Morgunblaðið - 06.07.2003, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 06.07.2003, Blaðsíða 37
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6. JÚLÍ 2003 37 Inger Steinsson, útfararstjóri, s. 691 0919 Ólafur Ö. Pétursson, útfararstjóri, s. 896 6544 Bárugötu 4, 101 Reykjavík. S. 551 7080 Vönduð og persónuleg þjónusta. ✝ Ólafur Tryggva-son verk- fræðingur fæddist á Njálsgötu 9 í Reykja- vík 26. mars 1913. Hann lést 26. júní síðastliðinn. Foreldr- ar hans voru Tryggvi Árnason, kirkjusmiður og út- fararstjóri í Reykja- vík, frá Syðra-Lang- holti í Árnessýslu, f. 11.1. 1875, d. 25.8. 1952, og kona hans, Arndís Jónsdóttir, ættuð úr Borgar- firði, f. 22.12. 1884, d. 25.5. 1968. Bróðir Ólafs var Árni Tryggva- son, lögfræðingur og sendiherra, f. 2.8. 1911, d. 25.9. 1985. Ólafur kvæntist Sigríði Ingi- mundardóttur, f. 21.1. 1922, hinn 17. júlí 1943. Þau eiga því 60 ára hjúskaparafmæli síðar í þessum mánuði. Þau bjuggu fyrst á Sól- eyjargötu 23 en árið 1961 fluttu þau á Sunnuveginn. Sigríður er dóttir Ingimundar Bjarnasonar, bónda og síðar járnsmíðameist- ara á Sauðárkróki, f.16.9. 1886, d. 6.3. 1976, og konu hans, Sveins- ínu Bergsdóttur, f. 25.11. 1894, d. 20.12. 1981. Þau Ólafur og Sigríð- ur eignuðust fimm börn sem fædd eru á árunum 1944–1964. Þau eru: 1) Inga Arndís kenn- ari, gift Gunnari Helgasyni tann- lækni. Eiga þau Helgu Þórdísi og Ólaf Arnar og þrjú barnabörn, Brynjar Ísak, Arndísi Björk og Hilmar Jökul; 2) Sigríður, gift Þóri Guðjónssyni bókagerðar- manni. Eiga þau Ingunni og Hrafnhildi og eitt barnabarn, Söru Berglindi; 3) Tryggvi fram- kvæmdastjóri, kvæntur Önnu Ósk Völundardóttur uppeldisfræð- ingi. Eiga þau Bjarna Óskar, Guðnýju Völu, Elínu Láru og Eyrúnu Önnu; 4) Auður list- fræðingur. Á hún Melkorku Sigríði og Arndísi Lóu með Magnúsi Ásgeirs- syni; 5) Hildur hjúkrunarfræðing- ur, gift Andra Helga Sigurjónssyni lands- lagsarkitekt. Eiga þau Hrund, Kol- brúnu og Bryndísi. Ólafur lauk stúd- entsprófi frá MR ár- ið 1932 og prófi í rafmagnsverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn árið 1938. Hann var verkfræðingur hjá Raf- magnseftirliti ríkisins 1938–43 og kennari við Vélskólann í Reykjavík 1940–41. Hann hann- aði og hafði umsjón með bygg- ingu rafveitukerfa víðs vegar um landið á árunum 1946–47. Hann var rafveitustjóri Rafveitu Akra- ness og Rafveitu Borgarness ár- in 1947–1968. Hann stofnaði verkfræðistofu árið 1940 og raf- tækjasmiðju árið 1955 sem hann starfrækti til ársins 1981. Auk þess tók hann að sér verktaka- störf og skrifaði greinar í ýmis tæknitímarit, einkum um rafveit- umál. Ólafur var kjörinn heiðurs- félagi Sambands íslenskra raf- veitna árið 1991 og heiðursfélagi í Rafmagnsverkfræðideild Verk- fræðingafélags Íslands árið 1993. Þá var hann einnig heiðursfélagi í danska verkfræðingafélaginu. Ólafur teiknaði nokkur hús, m.a. eigið íbúðarhús á Sunnuvegi 25. Ólafur var jarðsettur í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudag- inn 3. júlí sl. Sjáðu sóleyjavönd, geymdu hann sofandi í hönd. Þú munt vakna með sól. (Jón Sig.) Það voru öfundsverð forréttindi í menntaskóla á síðari hluta áttunda áratugarins að eiga föður sem var ekki einasta með sérgáfu í stærð- fræði og öllu sem við kom verkviti og tækni heldur var hann vel liðtækur ef þurfti að fara styttri leiðina og bjarga sér fyrir horn í latínu, frönsku og þýsku. Tilefni kallaði á sögu og með beygingarendingum franskra sagna fylgdi frásögnin af meistara Kjarval í París og þjóninum sem hafði kallað hann „peyja“ fyrir fram- an alla (payer=borga). Fimmtíu ár, eða hálf öld, skildu að menntaskólaár okkar feðginanna, það var mikil gæfa að eiga þroskaðan föður og fá þannig hlutdeild í mörgum tímum og sjón- deildarhringjum, eiga nánast per- sónulegt vitni að tuttugustu öldinni yfir matborðinu. Heimilið á Sunnuveginum hefur alla tíð verið miðpunktur stórfjöl- skyldunnar, þangað koma flestir oft í viku, sumir daglega. „Sólarhúsið“ kallaði eitt sinn barnabarnið höfund- arverk afa síns, fyrir það hversu bjart húsið væri jafnvel í svartasta Íslandsmyrkrinu, „eiginlega alveg eins og í himnaríki“. Einhvern tím- ann spurði ég höfundinn út í hugs- unina í húsinu, hver hún væri. Það væri nú svo merkilegt, sagði hann og kímdi, að það væri nákvæmlega enga hugsun að finna í húsinu, þar byggi einmitt sérstaðan. Að vísu, hélt hann áfram, hefði hann sett sér það fyrir- fram að öll herbergin skyldu snúa í suður, en það teldist varla með hugs- unum. „En,„ bætti hann við, „hvað sólskinið varðar, þá áttu um það við hana mömmu þína.“ Ólafur faðir minn dæmdi aldrei og lét sér ekki detta í hug að hafa vit fyr- ir fólki. Hins vegar hvatti hann óspart sitt fólk, var ávallt hlutdræg- ur þegar við áttum í hlut og í sam- ræmi við það leist honum ávallt frá- bærlega vel á það sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann var alltaf tilbúinn að „styrkja gott málefni“ eins og hann orðaði það. Hann hélt því fram að maður ætti einungis það sem maður gæfi, þeirrar lífsafstöðu hans höfum við systkinin öll og fjöl- skyldur okkar notið í ríkulegum mæli. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa, hringdi á kvöldin til að vita hvort hann gæti ekki gert eitthvað fyrir mig daginn eftir – minnti stöð- ugt á að hann hefði nú mun rýmri tíma en áður. Hvort heldur var að sækja barn í skóla og gæta þess eða keyra í aukatíma, skutla hálfum ball- ettflokki heim víðs vegar um Vestur- bæinn ef því var að skipta, ef eitthvað kom upp á með barn og foreldri í vinnu var afinn, fulltrúi nánasta að- standanda, mættur á staðinn með ömmu. Ef undan eru skilin tímabil í útlöndum hafa börn mín notið nánast daglegs samneytis við afa sinn og ömmu. Afi þeirra hafði næman skiln- ing á hugsunarhætti smáfólksins, hann ræddi við börn af fágaðri yfir- vegun og virðingu, mat hreinskilni þeirra og fölskvalausa einlægni, naut spekilegra tilsvara þeirra og átti sitt persónulega trúnaðarsamband við hvert og eitt barnabarnanna. Eða eins og smávaxin afastelpa orðaði það eitt sinn: „Hann afi er besta vin- kona mín.“ Það var alveg sama hversu mörg spil voru tekin, barnið sat alltaf uppi sem sigurvegari. Það mátti þó ekki vera of augljóst, varð að vera þess virði að keppa, þannig að ef teknir voru átta slagir tapaði hann fimm, ef teknir voru sex ólsen- ólsenar tapaði hann fjórum. Þegar foreldri maldaði í móinn og benti á nauðsyn þess að barnið lærði að tapa litu spilafélagarnir hvor á annan með samsærissvip, höfðu aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Meðan barna- barnið lék fjórar nótur með hægri hendi á nemendatónleikunum sat af- inn, teinréttur í sínum bestu fötum, á fremsta bekk fyrir miðju og hlustaði af innlifun og hrifningu. Ef ekki hefði verið fyrir blikið í augunum var ekk- ert sem gaf til kynna annað en að hann sæti á tónleikum hjá virtum konsertpíanista. Á eftir kom ekki annað til greina en að halda sérstak- lega upp á daginn hjá ömmu, gera sér dagamun. Hann sat sjálfur við dúkaðan borðendann í hvítri skyrtu og vestispeysu undir upplýstri gler- myndinni sem æskuvinkona hans, Nína Tryggvadóttir, hafði kompón- erað inn í húsið. Eftir trakteringarn- ar settist hann við píanóið og lék sinn Beethoven. Þótt Ólafur faðir minn yrði fullorð- inn maður í árum talið varð hann aldrei gamall í anda. Hann kvaddi okkur með sóleyjavönd hjá sér sem ungur aðdáandi hafði tínt handa hon- um á Landakotstúninu. Ég hins vegar kveð helsta vel- gerðamann og vin okkar Melkorku Sigríðar og Arndísar Lóu í lífinu með ljóðinu „Vinur að eilífu“ sem afa- stelpa orti fyrir nokkrum árum. Hring eftir hring í dalnum spilar á spil við mig ég fimm hann áttatíu. Við leiðumst ég í regnkápu en hann í frakka. hann er afi minn. Auður. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir.) Hildur Ólafsdóttir. Tengdafaðir minn Ólafur Tryggva- son er látinn eftir langa og viðburða- ríka ævi. Ungur fylgdist hann með fyrstu rafmagnsvirkjun landsins í Ell- iðaárdal sem hafði þau áhrif að hann valdi sér þann starfsvettvang að sjá Íslendingum fyrir nýrri orku, raf- magninu. Eftir stúdentspróf nam hann rafmagnsverkfræði í Kaup- mannahöfn. Lokaverkefni hans var hönnun rafbúnaðar í sementsverk- smiðju á Íslandi, þá hugsuð í Gufunesi og orkuflutningur úr Ljósafossvirkj- un sem þá var að ljúka. Ólafur var einn af frumkvöðlum rafvæðingar á Íslandi. Eftir starf hjá Rafmagnseft- irlitinu kom hann að hönnun og bygg- ingu dreifikerfis raforku á fjölmörg- um stöðum á landinu, m.a. á Suðurnesjum, Akranesi og í Borgar- nesi. Hann var lengi rafveitustjóri Akraness og Borgarness. Ólafur kom einnig að hönnun margra stórra verk- smiðja, sementsverksmiðju, síldar- bræðslum og óteljandi krefjandi verk- efna. Oft vann hann sem verktaki eða í samvinnu við aðra. Sem framhald af þessari starfsemi stofnaði hann og rak eigin raftækjasmiðju, sem framleiddi ýmiss konar tengiskápa fyrir dreifi- kerfi rafveitnanna um allt land ásamt ýmsum flóknum sérverkefnum. Eins og oft er um afburðamenn var hann mjög fjölhæfur. Hann hafði næmt auga fyrir byggingalist enda kominn af kirkjusmiðum. Ólafur teiknaði sjálfur þau hús sem hann byggði á starfsævinni, einbýlishús, iðnaðarhús og sumarhús. Af þeim húsum sést að tilfinning fyrir formi og efni hefur ver- ið honum í blóð borin. Ólafur var agaður og íhugull verk- maður. Hann hafði verklag vísinda- manns og öll hans verkefni, stór og smá, voru hugsuð frá grunni. Fynd- ist honum eitthvert verkefni torleys- anlegt notaði hann verklag sem hann lærði í skóla: Að byrja smátt hverju sinni. Hógværð var honum eðlislæg, sjálfshól ekki, en hann gat gert góð- látlegt grín að sjálfum sér. Hann var viljasterkur og skarpgreindur og hafði lag á að koma sínum málum fram með ljúfmennsku. Ólafur og tengdamóðir mín, Sig- ríður Ingimundardóttir, eignuðust fimm börn. Hann var mikill fjöl- skyldumaður og best leið honum þegar allir í fjölskyldunni voru sam- an komnir, bæði hér í Reykjavík og ekki síður í Suðurkoti, sumarbýli þeirra hjóna, sem allir í fjölskyldunni bera sterkar taugar til. Þau hjón fylgdust vel með börnum sínum og studdu þau í lífinu, leiðbeindu þeim á krókastigum lífsins og hafa alltaf verið traustur bakhjarl. Þegar ég tengdist þessari fjölskyldu í fylgd elstu heimasætunnar þótti mér vænt um að vera tekið eins og einum af börnunum. Fjölskyldan stækkaði, hin systkinin eignuðust einnig maka, börn og barnabörn. Alltaf hafa þau hjón fylgst með öllum afkomendun- um, stutt alla með ráðum og dáð í blíðu og stríðu og ekki síst þá sem mest þurftu á að halda. Tengdamóður mína sem nú missir eiginmann sinn eftir 60 ára farsælt hjónaband bið ég góðan Guð að styrkja á þessum erfiðu tímamótum í lífi hennar. Gunnar Helgason. Góður maður er nú kært kvaddur eftir góð og elskuleg kynni til 25 ára. Sem tengdafaðir reyndist Ólafur mér og mínum afar góður. Einstakur afi sem fylgdist ávallt af vakandi áhuga með barnabörnunum í námi, leik og starfi. Þar var uppbyggingin með jákvæðni og hrósi sem hann var óspar á og kunni svo vel að tjá. Sérstaklega dýrmætar minningar lifa um aðfangadagskvöldin á Sunnó. Ólafur tók á móti öllum í útidyrunum og fagnaði innilega. Þá var hann bú- inn að kveikja upp í arninum og skreyta tréð sem sótt var úr garð- inum. Stundum þóttu þessi jólatré hálf skringilega vaxin en þau voru þá limuð af miklu stærra tré. Alltaf sagði Ólafur okkur skemmtilega sögu um það hvernig hann sá einmitt þetta tré út. Um kvöldið settist hann svo við píanóið og spilaði jólalögin og smáfólkið tók sérstaklega vel undir. Ólafur var mikill náttúruunnandi sem varð svo lánsamur að eignast frí- stundaparadís, Suðurkot í Gríms- nesi. Þar eru Ólafur og eiginkona hans, Sigríður Ingimundardóttir, bú- in með sérstakri alúð og natni og ómældri vinnu að byggja upp um hálfrar aldar skeið algeran sælureit fyrir alla stórfjölskylduna. Þarna naut hann sín alveg sérstaklega vel, varð eiginlega hluti af landinu. Frá Ólafi stafaði kærleik, velvild og hógværð en jafnframt hafði hann sérstaklega fínan húmor. Á 90 ára af- mæli Ólafs nú í vor var yndislegt að upplifa með honum þessi tímamót. Hann, þá nýlega kominn úr erfiðri aðgerð, umvafði fjölskylduna kær- leik og glaðlyndi. Guð blessi Ólaf Tryggvason með þökk fyrir allt og allt. Þórir Guðjónsson. Í dag er höfðingi kvaddur. Ekki fór sá með fyrirgangi um óðul sín heldur með góðlátlegri kímni, greind og tillitssemi. Mig langar að minnast hans og þakka fyrir allar okkar sam- vistir. Ég get með sanni sagt að öll mín fullorðinsár hafi ég verið undir handarjaðri hans, notið ráða hans og aðstoðar. Alltaf gat verkfræðingur- inn reiknað út og hannað bestu lausnirnar. Þegar ég kynntist Ólafi var hann kominn á fullorðinsár og var að draga saman seglin í fyrirtæki sínu og annasömu lífi, en við Tryggvi um leið að byggja okkar upp. Þá og alla tíð síðan var hann okkar bakhjarl eins og annarra í fjölskyldunni. Hann gaf góð ráð og kíkti yfir öxlina. Þegar við svo fyrir nokkrum árum stofnuð- um danskt fyrirtæki fylgdist hann náið með því og hafði gaman af. Hann samdi dönsk bréf og auglýsingar fyr- ir okkur á svo góðri háskóladönsku að Danir undruðust, sérstaklega þar sem danskan hafði breyst mikið síð- an hann var við verkfræðinám í Dan- mörku. Hann endurnýjaði kynni sín af Kaupmannahöfn á þessum árum og þá naut sín heimsborgarinn Ólaf- ur Tryggvason. Já margs er að minn- ast og mikið að þakka að leiðarlok- um. Upp úr stendur hjálpsemi, stolt og hlýja hans fyrir öllu sínu fólki. Í rúm 60 ár hafa tengdaforeldrar mínir myndað tvíeyki sem mikið starf ligg- ur eftir og var Ólafur stoltur og ánægður með þeirra lífshlaup. Því allt er þetta takið tveggja í tryggð og trú á búið beggja, og hvað má höndin ein og ein í önnum daga nokkrum duga, – að saman fetist brautin bein, þess biðjum við af heilum huga. (Ó.T.) Mér þótti vænt um þegar ég kom í hans hús og hann leit upp úr verki sínu og sagði ,,hún mamma þín er hérna einhversstaðar“. Ég þakka fyrir að fá að vera ,,ein af stelpunum“ – alltaf! Anna Ósk. Á svona stundu streyma minning- arnar fram. Minningar mínar um afa á Sunnó, eins og hann var alltaf kall- aður, eru margar og góðar. Reyndar er erfitt að tala um afa án þess að tala um ömmu líka. Þau voru tvíeyki sem stóð saman og gegndi stóru hlutverki í lífi mínu og margra annarra. Sem fyrsta barnabarnið naut ég þess að vera á heimili þeirra meðan þeirra eigin börn voru ekki flutt að heiman og var oft líf og fjör í kotinu. Notalegt fannst mér að gista en þá sofnaði maður við píanóspil afa og vaknaði við ilminn af hafragrautnum sem hann eldaði á morgnana. Fyrstu 11 árin mín bjuggum við í sama hverfi og kom ég þá ósjaldan á Sunnó eftir skóla til að fá gott í gogginn og spjalla við afa meðan amma stjanaði við okkur. Ófáar gleðistundir hef ég átt í sveitaparadísinni þeirra ömmu og afa en þar var hlaupið og leikið út um tún og móa. Eftirminnilegastur er þó heyskapurinn en í nokkur ár var heyjað á gamla mátann. Þarna kom öll fjölskyldan saman og hjálpaðist að og mikið var gaman að ærslast í heyinu í hlöðunni og úti á túni. Alltaf hefur verið jafn notalegt að koma á Sunnó til ömmu og afa. Afi hafði alltaf mikinn áhuga á öllu því sem ég tók mér fyrir hendur, hvort sem það var námið, vinnan, húsnæð- is- eða bílamál. Þau amma tóku Arnari, manninum mínum, óskap- lega vel og urðu þeir afi mestu mátar og ekki í vandræðum með að spjalla um fagið og prófessora í verkfræði- deildinni sem voru kollegar afa en voru þá að kenna Arnari. Meðan við vorum í námi fórum við oft að vetri til í lestrarferðir í sveitina hjá ömmu og afa og fengum þá húsið þeirra lánað. Já, afi var ríkur og stoltur afi sem átti orðið 22 afkomendur, ásamt góð- um tengdabörnum og tengdabarna- börnum. Honum leið aldrei betur en þegar hann hafði alla hjá sér. Kveð ég góðan afa og bið góðan Guð að gæta ömmu vel. Helga Þórdís. Við minnumst allra góðu stund- anna sem við áttum saman, elsku afi. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir.) Við munum sakna þín. Guð geymi þig. Hrafnhildur, Guðný Vala, Ingunn og Bjarni Óskar. ÓLAFUR TRYGGVASON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.