Morgunblaðið - 18.07.2002, Síða 23
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. JÚLÍ 2002 23
JOSEPH Luns, fyrrverandi
framkvæmdastjóri Atlants-
hafsbandalagsins (NATO) og
þar áður utanríkisráðherra
Hollands, lést í Brussel í gær,
níræður að aldri. Hann var
framkvæmdastjóri NATO
1971–1984 og gegndi emb-
ættinu lengur en nokkur ann-
ar í sögu bandalagsins. Luns
gegndi mikilvægu hlutverki
við að reyna að sætta sjónarmiðin í
landhelgisdeilum Breta og Íslendinga
á áttunda áratugnum og kom nokkr-
um sinnum hingað til lands.
Robertson lávarður, framkvæmda-
stjóri NATO, minntist Luns í gær og
sagði hann hafa veitt bandalaginu
trausta forystu og reynsla
hans hefði átt mikinn þátt í
að hindra átök í kalda stríð-
inu. „Hann vann staðfast-
lega að auknu samstarfi
Evrópuríkja og skildi að öfl-
ug Evrópa væri mikilvægur
bandamaður fyrir lönd
Norður-Ameríku,“ sagði
Robertson.
Luns var sendiherra Hol-
lands hjá Sameinuðu þjóðunum 1949–
1952 er hann varð utanríkisráðherra
og undirritaði hann meðal annars
Rómarsáttmálann, grundvöll Evr-
ópusambandsins núverandi, árið
1957. Luns var liðsmaður Kaþólska
þjóðarflokksins hollenska.
Joseph Luns
Joseph Luns látinn
Brussel. AFP.
BANDARÍSKAR leyniþjónustu- og
lögreglustofnanir vörðu allt of litlu
fé og vinnu í að afla upplýsinga um
al-Qaeda og önnur hryðjuverkasam-
tök fyrir árásina á World Trade
Center í New York ellefta septem-
ber á síðasta ári, að því er kemur
fram í skýrslu sem unnin var á veg-
um fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Skýrslan sjálf mun ekki koma fyrir
augu almennings en í gær var gefin
út útdráttur úr henni.
Höfundar skýrslunnar finna helst
að slælegum samskiptum alríkislög-
reglunnar FBI við aðrar stofnanir,
óhagkvæmu skipulagi þjóðarörygg-
isstofnunarinnar NSA og að leyni-
þjónustan CIA skuli ekki enn hafa
farið að skipun þingsins um að
breyta starfsháttum sem þjónustan
fékk eftir 11. september. Höfund-
arnir taka þó fram að jafnvel þótt
úrbætur þær sem lagðar eru til í
skýrslunni hefðu verið fyrir hendi
fyrir árásina sé ekki hægt að full-
yrða að hægt hefði verið að koma í
veg fyrir hana.
Vilja ráða glæpa-
menn í vinnu
Formaður þingnefndar um innan-
ríkisöryggi, Saxby Chambliss, lagði
áherslu á eitt atriði sem bæta
mætti: það að CIA skuli enn ekki
hafa breytt starfsreglum sínum sem
kveða á um að ekki megi fá menn,
sem dæmdir hafa verið eða grun-
aðir eru um að hafa framið glæpi
eða mannréttindabrot, til að njósna
fyrir Bandaríkin. Segir Chambliss
að ætli leyniþjónustan að koma
njósnurum inn í samtök eins og al-
Qaeda sé ekki hægt að horfa
framhjá hugsanlegum njósnurum
einfaldlega vegna þess að þeir hafi
óhreint mjöl í pokahorninu.
Öldungadeildarþingmaðurinn
Richard Shelby sagði að ætluðu
Bandaríkjamenn sér að brjóta upp
hryðjuverkasamtök gæti reynst
nauðsynlegt að ráða til vinnu menn
sem væru litlu skárri en hryðju-
verkamennirnir sjálfir.
Ný skýrsla harðorð í
garð leyniþjónustunnar
Washington. AP, The Los Angeles Times.
Baráttan við samtök hryðjuverkamanna