Morgunblaðið - 10.05.2003, Side 11
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. MAÍ 2003 11
RÚMLEGA 211.300 einstaklingar
eiga rétt á því að kjósa í alþingiskosn-
ingunum sem fram fara í dag, skv.
kjörskrárstofni Hagstofunnar. Þeir
sem vegna aldurs fá nú að kjósa í
fyrsta sinn til Alþingis eru 17.191 eða
8,1% af kjósendatölunni.
Fjöldi karla og kvenna á kjörskrá
er svo til jafn að þessu sinni. Konur
eru 105.889 en karlar 105.400. Við síð-
ustu alþingiskosningar árið 1999 voru
kjósendur á kjörskrá rúmlega 201
þúsund talsins og hefur þeim fjölgað
um 9.846 eða um 4,9% á kjörtíma-
bilinu.
Kjósendur með lögheimili erlendis
eru 8.728 eða 4,1% kjósendatölunnar
og hefur þeim fjölgað um 744 frá síð-
ustu kosningum eða um 9,3%.
Samkvæmt nýju kosningalögunum
hefur kjördæmum verið fækkað úr
átta í sex. Sex framboð eða flokkar
bjóða fram lista í öllum kjördæmum
en í Suðurkjördæmi eru framboðs-
listarnir sjö. Í framboði eru B-listi
Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæð-
isflokks, F-listi Frjálslynda flokks,
N-listi Nýs afls, S-listi Samfylkingar,
U-listi vinstrihreyfingarinnar –
græns framboðs og í Suðurkjördæmi
er einnig í framboði T-listi Framboðs
óháðra. Kosnir verða 63 alþingis-
menn í alþingiskosningunum.
Flestir kjörstaðir
opnaðir kl. 9 eða 10
Kjörstaðir verða opnaðir á flestum
þéttbýlisstöðum kl. 9 eða 10 í dag og
verður þeim lokað í síðasta lagi kl. 22 í
kvöld. Kjörstjórn getur þó ákveðið að
kosning hefjist síðar, en þó ekki síðar
en 12 á hádegi
Talning atkvæða fer fram á einum
stað í hverju kjördæmi. Þær upplýs-
ingar fengust hjá yfirkjörstjórnum
allra kjördæmanna að stefnt er að því
að fyrstu tölur úr talningu atkvæða
verði birtar strax og kjörfundi lýkur
eða fljótlega upp úr kl. 22.
Fyrstu tölur úr suðvest-
urkjördæmi strax kl. 22
Suðvesturkjördæmi er fjölmenn-
asta kjördæmi landsins. Þar eru
skráðir 48.857 kjósendur þar af
24.231 karl og 24.626 konur.
Kjördæmið nær yfir Hafnarfjarð-
arkaupstað, Garðabæ, Kópavogsbæ,
Bessastaðahrepp, Seltjarnarnes-
kaupstað, Mosfellsbæ og Kjósar-
hrepp.
Í kjördæminu eru alls 49 kjördeild-
ir. Flestir kjörstaðir í kjördæminu
opna kl. 9 fyrir hádegi. Talning at-
kvæða fer fram í íþróttahúsinu í
Kaplakrika, að sögn Bjarna S. Ás-
geirssonar, formanns yfirkjörstjórn-
ar. „Við tökum á móti atkvæðaköss-
um á milli klukkan sex og sjö, lokum
svo að okkur klukkan sjö og ætlum að
vera komnir með tölur klukkan tíu,“
segir Bjarni er hann er spurður hve-
nær talning atkvæða hefjist. Bjarni
telur líklegt að þá verði búið að telja
um 30% atkvæða í kjördæminu. Að
sögn hans er útilokað að segja fyrir
um hvenær lokaúrslit gætu legið fyr-
ir á kosninganótt.
Fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi
væntanlegar upp úr kl. 22
Í Suðurkjördæmi eru 28.374 kjós-
endur, þar af 14.631 karlar og 13.743
konur. 39 kjördeildir eru í kjördæm-
inu og kjörstaðir 34, samkvæmt upp-
lýsingum Karls Gauta Hjaltasonar
sýslumanns og formanns yfirkjör-
stjórnar. Kjörstaðir á flestum stöðum
í kjördæminu opna strax kl. 9 eða 10.
Talning atkvæða fer fram á Hótel
Selfossi. Flokkun atkvæða hefst um
kl. 19 og talningarmenn verða þá lok-
aðir af. Gerir Karl Gauti ráð fyrir að
fyrstu tölur ættu að geta legið fyrir
fljótlega upp úr kl. 22 eða í það
minnsta fyrir kl. 22:30.
Flogið verður með atkvæði frá
Vestmannaeyjum og er Karl Gauti
bjartsýnn á að veður muni ekki valda
töfum á flutningi kjörgagna. „Ef allt
gengur vel og ekkert sérstakt kemur
upp á, þá reikna ég með að við verð-
um búin kl. þrjú eða hálffjögur,“ segir
hann.
Flogið með atkvæði frá
Egilsstöðum til Akureyrar
Í Norðausturkjördæmi, sem nær
allt frá Siglufirði austur í Djúpavogs-
hrepp, eru 27.316 kjósendur, þar af
13.911 karlar og 13.405 konur.
Misjafnt er hversu snemma kjör-
staðir opna en að sögn Jóns Kr. Sól-
nes, formanns yfirkjörstjórnar, opna
allir stærstu kjörstaðirnir kl. 9. Alls
eru 48 kjördeildir í kjördæminu.
Talning fer fram í KA-húsinu á Ak-
ureyri. Gert er ráð fyrir að byrjað
verði að flokka utankjörfundarat-
kvæði síðdegis og að talning hefjist
um kl. 18. Flytja þarf kjörkassa með
atkvæðum langan veg en Jón gerir
ráð fyrir að atkvæði hafi borist frá
flestum kjörstöðum áður en kjör-
fundi lýkur kl. 22 og fljótlega upp úr
því verði fyrstu tölur úr kjördæminu
birtar. Gerðar hafa verið ráðstafanir
til að sækja atkvæði með flugi á Þórs-
höfn og Egilsstaði þar sem flugvél
mun bíða eftir síðustu atkvæðaköss-
um úr kjördeildum á Austfjörðum.
Jón segist reikna með því að öll at-
kvæði verði komin á talningarstað á
Akureyri nálægt miðnætti.
Atkvæði af Vestfjörðum vænt-
anleg á talningarstað um kl. 1
Í Norðvesturkjördæmi er 21.221
kjósandi, þar af 11.056 karlar og
10.165 konur. Í kjördæminu eru 63
kjördeildir. Stærri kjörstaðir opna kl.
9 en á fámennari stöðum opna kjör-
staðir nokkru síðar eða í síðasta lagi
kl. 12. Talning fer fram í Borgarnesi.
Fyrstu tölur eiga að liggja fyrir fljót-
lega upp úr kl. 22 að sögn Gísla Kjart-
anssonar, formanns yfirkjörstjórnar.
Ljóst er að vegna stærðar kjör-
dæmisins verða atkvæði frá stórum
hluta Vestfjarða ekki með þegar
fyrstu tölur úr kjördæminu verða
birtar. Ákveðið hefur verið að flugvél
verði til reiðu á Ísafjarðarflugvelli kl.
23, sem mun flytja kjörgögn af Vest-
fjörðum, með viðkomu í Bíldudal.
Þaðan verður flogið með kjörkassana
til Reykjavíkur og ekið með þá þaðan
upp í Borgarnes til talningar. Ef allt
gengur að óskum ættu atkvæðin að
vera komin á talningarstað um kl. 1
eftir miðnætti, að sögn Gísla.
Atkvæði í Reykjavík
norður talin í Ráðhúsinu
Í Reykjavíkurkjördæmi norður
eru 42.787 kjósendur, þar af 20.832
karlar og 21.955 konur. Í kjördæminu
eru sex kjörstaðir sem opna allir kl. 9
og verða opnir til kl. 22 þegar kjör-
fundi lýkur.
Talning atkvæða fer fram í Ráð-
húsinu. Lögregla mun byrja að safna
saman kjörkössum á sjötta tímanum
og gert er ráð fyrir að talningarmenn
verða lokaðir inni skömmu fyrir kl. 19
þegar flokkun atkvæðaseðla og taln-
ing hefst, skv. upplýsingum Þórunn-
ar Guðmundsdóttur formanns yfir-
kjörstjórnar.
Kl. 22 verður innsigli rofið á taln-
ingarsalnum og verða fyrstu tölur
birtar strax upp úr kl. 22 hafi allt
gengið að óskum, að sögn hennar.
Standa vonir til að henni verði lokið
fyrir kl. 2.
Í Reykjavíkurkjördæmi suður eru
42.734 kjósendur, þar af 20.739 karlar
og 21.995 konur. Talning atkvæða fer
fram í Hagaskóla.
Í kjördæminu eru sex kjörstaðir,
sem opna allir kl. 9. Um 60 manns
annast talningu og verða þeir lokaðir
inni frá kl. 19 þegar talning atkvæða
hefst. Sveinn Sveinsson, formaður yf-
irkjörstjórnar, gerir ráð fyrir að
fyrstu tölur verði birtar strax upp úr
kl. 22. Óvíst er hvenær takast mun að
ljúka talningu og úrskurða um gildi
atkvæða en Sveinn gerir sér vonir um
að það verði ekki síðar en kl. 2–3,
jafnvel fyrr um nóttina.
Upplýsingar um
hvar á að kjósa
Auglýsingar eru birtar í fjölmiðl-
um í dag með upplýsingum um í
hvaða kjördeildum kjósendur eiga að
kjósa. Í Reykjavík geta kjósendur,
sem hafa aðgang að Netinu, einnig
flett upp á kjörskránni á vef Reykja-
víkurborgar, www.reykjavik.is. Með
því að slá inn kennitölu eða nafn og
heimilisfang fást upplýsingar um
þann kjörstað sem kjósa skal á og í
hvaða kjördeild.
Rúmlega 211 þúsund kjósendur eru á kjörskrá í alþingiskosningunum 2003
Um 17.200
eru að kjósa
í fyrsta sinn
Morgunblaðið/Kristinn
Kjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður undirbjó kosningarnar í Ráðhúsinu í gærdag.
Rúmlega 211 þúsund kjósendur eru á kjör-
skrá í alþingiskosningunum sem fram fara í
dag. Fyrstu atkvæðatalna í öllum kjördæm-
unum sex er að vænta strax eftir að kjör-
stöðum verður lokað upp úr kl. 22.
SKÚLI Magnússon,
húsasmiður og fashana-
bóndi á Tókastöðum á
Austur-Héraði og for-
maður Félags hrein-
dýraleiðsögumanna,
lést á Landspítalanum
við Hringbraut að kvöldi
8. maí, á 59. aldursári,
eftir skamma sjúkdóms-
legu. Banamein hans
var krabbamein.
Skúli fæddist 5. októ-
ber árið 1944 í Reykja-
vík, kjörsonur Magnús-
ar Sæmundssonar
málarameistara og Jó-
dísar Sigurðardóttur húsfreyju.
Magnús lést árið 1947 og fósturfaðir
Skúla var Eyjólfur Stefánsson frá
Bjarneyjum á Breiðafirði.
Skúli lærði húsasmíðar í Reykjavík
hjá Ingimari Haraldssyni byggingar-
meistara og lauk þar meistaraprófi.
Fluttist til Akureyrar og lærði tré-
skipasmíði hjá Slippstöðinni. Á Akur-
eyri kvæntist hann eftirlifandi eigin-
konu sinni, Önnu Einarsdóttur, árið
1971. Þar bjuggu þau í fjögur ár, að
þau fluttu til Reykjavíkur þar sem
Skúli stundaði húsasmíðar. Árið 1976
var hann ráðinn yfir-
verkstjóri á Gunnars-
holti á Rangárvöllum
og þar bjó fjölskyldan í
rúm sex ár. Árið 1983
fluttu þau til Egilsstaða
þegar Skúli var ráðinn
fyrsti umdæmisstjóri
Vinnueftirlits ríkisins á
Austfjörðum. Því starfi
gegndi hann í tólf ár.
Skúli var mikill
áhugamaður um útivist
og veiðimennsku. Um
árabil starfaði hann
sem leiðsögumaður
hreindýraveiðimanna
og átti frumkvæði að því sl. vetur að
stofnað var Félag hreindýraleiðsögu-
manna. Var hann kjörinn fyrsti for-
maður félagsins í febrúar sl.
Skúli og Anna keyptu Tókastaði á
A-Héraði fyrir fimm árum og urðu
fyrstu bændur hér á landi til að
stunda fashanarækt. Skúli starfaði
þar til í vetur einnig hjá Minjasafninu
á Egilsstöðum en hann var mikill
handverksmaður á tré og járn.
Þau Anna eignuðust þrjú börn, sem
öll eru uppkomin, og barnabörnin eru
orðin sjö talsins.
Andlát
SKÚLI MAGNÚSSON
ENDANLEG afstaða Búnaðarbank-
ans til nauðasamninga Móa mun ekki
liggja fyrir fyrr en 2. júní þegar
kröfuhafar greiða atkvæði um nauða-
samninga segir Sólon Sigurðsson,
bankastjóri Búnaðarbankans.
Afstaða Búnaðarbankans mun þó
ekki ráða úrslitum um samþykkt eða
synjun nauðasamninganna þar sem
Búnaðarbankinn á, eftir því sem næst
verður komist, aðeins um 13% af þeim
skuldum sem falla undir ákvæði
nauðasamninga en aðrar skuldir Móa
við bankann, sem eru mjög verulegar,
munu vera tryggðar með veðum. Alls
nema skuldir Móa sem falla undir
nauðasamninga um 637 milljónum
króna en eins og fram hefur komið
eru stjórnendur Móa reiðubúnir til
þess að greiða 30% upp í kröfur eða
rúmlega 190 milljónir króna.
Tveir þriðju hlutar kröfuhafa og
handhafar 70% allra krafna á hendur
fyrirtækinu, sem falla undir nauða-
samninga, þurfa að samþykkja samn-
ingana svo þeir gangi í gegn þannig
að afstaða Búnaðarbankans ræður
ekki úrslitum. Mjólkurfélag Reykja-
víkurvíkur (MR) er stærsti einstaki
kröfuhafinn með um fimmtung af
heildarkröfunum. Kristinn Gylfi
Jónsson, stjórnarformaður Móa, seg-
ir að stjórn MR hafi samþykkt að
mæla með að gengið verði að nauða-
samningum við Móa enda telji stjórn-
in það þjóna best hagsmunum félags-
ins.
Hörður Harðarson, stjórnarfor-
maður MR, segir afstöðu félagsins til
nauðasamninga aftur á móti ekki
liggja fyrir, verið sé að kynna fé-
lagsmönnum málið á deildarfundum
þessa dagana. „Það hefur engin
ákvörðun verið tekin enn. Aðalfundur
MR verður haldinn 17. maí og ég geri
ráð fyrir að afstaða okkar muni liggja
fyrir þá.“
Búnaðarbankinn gerir
kröfu um nýtt hlutafé
Samkvæmt áreiðanlegum heimild-
um Morgunblaðsins mun Búnaðar-
bankinn, sem er viðskiptabanki Móa,
hafa gert það að skilyrði í fjárhags-
legri endurskipulagningu Móa að eig-
endur fyrirtækisins eða nýjir aðilar
leggi fram umtalsverðar upphæðir í
nýju hlutafé og þar af verulegan hluta
í peningum. Ekki er enn ljóst hvort
eigendum Móa muni takast það en
framtíð fyrirtækisins veltur á því.
Kristinn Gylfi Jónsson, stjórnar-
formaður kjúklingabúsins Móa, segir
fyrirtækið hafa átt góðar viðræður við
Búnaðarbankann um málefni Móa og
haldið vel áætlun varðandi fjárhags-
lega endurskipulagningu félagsins.
„Við teljum enga endanlega afstöðu
til nauðasamninga komna fram af
hálfu Búnaðarbankans enda hefur
Búnaðarbankinn ekki enn lýst kröf-
um undir nauðasamning. Þá er rétt að
að minna á að Búnaðarbankinn á inn-
an við 15% krafna sem falla undir
samninginn. Ég er hins vegar bjart-
sýnn að vel muni takast um þá samn-
inga sem eru í gangi við Búnaðar-
banka Íslands,“ segir Kristinn Gylfi.
Bankastjóri Búnaðarbanka um nauðasamninga við Móa
Endanleg afstaða bank-
ans liggur ekki fyrir