Morgunblaðið - 31.08.2002, Síða 17
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. ÁGÚST 2002 17
MEISTARINN.IS
BYGGINGARNEFND Fjölbrauta-
skóla Suðurnesja vill ganga frá
samningi við menntamálaráðherra
og fjármálaráðherra um viðbygg-
ingu við húsnæði skólans í Keflavík.
Nefndin býðst til að fjármagna
framkvæmdina gegn því að ríkis-
sjóður greiði sitt framlag á sex ár-
um. Formaður nefndarinnar vonast
til að hægt verði að taka viðbygg-
inguna í notkun í lok næsta árs.
Byggingarnefnd fjölbrautaskól-
ans og embættismenn í mennta-
málaráðuneytinu komust að sam-
komulagi um húsrýmisþörf skólans
síðastliðinn vetur. Að sögn Hjálm-
ars Árnasonar, alþingismanns og
formanns nefndarinnar, er húsnæð-
ið of lítið miðað við núverandi starf-
semi skólans og nauðsynlega þróun
hans auk þess sem útlit er fyrir
fjölgun nemenda á næstu árum.
Niðurstaðan varð sú að þörf væri á
að byggja 3.000 fermetra hús við
núverandi skólahús en það yrði
samsíða íþróttahúsi Keflavíkur. Í
viðbyggingunni eiga að verða
kennslustofur, stjórnunarálma, nýr
aðalinngangur og sameiginlegt
rými þar sem hátt verður til lofts,
við hlið íþróttahússins. Segir
Hjálmar að með þessari byggingu
sé Fjölbrautaskóla Suðurnesja
komið í varanlegt horf eftir 25 ára
starf.
Kostnaður áætlaður
500–600 milljónir
Kostnaður við uppbygginguna og
nauðsynlegar endurbætur á eldra
húsnæði er áætlaður 500–600 millj-
ónir kr., að sögn Hjálmars. Bygg-
ingarnefndin hefur boðist til að fjár-
magna framkvæmdina, með sama
hætti og gert var síðast þegar byggt
var við skólann. Verði gerður samn-
ingur við ríkið um að það greiði sinn
hluta stofnkostnaðarins, 60% af
áætluðum byggingarkostnaði, á sex
árum og sveitarfélögin greiði jafn-
framt sinn hluta á sama tíma. Síðan
yrði farið í alútboð enda segir
Hjálmar að það hafi komið mjög vel
út við síðustu framkvæmd og bygg-
ingin hafi verið ein hagkvæmasta
skólabygging þess tíma. Drög að
samningi um þetta hafa verið gerð
en Hjálmar segir að það vanti póli-
tíska ákvörðun til að ganga frá mál-
inu sem hafi tafist vegna ráðherra-
skipta í menntamálaráðuneytinu.
Segir hann að samstaða sé meðal
sveitarstjórnarmanna og allra
heimamanna um mikilvægi þessar-
ar framkvæmdar og séu Suður-
nesjamenn orðnir óþolinmóðir í bið-
inni eftir ákvörðun um byggingu
skólans. „Ef Suðurnesin eiga að
dafna verður þar að vera lifandi
framhaldsskóli og aðstaða fyrir
hann,“ segir Hjálmar.
Tómas Ingi Olrich menntamála-
ráðherra verður á yfirreið um
Suðurnesin 9. september og vonast
Hjálmar til þess að línur skýrist um
það leyti.
Byggingarnefnd fjölbrautaskólans bíður eftir ákvörðun ríkisvaldsins
Bjóðast til að
fjármagna við-
bygginguna
Hugmyndin er að ný viðbygging Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem á
teikningunni er höfð ljós á litinn, verði samsíða Íþróttahúsi Keflavíkur
en það er stóra byggingin til hægri á myndinni. Nýr aðalinngangur er
áformaður í portinu milli íþróttahússins og fjölbrautaskólans.
Keflavík
MIKIÐ hefur verið kvartað vegna
ágangs flækingskatta í Vogum.
Kemur þetta fram á heimasíðu
Vatnsleysustrandarhrepps,
www.vogar.is. Sérstaklega hafa
kvartanir borist frá íbúum í Suður-
Vogum.
Til að stemma stigu við þessu
verður fljótlega auglýst herferð gegn
flækingsköttum, að sögn Jóhönnu
Reynisdóttur, sveitarstjóra í Vogum.
Stefnt er að því að herferðin verði
fyrstu vikuna í september. Hefur
íbúum Voga verið gerð grein fyrir
þessu í bréfi og þeir beðnir að halda
heimilisköttum sínum inni meðan á
herferðinni stendur. „Við fórum í
svipaða herferð fyrir nokkrum árum
og þá var skotið á dýrin og þau veidd
í búr,“ segir Jóhanna. „Við stefnum
að því að veiða þau eingöngu í búr í
þeirri herferð sem nú fer af stað.“
Kattaeigendum er bent á að kynna
sér reglugerð um kattahald á Suð-
urnesjum en hana er að finna á
heimasíðu Voga. Þar segir m.a. að ef
köttur veldur nágrönnum eða öðrum
ónæði, óþrifum eða tjóni þá ber eig-
anda eða forráðamanni að leita leiða
til að koma í veg fyrir slíkt. Katta-
eigendur eru ábyrgir fyrir því tjóni
sem kettir þeirra sannarlega valda.
Foreldrar eru ábyrgir fyrir köttum
ólögráða barna sinna. Þá kemur
fram í reglugerðinni að allir kettir
skulu merktir með ól um hálsinn eða
á sambærilegan hátt þar sem koma
skulu fram upplýsingar um eiganda,
heimilisfang og símanúmer.
Herferð
gegn flæk-
ingsköttum
Vogar
EF AF stækkun Norðuráls verður
munu væntanlega 40 MW til starf-
seminnar koma frá Hitaveitu Suður-
nesja, HS. Viðræður milli Lands-
virkjunar og HS varðandi orkuöflun
hafa átt sér stað. Í pistli forstjóra HS
á heimasíðu fyrirtækisins kemur
fram að helstu álitamál, s.s. flutn-
ingskostnaður raforkunnar, virðast
vera leyst.
Í pistli Júlíusar Jónssonar for-
stjóra reifar hann efni stjórnarfund-
ar HS hf. frá 16. ágúst síðastliðinn. Á
þeim fundi var meðal annars skýrt
frá viðræðum við Landsvirkjun. „Nú
hafa aukist líkur á að stækkun álvers
Norðuráls geti átt sér stað innan
þeirra tímamarka sem miðað hefur
verið við, þ.e. á árinu 2005,“ segir í
pistli Júlíusar. „Landsvirkjun og
Norðurál hafa undirritað viljayfir-
lýsingu þar sem fram koma þau
meginatriði sem semja þarf um. Eft-
ir úrskurð Skipulagsstofnunar um
Norðlingaöldu virðast miklar líkur á
að sá fyrirvari í viljayfirlýsingunni
reynist óþarfur, en Norðlingaalda
hefur verið talin helsti þröskuldur
þess að af stækkuninni geti orðið.“ Í
kjölfarið segir Júlíus að Landsvirkj-
un hafi rætt við Hitaveitu Suður-
nesja og Orkuveitu Reykjavíkur um
þátttöku í orkuöfluninni og hafi þeim
viðræðum miðað ágætlega. „Helstu
álitamál svo sem flutningskostnaður
raforkunnar virðast vera leyst og
vandséð að samningar geti ekki
gengið upp,“ segir Júlíus. Miðað er
við að 70 MW komi frá Landsvirkjun
og um 40 MW frá OR og HS hvorri
fyrir sig.
Í pistli Júlíusar kemur fram að
Hitaveita Suðurnesja vinni nú að
umhverfismati á borsvæðum á
Reykjanestá og 220 kV línu. Þá eru
rannsóknir að hefjast á hvernig best
verði að vinna orkuna úr svæðinu,
„en vegna hærra hitastigs, seltu og
meira efnainnihalds er svæðið að
ýmsu leyti erfiðara til virkjunar en
Svartsengissvæðið“.
Þá segir Júlíus að unnið sé að
áætlunargerð um kostnað og fyrir-
komulag fjármögnunar slíkrar virkj-
unar, „því að sjálfsögðu verður þessi
virkjun að vera arðbær til að í hana
verði ráðist“.
Í máli Júlíusar kemur fram að ef
miðað er við 40 MW virkjun má telja
líklegt að virkjunin verði hönnuð
a.m.k. tvisvar sinnum stærri, í tveim-
ur áföngum.
Búið að leysa
flest álitamálin
Hitaveita Suðurnesja í viðræðum um orkusölu vegna stækkunar Norðuráls
Suðurnes
SMÁBÁTURINN Sóley ÍS 651 hef-
ur landað í Grindavíkurhöfn í mest
allt sumar, en báturinn á þó heima-
höfn á Suðureyri. Sóley hefur líka
landað afla í Ólafsvíkurhöfn og í
Sandgerði, en margir smábátar
leggja það í vana sinn að flakka um
fiskimiðin og landa þar sem hag-
stæðast er hverju sinni.
Grindavík er ein stærsta verstöð
á Íslandi og hefur lengi verið í hópi
þeirra hafna þar sem einna mestur
afli kemur að landi.
Sjómenn á smábátum kunna vel
að meta þá þjónustu sem Grinda-
víkurhöfn veitir og það sama á ef-
laust við um þann sem er við stjórn-
völinn á Sóley ÍS 651.
Smábátur-
inn Sóley
Morgunblaðið/Þorkell
Grindavík
♦ ♦ ♦