Morgunblaðið - 05.11.2003, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 05.11.2003, Blaðsíða 25
UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. NÓVEMBER 2003 25 Borgartúni 28,  562 2901 www.ef.is Dönsku Varde viðarofnarnir hafa hlotið sérstaka viðurkenningu í Danmörku, Svíþjóð og Þýska- landi fyrir fullkomna brennslu og lágmarksreykmengun. Smíðaðir úr þykku stáli, tvöfalt byrði og steypt hurð með barnaöryggi. Gæðavara á góðu verði, 34 gerðir fáanlegar. KAMÍNUR - VIÐAROFNAR Borgartúni 28,  562 2901 www.ef.is Dönsku Varde viðarofnarnir hafa hlotið sérstaka viðurkenningu í Danmörku, Svíþjóð og Þýska- landi fyrir fullkomna brennslu og lágmarksreykmengun. Smíðaðir úr þykku stáli, tvöfalt byrði og steypt hurð með barnaöryggi. Gæðavara á góðu verði, 34 gerðir fáanlegar. KAMÍNUR - VIÐAROFNAR Borgartúni 28,  520 7901 & 520 7900 www.ef.is SAGT er, að þannig sé bandarísk- um lögreglumönnum kennt að bregðast við grunsamlegum náung- um. Hið sama mun gilda um hermenn þá, sem nú gegna því hlutverki að leiða írösku þjóðina til frelsis og bræðra- lags. Slík vinnu- brögð kunna að vera nauðsynleg fyrir þá, sem eru um- kringdir fjandmönnum en eiga síður við í samskiptum stjórnvalda og al- mennings. Ég fluttist í Kópavog fyrir ríflega 50 árum, þegar faðir minn gerðist fyrsti prestur safnaðarins og beitti sér fyrir því að reist yrði kirkja sú, sem nú er stolt tákn bæjarins. Þá var sá háttur hafður á, að þeir sem höfðu hug á að reisa sér þak yfir höf- uðið fóru til sveitarstjórans með ósk um lóð. Byggingarfulltrúinn setti síðan kross á uppdrátt svæðisins á þeim stað, sem báðum þóknaðist, en ákvarðanir um skipulag og önnur vandamál, svo sem frárennsli og gatnagerð, voru gjarnan látnar bíða betri tíma og stundum næstu kyn- slóðar. Þá var Kópavogur sambland af sveit og byrjandi þéttbýli, sem blandaðist hvort við annað. Þrátt fyrir þá þróun, sem síðan hefur orðið, og fjölgun sérfræðinga bæjarins í skipulagsfræðum virðist aðferðafræðin lítt breytt. Kópavog- ur hefur nú breyst í bæ og aðeins ör- fá opin svæði standa eftir. Opin græn svæði í þéttbýli eru mikils virði íbúum til unaðsauka. Jafnvel erlend- ar stórborgir, svo sem New York og London, veita íbúum sínum þann munað að eiga aðgang að opnum svæðum til útivistar og tengsla við náttúruna. Eitt síðasta græna svæð- ið, sem eftir stendur í Kópavogi, er Lundstúnið í Fossvogi. Nú stendur til að breyta því í lóðir fyrir háreista steinkastala, sem mynda munu vegg í mynni Foss- vogsdalsins og girða af dalbúana. Auk þess að íbúar Fossvogsdals séu króaðir inni og sviptir hinu fagra út- sýni út á Fossvoginn og hinu óvið- jafnanlega sólsetri vor og sumar yrðu hin náttúrulegu tengsl sjáv- arins og dalsins rofin. Fossvogurinn og aðliggjandi dalur, sem aftur teng- ist Elliðaárdalnum, eru heild, sem ekki má rjúfa og fórna á altari stundarhagsmuna. Auk þessa eru óleyst öll helstu vandamál, sem hið nýja þéttbýli mun skapa, svo sem umferð og mengun bæði hljóðs og ólofts, sem safnast mun fyrir í daln- um, sem þekktur er að veðursæld. Umferðaröngþveiti er nú þegar til staðar á álagstímum, sem mun versna um allan helming. Auk þessa hafa verið kynnt áform um jarðgöng í gegnum Digranesháls og Öskjuhlíð sem framtíðarlausn bifreiða- umferðar svæðisins og gera verður ráð fyrir nauðsynlegum slaufum og tengibrautum ofanjarðar í dalnum. Mun vistvænni lausn yrðu þó brýr, sem tengja mundu Reykjavík, Kópavog og Álftanes í mynni Foss- vogs og Kópavogs, eins og Hrafn Gunnlaugsson benti á fyrir nokkrum árum. Með því að tengja þær hring- vegi, sem færi um gömlu höfnina og áfram Sæbraut og Kleppsveg, gæti Stór-Reykjavíkursvæðið eignast umgjörð, sem veitti vegfarendum út- sýni, sem vart ætti sinn líka og gæti dregið að ferðamenn og verið stolt borgarbúa. Reyndar þyrfti að rífa nokkra steinkumbalda, sem byggðir hafa verið sjávarmegin við Klepps- veginn og byrgja hið fagra útsýni yf- ir „sundin blá“. Framkvæmdir á hálendi Íslands, sem þrengja að tilvist grágæsa, kalla með réttu á umhverfismat. Því vakn- ar sú spurning, hvers náttúra og íbú- ar Stór-Reykjavíkursvæðisins eigi að gjalda, ef fórna má þeirri útivist- arperlu, sem Fossvogurinn með að- liggjandi dal er, án þess að til um- hverfismats komi. Um er að ræða útivistarsvæði, sem ekki má spilla með vanhugsuðum framkvæmdum. Vonandi vakna yfirvöld Kópavogs af vondum draumi og forðast að valda því óafturkræfa umhverfis- slysi, sem háreist blokkabyggð í mynni Fossvogsdalsins mundi verða, og reisa sér þannig skamm- arvarða um ókomna tíð. Er ekki betra að spyrja og rannsaka fyrst og byggja svo í sátt við umhverfi og íbúa en búa við framkvæmd, sem kalla mundi á breyttar ljóðlínur skáldsins Hannesar Hafstein: Þar sem háar hallir, hálfan dalinn fylla, loka ljósi sólar, lífi og heilsu spilla. Að skjóta fyrst og spyrja svo … Eftir Auðólf Gunnarsson Höfundur er íbúi í Fossvogi, læknir og fyrrverandi formaður Nátt- úruverndarfélags Suðvesturlands. Í ÞESSARI stuttu grein langar mig að tæpa á helstu mennt- unarleiðum í kynfræðinni fyrir heil- brigðisstéttir. Ég styðst í því sambandi við innihald skýrslu Alþjóðaheilbrigð- ismálastofnunar- innar sem kom út ár- ið 2000 og ber heitið „Education and treatment in human sexuality: the training of health professionals“. Áhugasömum lesendum vil ég benda á að hægt er að kynna sér skýrsluna í heild sinni á vefslóðinni www.paho.org/English/HCP/HCA/ PromotionSexualHealth.pdf Hvernig eru gæði þjónustunnar tryggð? Í 27 ára gömlum íslenskum lögum er kveðið á um að „gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir“ (lög nr. 25, 1975). Í sömu lögum er tilgreint hverjir (heilbrigðisstarfsfólk og kennarar) skulu veita þessa þjónustu og hvar. Hins vegar hefur ekki farið fram nein sérstök umræða meðal heilbrigðisstarfsfólks eða heilbrigð- isyfirvalda hvort rétt sé að krefjast sérmenntunar í kynfræðum til að tryggja á einhvern hátt faglega þjón- ustu í ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir. Vart þarf að taka fram að viðeigandi sérmenntun í að veita fólki ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barn- eignir hlýtur að vera eitt af því sem tryggir gæði þjónustu í þessum málaflokkum. Starfsheitið kynfræðingur er held- ur ekki lögverndað starfsheiti á Ís- landi. Enn sem komið er getur hver sem er nefnt sig kynfræðing hér- lendis en annars staðar, s.s. í Evrópu, á Norðurlöndunum og í Bandaríkj- unum, er krafist lágmarks mennt- unar til að hægt sé að starfa sem kynfræðingur og nota það starfsheiti. Kynfræðingur á sviði fræðslu, klínískrar vinnu eða rannsókna? Það er hægt að mennta sig í kyn- fræðum á þremur sviðum: í kyn- fræðslu (sexuality education), klín- ískri kynfræði (clinical sexology) sem lýtur að ráðgjöf og meðferð eða kyn- fræðirannsóknum (research sex- ology). Allir sem mennta sig í kyn- fræðum eru kynfræðingar þótt starfsheitin geti verið mismunandi eftir því hvaða svið viðkomandi hefur tekið í sínu námi. Þannig eru kyn- fræðingar ýmist kynlífsfræðari (sex- uality educator), klinískur kynfræð- ingur (clinical sexologist) eða rannsóknarkynfræðingur (research sexologist). Það er hægt að mennta sig í kyn- fræðum á háskólastigi í Evrópu, á Norðurlöndunum (aðallega í Dan- mörku og Svíþjóð) og í Bandaríkj- unum. Þeim sem vilja byrja að kynna sér það kynfræðinám sem í boði er á háskólastigi vil ég benda á að upplýs- ingar um það er að finna á vefslóðinni www.sexology.cjb.net Óteljandi starfsmöguleikar Þeir kynfræðingar sem sérhæfa sig í kynfræðslu verða að tileinka sér ákveðinn þekkingargrunn, læra námskrárgerð í kynfræðslu, þekkja eigin viðhorf í kynferðismálum og kynna sér helstu áhyggjuefni og vanda einstaklinga í kynlífi svo þeir geti vísað í viðeigandi meðferð- arúrræði. Undirrituð, sem er lærður kynfræðingur á þessu sviði frá Pennsylvaníuháskóla 1988, getur tekið undir það með skýrsluhöf- undum að starfsmöguleikar séu æði fjölbreyttir og að mörg verkefni sé að finna, bæði meðal hins opinbera, frjálsra félagasamtaka og innan einkageirans. Síðan ég útskrifaðist sem kynfræðingur hef ég m.a. unnið að forvörnum á sviði alnæmis, verið aðalskipuleggjandi fyrstu rann- sóknar hérlendis á kynhegðun, samið námsefni fyrir ólíka hópa, þýtt leið- beiningar um alhliða kynfræðslu í skólum og stundað kennslu í kyn- fræðum. Kynfræðingar sem starfa á klín- ískum vettvangi, s.s. kynlífsráðgjafar (sex counselors) eða kynlífsþerap- istar (sex therapists), verða að grunni til að læra margt það sama og kynlífsfræðarar. Þar að auki fer mik- ill hluti námsins í að tileinka sér þekkingu á sálarlífi einstaklinga, eðli og orsakir kynlífsvanda og meðferð við kynlífsvanda. Kynfræðingar geta bætt við menntun sína, hafi þeir hug á að víkka starfssvið sitt. Sjálf lauk ég tveggja ára námi í samtals- meðferð (psykoterapi) frá Grá- bræðrastofnuninni í Kaupmannahöfn árið 2001. Þriðja og síðasta starfssvið kyn- fræðinnar er á vettvangi rannsókna. Kynfræðingar sem velja að starfa á því sviði sérhæfa sig í að byggja upp þekkingu á kynlífi. Til að það sé mögulegt verða þeir að læra ræki- lega alla þá aðferðafræði sem kemur að bestum notum við að kanna hið flókna fyrirbæri – kynlíf. Það er reg- inmunur á að kanna sálarlíf, viðhorf, og hegðun í kynferðismálum en til dæmis málhelti eða gufuhvolf jarðar. Samstarf heilbrigðisstétta Að lokum langar mig að segja lít- illega frá kynfræðiklíník (sexologisk klinik) sem starfrækt er á Ríkisspít- alanum í Kaupmannahöfn, en þar starfar hópur fagfólks úr mörgum heilbrigðisstéttum. Á kynfræðikl- íníkinni fer fram meðferð kynlífs- vandamála, fræðslustarf og rann- sóknarverkefni. Einstaklingum af öllu landinu er vísað þangað til með- ferðar á kynlífsvanda og er þjón- ustan fólki að kostnaðarlausu. Eitt af stærri verkefnum teymisins und- anfarin ár hefur verið að byggja upp meðferð á kynferðisafbrotamönnum í Danmörku en sú meðferð er talin spara umtalsverða fjármuni í heil- brigðis- og dómskerfinu svo og fyr- irbyggja endurtekin kynferðisafbrot. Lokaorð Þrátt fyrir lög sem kveða á um að heilbrigðisstéttir og kennarar eigi að veita ráðgjöf og fræðslu í kynferð- ismálum er umræða um viðeigandi menntun til að sinna því starfi frekar fátækleg. Í greininni hef ég tæpt á helstu menntunarleiðum innan kyn- fræðanna. Menntunarleiðir í kynfræð- um fyrir heilbrigðisstéttir Eftir Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur Höfundur er hjúkrunar- og kyn- fræðingur og starfar á eigin stofu við kynlífsráðgjöf og á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss. ÞAÐ er kannski tímanna tákn á þessari öld markaðs- hyggju og einkavæðingar, að iðnaðarhugtakið hefur breitt úr sér og orðið iðnaður eða iðnrekstur er notað um ólíklegustu hluti, þar sem áður var talað um þjónustu. Forstjóri Ríkisspít- alanna komst svo að orði fyrir 10–20 ár- um, að sjúkrahúsin væru umfangsmesta stóriðja á Íslandi, Ég hrökk við, þegar ég heyrði þessi ummæli, og ég er hræddur um, að þeir Hyppokrates og Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri hefðu orðið hvumsa við, að heyra slíkan tals- máta. Bandaríkjamenn tala reyndar með köldu blóði um lækningaiðnað (medical industry), en það er þeirra mál. Og aðstoðarframkvæmdastjóri OECD segir í við- tali við Morgunblaðið, að það sé mikilvægt að líta á heilbrigðisþjónustuna sem atvinnugrein í sókn, sem eigi að markaðssetja, „halda á loft gæðum og árangri“. Sú var tíðin, að læknum var bannað að auglýsa sig. Þeir áttu ekki að láta hagnaðarvon hafa áhrif á ákvarðanir sínar (uninfluenced by motives of profit), svo að vitnað sé í alþjóðasiðareglur lækna. Flestir Íslendingar tala þó enn um heilbrigðisþjónustu, en ekki heilbrigðisiðnað. Þó tekur fyrst steininn úr, þegar farið er að tala um jarðarfarir sem iðnrekstur. Mig minnir, að fyrir nokkr- um árum hafi útfararstjórar í einkarekstri kvartað undan því, að Kirkjugarðar Reykjavíkur seldu nið- urgreiddar jarðarfarir, og gerðu þeim erfitt fyrir, sem seldu jarðarfarir á frjálsum markaði. Það er munur á hugtökunum iðnrekstur og þjónusta. Þegar þjónusta er veitt er maður að gera það í þágu þjónustuþegans. Hagnaðarvonin á þar ekki að ráða ferðinni. Iðnaður er aftur á móti tengdur hagnaði. Iðn- fyrirtæki eru rekin til að hagnast. Þar er talað um hug- tök eins og markaðssetningu og hráefni, sem ekki fell- ur vel að efninu, þegar átt er við lækningastarfsemi, að maður tali ekki um útfararþjónustu. Gegnum aldirnar hefur þjónusta við sjúka oft verið innt af hendi sem líknarstarf og iðulega án endur- gjalds. En slík starfsemi hefur yfirleitt ekki verið kennd við iðnrekstur eða markað. Þegar farið er að tala um iðnrekstur í þessu sambandi með tilheyrandi sóknarfærum og markaðssetningu og hráefnaöflun er- um við komin á villigötur. Iðnrekstur eða þjónusta Eftir Guðmund Helga Þórðarson Höfundur er fv. heilsugæslulæknir. NÝVERIÐ gáfu yfirvöld við Há- skóla Íslands í skyn að vilji þeirra sé að lög verði samþykkt á Alþingi sem gefi skólanum leyfi til að innheimta skóla- gjöld – allt að 300 hundruð þúsund krónur á ári hverju. Hingað til hefur öll- um verið gert kleift að mennta sig án þess að greiða sérstök skólagjöld. Þetta hefur tíðkast á hinum Norð- urlöndunum og víðar í Evrópu. Þessi stefna hefur gegnt veigamiklu hlut- verki við að jafna stöðu fólks. Stefnan hefur þá sérstaklega létt byrðar ungs fólks og þeirra einstaklinga sem eru að stofna heimili og eignast börn. 0,5% af ríkistekjum Ef Alþingi samþykkir lög sem heimila að HÍ innheimti skólagjöld er talað um að gjöldin yrðu allt að 300 þúsund krónum á ári, sem þýðir að eftir 5 ára nám skuldi hver náms- maður 1,5 milljónir króna í skólagjöld auk vaxta og verðbóta. Þessi hækkun myndi skila ríkissjóði í mesta lagi 1,4 milljörðum á ári sem eru u.þ.b. 0,5% af ríkistekjum. Til samanburðar má geta að samkvæmt fjárlagafrumvarp- inu sem fjármálaráðherra lagði ný- verið fyrir fjárlaganefnd Alþingis munu sóknargjöld til þjóðkirkjunnar á næsta ári nema 1 milljarði og 431 milljón króna. Upphæðin er eins og áður sagði u.þ.b. 0,5% af ríkistekjum og er því nánast sem dropi í haf rík- issjóðs. Það ætti að vera ríkinu auð- velt að safna þessari sömu upphæð á annan hátt. Það má eflaust athuga hvort ekki megi draga úr útgjöldum ríkisins vegna ferða-, risnu- og akst- urskostnaðar. Á árinu 2002 voru út- gjöldin rúmlega 4 milljarðar og höfðu þá hækkað um tæpar 435 milljónir frá árinu áður sem er hækkun upp á rúm 12%. 300 þúsund í dag – enn meira á morgun Ljóst er að 300 þúsund króna skólagjöld á ári hverju og 1,5 millj- ónir eftir 5 ára nám verða náms- mönnum verulega íþyngjandi. Ofan á þessa upphæð bætast svo skuldir vegna framfærslulána, en með teknu tilliti til skatta getur greiðslubyrði þessara lána í dag numið allt að ein- um mánaðarlaunum á ári hverju. Einnig má búast við því að 300 þús- und króna skólagjöld á ári muni hækka líkt og gerst hefur í Breta- landi. Þá eru hámarksskólagjöld í Englandi, Norður-Írlandi og Wales rúmar 145 þúsund krónur á ári. Sam- kvæmt áformum stjórnvalda verða þessi gjöld orðin allt að 390 þúsund innan þriggja ára. Hagsmunir samfélagsins Það er því ljóst að ef tekin verða upp skólagjöld við Háskóla Íslands mun sú stefna lögð fyrir róða að öll- um standi til boða að mennta sig án þess að greiða skólagjöld – stefna sem hefur verið höfð að leiðarljósi hér á landi. Skólagjöldin munu hækka enn meira og jafnframt er fullljóst að ef lög sem þessi verða samþykkt munu gjöldin með tímanum færast neðar í skólakerfið. Stjórnvöld, og þá sérstaklega sá flokkur sem hefur verið með mennta- málinn í 12 ár, verða að fara að opna augun og sýna þessum málaflokki aukinn skilning. Samfélag okkar hef- ur augljósra hagsmuni að gæta af fjölgun fólks með góða háskóla- menntun. Leiðin að því takmarki er ekki að fjársvelta Háskóla Íslands og senda síðan nemendum reikninginn. Eða viljum við kannski að eingöngu útvaldir, þ.e.a.s. hinir efnamestu, geti aflað sér góðrar menntunar? Skólagjöld eru ekki rétta leiðin Eftir Magnús Má Guðmundsson Höfundur situr í stjórn Ungra jafn- aðarmanna í Reykjavík, ungliða- hreyfingar Samfylkingarinnar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.