Morgunblaðið - 27.01.2002, Side 29

Morgunblaðið - 27.01.2002, Side 29
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27. JANÚAR 2002 29 ur að komi til átaka gætu þau leitt til þess að ríkin freistuðust til að beita kjarnorkuvopnum, en bæði hafa komið sér upp kjarnorkuvopnum og gerðu Indverjar síðast tilraun með nýja flaug, sem borið getur kjarnorkuvopn, í gær, föstudag. Í dag bauð Musharraf Indverjum hins vegar til draga úr spennu og efla vinsamleg samskipti. Dýrkeyptur stuðningur við talibana Átökin um Kasmír hafa ekki síst átt þátt í að móta stefnu Pakist- ans gagnvart Afgan- istan, en óhætt er að segja að stuðningur pakistanskra stjórnvalda við talibana hafi verið dýrkeyptur. Sá stuðningur var gríðarlegur. Pak- istanski blaðamaðurinn Ahmed Rashid gerir stefnu Pakistans skil í bókinni „Talibanar“ og þar kemur fram að Pakistanar hafi greitt talibönum sex hundruð milljónir króna í laun handa æðstu ráðamönnum talibanastjórnarinnar í Kabúl á fjárlögum 1998 til 1999, en falið upphæðina í fjár- lagagerðinni til þess að styggja ekki erlenda lán- ardrottna, sem heimtuðu aðhald í fjármálum. Fjárlagaárið á undan nam stuðningurinn við Afg- anistan þremur milljörðum króna. Þar var um að ræða hveiti, eldsneyti, vopn og skotfæri, sprengj- ur, viðhald og varahluti í hergögn á borð við skrið- dreka og stórskotaliðsbyssur frá Sovéttímanum, viðhald flughersins og flugvalla, vegagerðar og rafmagnsframleiðslu. Rashid rekur að þessi aðstoð hafi átt upptök sín í fortíðinni. Á níunda áratugnum hafi pakistanska leyniþjónustan, ISI, veitt milljónir Bandaríkja- dollara frá Vesturlöndum og arabaríkjunum til mujaheddin-hreyfingarinnar í Afganistan. Það fé var einnig notað til að efla pakistönsku leyniþjón- ustuna, sem réð mörg hundruð hermenn til að fylgjast með Afganistan, en einnig Indlandi og öllum sviðum mannlífsins í Pakistan. Með tækni- búnaði, sem fékkst frá bandarísku leyniþjónust- unni, CIA, varð ISI kleift að hlera hvert einasta símtal í Pakistan. Leyniþjónustan varð augu og eyru Zia ul-Haq forseta og þegar komið var fram til ársins 1989 var hún orðin öflugasta valdið í pólitík og utanríkismálum í landinu og átti iðulega eftir að fara sínu fram þvert á vilja lýðræðislega kjörinna leiðtoga og þings, einkum í málum, sem vörðuðu Indland og Afganistan. Benazir Bhutto reyndi að færa völdin frá ISI þegar hún varð forsætisráðherra í seinna skiptið 1993, meðal annars vegna þess að ISI hafði ekki veðjað á að talibanar næðu völdum í Afganistan, en einnig vegna þess að hún leit svo á að ISI hefði grafið undan henni þegar hún var forsætisráð- herra í fyrra skiptið. Leyniþjónustan fór hins vegar þegar að rækta talibanana og brátt var sagt að innan hennar væru menn meiri talibanar en talibanarnir sjálfir. Bhutto lagði mikið í að styðja talibanana, nokkuð, sem hún iðrast í dag, og var notað fé sem iðulega var ætlað í annað á fjárlögum. Talibanarnir létu hins vegar ekki Pakistana stjórna sér fremur en Sovétmenn eða Írana á ár- um og öldum áður, þáðu aðstoðina, en fóru síðan sínu fram. Ekki má gleyma því að eftir átök í ára- tugi voru ítök Afgana sterk í Pakistan. Talibanar höfðu sterk félagsleg, efnahagsleg og pólitísk tengsl vegna hins öfluga sambands sem myndast hafði milli pastúna beggja vegna landamæranna á þessum tíma. Gríðarlegur fjöldi afganskra past- úna hafði verið í flóttamannabúðum í Pakistan, þar áttu talibanarnir upptök sín og þeir höfðu sambönd í stjórnarstofnunum, stjórnmálaflokk- um, madrassa-skólunum, eiturlyfjamafíunni og viðskiptalífinu. Talibanarnir voru því ekki háðir einum aðilja eins og mujaheddin-hreyfingin, sem aðeins hafði verið upp á ISI komin, heldur gátu þeir teflt einum aðilanum gegn öðrum í Pakistan, notað einstaka ráðherra til að hunsa leyniþjón- ustuna og beitt ítökum sínum í smyglaramafíunni til þess að sniðganga stjórnkerfið. Ahmed kemst að þeirri niðurstöðu að í stað þess að drottna yfir talibönunum hafi Pakistanar orðið fórnarlömb þeirra. Upphaflega töldu Pakistanar að Afganistan ógnaði öryggi þeirra vegna krafna um að past- únar í Pakistan fengju að ganga til atkvæða um að sameinast pastúnahéruðum Afganistans og rak stjórnin í Kabúl áróður fyrir stofnun Stór- Pastúnistans. Þessar kröfur áttu sér stuðning meðal vinstri sinnaðra pastúna í Pakistan. Stjórn Zia ul-Haqs komst að þeirri niðurstöðu að með stuðningnum við mujaheddin-skæruliðahreyf- inguna myndu Pakistanar geta komið hliðhollri stjórn til valda í Afganistan og bundið enda á kröfur pastúna. Pakistanskir herfræðingar héldu því fram að um leið myndi Pakistan öðlast „her- fræðilega dýpt“ gagnvart hinum indverska erki- óvini. Pakistan væri þannig í laginu – langt og mjótt – að það skorti dýpt og bakland til að geta háð langvinnt stríð við Indverja. Á síðasta áratug bættist síðan við að hliðhollt Afganistan myndi veita aðskilnaðarsinnum frá Kasmír aðstöðu til að þjálfa sig og vopnast. Indverjar lögðu mjög hart að Bandaríkjamönnum að lýsa yfir því að Pakist- anar styddu hryðjuverkamenn í upphafi síðasta áratugar. Pakistönsk stjórnvöld reyndu að leysa þetta með því að flytja bækistöðvar þeirra hópa, sem voru að berjast fyrir Kasmír, til austurhluta Afganistans og þar kom að talibanar fengu greitt fyrir að vernda þá. Um leið var stuðningur við þessi öfl einkavæddur, ef svo má segja, með því að fela íslömskum hreyfingum að þjálfa liðsmenn þeirra og kosta. Pakistönsk stjórnvöld urðu því jafnt og þétt háðari talibönum, sem gengu á lagið vegna þess að þeir vissu að Pakistanar gætu ekki neitað þeim um neitt á meðan þeir skutu skjólshúsi yfir herskáa aðskilnaðarsinna frá Kasmír. Grafið undan efnahagslífinu í þágu talibana Pakistanar ákváðu að viðurkenna talibana- stjórnina í Afganistan þegar talibanar náðu Mazar-i-Sharif á sitt vald 1997. Stefna Pak- istana gagnvart Afganistan var í raun í molum því leyniþjónustan og aðrar stjórnarstofnanir voru í raun að keppa um völd í Afganistan fremur en að fylgja einni stefnu. Rökin að baki því að viður- kenna landið voru að þá myndu fjandsamlegir ná- grannar neyðast til að taka upp samskipti við tal- ibanana og þá yrðu þeir að leita á náðir Pakistana. En þeir höfðu misreiknað sig. Talibanar misstu Mazar aftur úr höndum sér og Pakistanar fengu yfir sig harða gagnrýni og urðu enn einangraðri frá umheiminum án þess að átta sig í raun á því hvað stefna þeirra gagnvart Afganistan kostaði þá. Það kom kannski best fram í því hvernig þeir leyfðu umfangsmiklum smyglarahringjum Afg- ana að grafa undan pakistönsku efnahagslífi. Ahmed Rashid er þeirrar hyggju að þarna hafi verið um að ræða umfangsmesta smygl heims. Öllu var smyglað og allt var falt. Talibanar notuðu vegatolla til að ná tekjum í gegnum smyglið og varð það þeirra helsta tekjulind. Svarta hagkerfið í Pakistan varð stöðugt öflugra. Þáttur neðan- jarðarhagkerfisins í þjóðarframleiðslu var 20 af hundraði 1973 en 51 af hundraði 1996. Árið 1998 var smygl þriðjungur af heildarinnflutningi landsins og upphæðin sú sama og pakistanska ríkið gerði ráð fyrir að kæmi í ríkissjóð fjárlaga- árið 1998 til 1999. Mafían varð allsráðandi. Síma- staurar og verksmiðjur í Afganistan voru rifnar niður og allt selt, bílum var stolið, smyglað til Afg- anistans og aftur til baka á nýjum númerum. Á árunum 1992 til 1998 var 65 þúsund bílum stolið í Karachi. Mörg hundruð vörubílar hlaðnir smygl- varningi fóru daglega um landamæri Afganistans og Pakistans og minntu um margt á þær miklu vörulestir, sem þarna fóru um eftir silkileiðinni, sem tengdi Kína og Evrópu á miðöldum. Um- heimurinn fylgdist gáttaður með því hvernig pak- istönsk stjórnvöld virtust reiðubúin til að láta grafa undan eigin efnahagslífi til þess eins að styðja talibana í Afganistan. Einhverjar tilraunir voru gerðar til að stöðva smyglið, en þeim fylgdi ekki sannfæring. Staðreyndin var sú að ýmsir Pakistanar auðguðust einnig verulega á því að leyfa hinu umfangsmikla smygli að þrífast og þeir mynduðu mjög öflugt hagsmunabandalag um að engar breytingar yrðu gerðar. Bandaríski sagnfræðingurinn Paul Kennedy hefur bent á að afskipti Pakistana af stríðinu í Afganistan hafi gert pakistanskt þjóðfélag sund- urleitara en áður, vopn hafi flætt inn í landið, fólk sé lamað vegna aukins ofbeldis og flóð eiturlyfja frá Afganistan hafi lamandi áhrif. Rashid segir að þetta ástand hafi aðeins versnað á síðustu árum og reknir hafi verið fleygar milli hinna ýmsu hópa samfélagsins. Hann bendir á að ýmsir líti svo á að Pakistan sé ríki, sem hafi brugðist. Það þurfi ekki að þýða að það sé deyjandi, þótt svo geti einnig verið. Þar sé átt við ríki þar sem síendurtekið strand stefnu ótrúverðugrar pólitískrar valda- stéttar þykir ekki ástæða til að endurskoða stefn- una. Knúinn utanaðkom- andi aðstæðum Yfirlýsingar Pervez Musharrafs á undan- förnum vikum gefa til kynna að nú sé loks komið að því að gera upp við gjaldþrota stefnu fortíðarinnar. Það uppgjör kemur reyndar aðeins til af því að utanaðkomandi aðstæður leyfðu í raun ekki annað. Atburðir í Afganistan undanfarna mánuði – fall talibana og myndun nýrrar stjórnar þar sem loks á að reyna að fá þær þjóðir, sem byggja landið til að vinna saman í stað þess að etja þeim saman – hafa gerbreytt allri stöðu Pakistana og neytt þá til að taka afdrifa- ríkar ákvarðanir í skyndingu. Margir spáðu því að öfgaöfl í Pakistan væru orðin það öflug að Musharraf yrði bylt ef hann legðist á sveif með Vesturlöndum. Þau öfl má ekki vanmeta en þau eru bæði staðbundin og bundin við stofnanir á borð við leyniþjónustuna. Það er ljóst að Mush- arraf ætlar að draga úr þrýstingnum vegna Kasmír og þeir, sem vilja sjálfstæði, hafa tapað, en á hin bóginn er þegar farið að slakna á spenn- unni gagnvart Indverjum. Almenningur hefur hins vegar ekki þust út á götu til að mótmæla að- gerðum Musharrafs gegn öfgahópum og virðist forsetinn hafa rétt fyrir sér þegar hann segir að almenningur hafi fengið nóg af upplausninni. Það verður aftur á móti erfitt að rétta Pakistan upp úr þeirri eymd, sem landinu hefur verið steypt í með stefnu, sem þegar upp er staðið hefur lítið annað haft í för með sér en að veikja landið og sundra þjóðinni. Morgunblaðið/Golli Yfirlýsingar Pervez Musharrafs á und- anförnum vikum gefa til kynna að nú sé loks komið að því að gera upp við gjaldþrota stefnu fortíðarinnar. Laugardagur 26. janúar

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.