Morgunblaðið - 20.09.2003, Blaðsíða 57
FÓLK Í FRÉTTUM
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. SEPTEMBER 2003 57
bílar
ALLTAF Á MIÐVIKUDÖGUM
SMÁAUGLÝSING
AÐEINS 995 KR.*
Áskrifendum Morgunblaðsins
býðst smáauglýsing fyrir aðeins 995 kr.*
Pantanafrestur er til kl. 12 á þriðjudögum.
* 4 línur og mynd.
HAFÐU SAMBAND!
Auglýsingadeild Morgunblaðsins sími 569 1111 eða augl@mbl.is
Á FIMMTUDAGINNALLTAF Á MIÐVIKUDÖGUM
Í SINNI annarri leiknu kvikmynd í
fullri lengd fæst Sólveig Anspach við
tvö hugðarefni sem henni liggja klár-
lega nærri – brigðulleika heilsunnar
og seiðmögnun heimahaganna. Í sinni
fyrstu mynd, Hertu upp hugann,
fékkst hún af næmi við baráttuna við
Kröbbu frænku og í Stormviðrinu
tekur hún af sams konar öryggi og
virðingu á því viðkvæma viðfangsefni
sem geðveikin er. Inn í fléttar hún síð-
an aðdráttarafl æskustöðvanna,
æskustöðva sinna og titilpersónunn-
ar, Vestmannaeyjar. Hvernig náttúr-
an getur orkað á sálartetrið, drífandi,
innspírerandi, niðurdrepandi eða
innilokandi – hversu vonlaust lífið
getur verið fyrir einhvern sem stöð-
ugt hefur storminn í fangið.
Stormviðri hefst á geðsjúkrahúsi í
frönskumælandi Evrópulandi, þar
sem ungur og hugsjónasamur geð-
læknir, Cora (Élodie Bouchez), reynir
að ná til sjúklings, konu sem fannst
ráfandi um í geðhræringu og neitar
að tjá sig. Veit því enginn hvað hún
heitur og hvaðan hún kemur. Og eng-
inn tekur það eins nærri sér og Cora.
Kannski vegna þess að hún er ung,
blaut á bak við eyrun og ekki ennþá
búinn að læra að temja sér þessa
nauðsynlegu tilfinningalegu fjarlægð
sem læknar þurfa – eða telja sig þurfa
að hafa – milli sín og sjúklinga sinna.
En kannski einmitt út af því virðist
henni miða betur áfram en kollegum
hennar í að reyna að brjóta skel sjúk-
lingsins. Það virðist allavega vera
eitthvað sterkt á milli þeirra, eitthvað
sem fær sjúklinginn til að treysta
Coru. Áfallið verður því þeim mun
meira fyrir Coru þegar hún fréttir af
því að í ljós hafi komið að sjúkling-
urinn sé íslenskur, heitir Lóa, og hafi
þá þegar verið send beint heim. Sann-
færð um að hún geti enn gert heil-
mikið fyrir þennan íslenska skjól-
stæðing sinn hraðar Cora sér með
næsta flugi norður á hjara veraldar,
alla leið til Vestmannaeyja. Þar hefur
Cora upp á Lóu með hjálp staðar-
læknisins (Baltasar Kormákur) og
kemst að því að þar „á hún sér líf“,
vinnur í frystihúsinu, á eiginmann
(Ingvar E. Sigurðsson) og barn – rétt
eins og ekkert ami að. Kemur líka á
daginn að bæjarbúar hafa aldrei litið
svo á að Lóa sé hjálpar þurfi, allra síst
þurfi hún á utanaðkomandi aðstoð að
halda því eyjaskeggjar hafi alla tíð
hugsað um sjálfa sig og hver annan.
Myndin átti upphaflega að vera
lengri, forsagan ítarlegri, en Sólveig
hvarf frá því. Sem er vel, því einn
helsti styrkurinn myndarinnar felst í
hversu hreint og örugglega hún geng-
ur til verks, dembir áhorfandanum út
í veðurbarða tilvist Lóu rétt eins og
Cora neyðist til að gera í starfi sínu
sem geðlæknir, ekki bara í tilfelli Lóu,
heldur í hvert sinn sem hún fær sjúk-
ling til umönnunar. Hún er myndinni
og annars hæggengri framvindunni
til framdráttar þessi ákveðni Sólveig-
ar í efnisnálgun. Hvert myndskeið er
þannig nýtt í þessari annars þægilega
knöppu mynd sem er rétt tæp ein og
hálf klukkustund. Reyndar hefur
stundum verið fulllangt gengið í hag-
kvæmninni því hrynjandin á til að
verða svolítið ójöfn, klippingar óþægi-
lega knappar og hastarlegar.
Segja má að þessi vegamynd Coru,
eins og Didda hefur sagst sjá mynd-
ina, skiptist í tvo hluta; á sjúkrahús-
inu ytra og í Eyjum. Frásögnin fer vel
af stað ytra og leiðin virðist ganga
greiðlega. Þegar til Vestmannaeyja
er komið virðist þó sem Sólveig og
meðhöfundarnir hennar þrír hafi týnt
svolítið áttum og misst á stöku stað
sjónar á tilgangi ferðar Coru í áttina
að því að verða betri læknir og um-
fram allt betri manneskja. Viðbrögð
heimamanna eru t.a.m. undarlega
neikvæð í garð þessa erlenda læknis
sem lagt hefur á sig heillangt ferðalag
yfir hálft úthafið í þeim tilgangi einum
að rétta vini þeirra, henni Lóu, þá
hjálparhönd sem hún svo greinilega
hefur lengi þurft á að halda. Ekki einu
sinni kollegi Coru, staðarlæknirinn,
fær skilið þessa afskiptasemi hennar.
En á móti kemur að Sólveigu tekst,
með aðstoð tökumannsins Benoît
Dervaux og höfundi tónlistar, Alex-
andre Desplat, listilega vel að fanga
náttúrukraftinn sem þessi hrjóstruga
og afskekkta eyja býr yfir. Þessi átök
og ægilegu andstæður milli náttúru-
fegurðarinnar og innilokunarinnar
sem stormurinn veldur innra og ytra
með Lóu fær mann til að skilja betur
vanlíðan hennar. Frelsisþrána. Löng-
unina til þess að flýja á brott. Langt.
Frá manninum sínum og barni. En þó
fyrst og síðast að flýja þennan há-
vaðastorm sem svo lengi hefur lamið
á hugarfylgsnum hennar. En spurn-
ingin er þó alltaf hvort hún sé eitthvað
betur sett annars staðar, hvort hún
hafi nokkurn kost á að lifa „eðlilegra“
lífi annars staðar en þarna. Þar sem
hún á sinn sess í samfélaginu og henn-
ar er þarfnast, þrátt fyrir allt. Og ein-
mitt í einu fallegasta og áhrifaríkasta
atriði myndarinnar, þar sem hún
dregur áfengisdauðan manninn til
rekkju, rennur þessi grunur að
manni. Að þarna eigi hún að fólk sem
þarf á henni að halda, alveg eins mikið
og hún þarf á því að halda; maðurinn
hennar, og svo auðvitað barnið þeirra.
Einn höfuðstyrkur myndarinnar er
frammistaða leikaranna, jafnt ís-
lenskra sem erlendra. Nærvera Balt-
asars og Ingvars er þrælsterk og
sannfærandi en meginstyrkurinn
felst þó í einstökum samleik þeirra
Bouchez og Diddu sem segja má að
myndin hafi staðið og fallið með.
Bouchez er talin ein efnilegasta leik-
kona Frakka og sýnir hér hvers
vegna. Leikur unga geðlækninn af
mikilli nákvæmni og nær með sínu
fínlega fasi að sannfæra mann um
hversu brothætt Cora er og svo ber-
skjölduð tilfinningalega, af lækni að
vera. Leiksigurinn er á hinn bóginn
Diddu sem er hreint út sagt ótrúlega
góð í erfiðu hlutverki Lóu. Oft hefur
verið sagt að það erfiðasta af öllu fyrir
leikara sé að þurfa að koma túlkun til
skila án orða. Það þarf hún Didda að
gera hér og dregur þessi í stað upp
mynd af Lóu með hverjum andlits-
vöðva, hverri líkamshreyfingu. Henni
hefur svo innilega tekist að „botna í“
Lóu og kafar reyndar það djúpt ofan í
sálartetur hennar að manni verður á
stundum hálf órótt. Svona berskjald-
aða túlkun hefur maður ekki séð í
kvikmynd síðan Björk Guðmunds-
dóttir varð að Selmu í Myrkradans-
aranum. Sólveig á skilið hrós fyrir að
hafa skipað svo vel í þetta hlutverk
Lóu. Fyrir þá dirfsku að kýla á al-
gjörlega óreynda manneskju í faginu
og fyrir að hafa uppgötvað hana
Diddu leikkonu, sem maður vonast
svo sannarlega til með að sjá oftar á
hvíta tjaldinu eða á sviði.
Þrátt fyrir vissa annmarka á hand-
ritinu og ómarkvissa framvindu á
stöku stað hefur Sólveigu tekist líkt
og í Hertu upp hugann að tengjast
viðfangsefni sínu slíkum böndum, náð
að skilja það svo vel, að maður öðlast
sjálfur betri skilning á raunarlífi þess
er glíma þarf við erfiðan sjúkdóm og
sambandi hans við þá er annast hann.
Líkt og Cora þá virðist Sólveig hafa
staðið hér frammi fyrir þeirri spurn-
ingu hversu náið hún getur bundist
viðfangsefni sínu. Báðar vita að með
því að sökkva sér djúpt, gefa sig alla í
það, þá geti árangurinn orðið gæfu-
ríkari, en um leið vita þær að þær
verða að vera á varðbergi. Dramatík-
in má ekki taka yfirhöndina. Af þeim
sökum kann sumum að finnast nálgun
Sólveigar við efnið full fjarlægt og
skorta þá augljósu dramatík sem
sambærilegum myndum á borð við
Rain Man, Nell og I Am Sam var velt
uppúr. En hún bara er ekki að búa til
neitt drama, heldur er hún að reyna
að skilja og varpa ljósi á alvöru fólk,
ekki bara þá sem eiga um sárt að
binda heldur einnig þá sem unna
þeim. Einhverjum kann enn fremur
að finnast sem of fáum spurningum sé
svarað. En þannig er það með ferða-
lögum án endaloka. Það þýðir samt
ekki að þau geti ekki verið gagnleg.
Ferðalag Coru á hjara veraldar hefur
þannig, hvað sem öðru líður, kennt
henni að máttur læknisins hefur sín
takmörk, að henni sé ekki ætlað að
lækna alla. Að sumu fái hún ekki
breytt, aðeins þokað í rétta átt, von-
andi lægt storminn. Og stundum er
það nóg til að Herjólfur sigli.
Með storminn í fangið
Ljósmynd/Jerome Brezillon
Hvað er Lóu fyrir bestu? Baltasar Kormákur, Élodie Bouchez og Didda í
átakaatriði í vel heppnaðri mynd Sólveigar Anspach, Stormviðri.
KVIKMYNDIR
Háskólabíó
Leikstjóri: Sólveig Anspach. Handrit: Sól-
veig Anspach, Cecile Vargaftig, Pierre
Erwan Guillaume, Roger Bohbot. Fram-
leiðendur: Baltasar Kormákur, Luc Dard-
enne, Jean-Pierre Dardenne. Kvikmynda-
taka: Benoît Dervaux. Tónlist: Alexandre
Desplat. Aðalhlutverk: Didda Jónsdóttir,
Élodie Bouchez, Baltasar Kormákur,
Ingvar E. Sigurðsson, Christopher Serm-
et, Nathan Cogan. Íslensk-frönsk-belgísk
2003.
Stormviðri (Stormy Weather) Skarphéðinn Guðmundsson