftir þetta og fjarlægði
meðal annars úr því bæði kompás
og vélsíma sem hann færði
Byggðasafninu í Görðum að gjöf.
Segir hann að í seinasta skiptið
sem hann fór niður að El Grillo
hafi djúpsprengjurnar verið
komnar út um allt, því greinilegt
hafi verið að ankeri hafi slæmst í
stæðuna og tvístrað þeim. Ekki
vill Hafsteinn kannast við að hafa
notað neitt af því sem hann fann í
flakinu af El Grillo til að búa sér
til bombur af neinu tagi og engar
sögur fara heldur af spreng-
ingum eystra meðan á dvöl Eld-
ingarinnar stóð á Seyðisfirði.“
Ekki reyndist unnt að ná sam-
bandi við Hafstein sjálfan þar
sem hann er nú staddur um borð í
skútunni Eldingu á siglingu yfir
Miðjarðarhaf.
Kafaði fyrstur að flakinu
Morgunblaðið/Jim Smart
Hafsteinn Jóhannsson kafaði fyrstur manna niður að flaki El Grillo.
BÆJARYFIRVÖLD á Seyðisfirði
og fulltrúar Heilbrigðiseftirlits
Austurlands skoða nú fjörur á
Seyðisfirði áður en ráðist verður í
framkvæmdir við hreinsun olíu-
skipsins El Grillo. Ólafur Sigurðs-
son, bæjarstjóri Seyðisfjarðar,
segir tilgang skoðunarinnar vera
að athuga stöðu og lífríki fjör-
unnar áður en hreinsunaraðgerðir
hefjast. Eiginleg losun olíunnar úr
flakinu er í höndum norska fyr-
irtækisins Riise Underwater Eng-
ineering og er áætlað að Norð-
mennirnir hefjist handa um næstu
mánaðamót.
Danskir sprengjusérfræðingar
hafa sl. viku kafað niður að flakinu
og leitað að sprengjum en hafa
ekki haft erindi sem erfiði. Þrátt
fyrir að engar sprengjur hafi fund-
ist hafa nokkur byssuskot komið í
leitirnar auk tveggja öflugra rak-
ettna sem notaðar voru sem varn-
arvopn í breska hernum. Rakett-
unum var þá skotið á loft en þær
drógu á eftir sér langa vírspotta
sem flæktust í hreyflum flugvéla
svo þær urðu vélarvana og hröp-
uðu. Raketturnar voru sprengdar
upp á fimmtudag og segir Ólafur
mikinn dynk og háan hvell hafa
heyrst um allan fjörð. Dönsku sér-
fræðingarnir ljúka starfinu eftir
helgi en þeir eiga eftir að rann-
saka hluta skipsins.
Umhverfis-
áhrif olíu-
hreinsunar
könnuð
Hreinsun El Grillo
LANGSTÆRSTI lax sumarsins
veiddist í Sandeyrarpolli í Laxá í Að-
aldal á miðvikudagskvöldið. Sand-
eyrarpollur er á Nesveiðum og
þekktur stórlaxastaður. Fiskinn,
sem var 26 pund (13 kg), veiddi
Bandaríkjamaður að nafni Kessler á
fluguna Fox númer 6. Að sögn Stef-
áns Skaftasonar í Straumnesi, var
laxinn mjög leginn, en gríðarlega
sterkur og erfiður viðureignar.
Hann var fluttur lifandi í klakstöðina
á Laxamýri þar sem hann mun
leggja sitt af mörkum í haust.
Bandaríkjamennirnir í Nesi bóka
alla laxa sína í enskum pundum, svo-
kölluðum „libsum“ sem er annað en
íslensku kílógrömmin. Þannig var
þessi 13 kg hængur bókaður 29
„libs“. Að sögn Stefáns í Straumnesi
hafa margir laxar frá 20 til 29 „libs“
veiðst síðustu vikurnar, en eru það
um það bil 17 til 26 punda laxar.
Hvergi hafa jafn margir stórlaxar
komið á land eða stærri, áður hafði
einn 104 sentímetra lax verið veidd-
ur og sleppt í Vatnsdalsá. Sá var
skráður 11,2 kílógrömm, eða tæp-
lega 22,5 pund.
Sandeyrarpollur er þekktur stór-
laxastaður, en að sögn Stefáns hafa
þó flestir stórlaxanna veiðst í Vitaðs-
gjafa, á Presthyl og í Kirkjuhól-
makvísl. Alls hafa 186 laxar veiðst á
Nesveiðum í Laxá í sumar og hefur
um 160 þeirra verið sleppt aftur,
m.a. öllum þeim stærstu utan einum
sem veiðimaður slátraði til að láta
stoppa upp. Allir stórlaxarnir sem
um ræðir veiddust og á flugu.
Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Bandaríkjamaðurinn Kessler t.h. og leiðsögumaður hans, Steingrímur
Stefánsson, með stórlaxinn úr Sandeyrarpolli.
Stærstu laxarnir á
Nesveiðum í Laxá
ERU
ÞEIR AÐ
FÁ’ANN?