Morgunblaðið - 11.12.2003, Blaðsíða 20
ERLENT
20 FIMMTUDAGUR 11. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Jólavörur frá Finnlandi
Klapparstíg 44, sími 562 3614
Jólaskeiðar -
gafflar og hnífar
Verð kr. 995 stk.
MEÐ hjálp tölvutækninnar hefur
verið blásið til nýrrar atlögu í 25
Evrópuríkjum gegn vandamáli sem
ráðamönnum hefur lengi sést yfir en
margir komast ekki hjá að heyra –
hávaðamengun í borgunum.
Þessi nýja herferð hefst með því
að kortleggja hávaðann í öllum borg-
um sem eru með meira en 250.000
íbúa og í grennd við helstu þjóðvegi,
járnbrautir og flugvelli í Evrópu-
sambandsríkjunum og löndunum tíu
sem ganga í ESB á næsta ári. Líkt
og röntgengeislar sýna brotin bein
eiga hávaðakortin að sýna hvernig
gnýrinn í bílum, flugvélum og lest-
um „sýkir“ borgirnar og stofnar
heilsu íbúanna í hættu.
París er í fararbroddi í þessari
baráttu og hefur sett kortin á netið á
vefsíðu sem fengið hefur a.m.k.
150.000 heimsóknir. Á kortunum er
hávaðinn sýndur með litum og
grænt táknar þar kyrrð, gult meiri
hávaða, rautt enn meiri og dökkblátt
langvarandi hávaða langt yfir við-
urkenndum hljóðvistarmörkum.
Til að mynda er hringvegur Par-
ísar, helsta umferðaræð borgar-
innar, eins og dökkblá snara þar sem
hávaðinn mælist 76 desíbel, langt yf-
ir 55 desíbelunum sem Alþjóðaheil-
brigðismálastofnunin segir að valdi
„alvarlegu ónæði“. Þvers og kruss
um borgina eru breiðgöturnar eins
og rauð og dökkblá för eftir svipu.
75% íbúanna í þéttbýli
Hávaði hefur angrað Evrópu-
menn að minnsta kosti frá því að
rómverska ádeiluskáldið Juvenal
kvartaði yfir skröltandi hestakerr-
um á bugðóttum götum Rómaborgar
til forna. „Hinir sjúku deyja hérna
vegna þess að þeir geta ekki sofið,“
skrifaði hann. Um 1.800 árum síðar
veggfóðraði franski rithöfundurinn
Marcel Proust herbergið sitt með
korki til að verjast skarkala Parísar í
byrjun aldarinnar sem leið.
Iðnvæðing og farartæki nútímans
hafa orðið til þess að ástandið hefur
versnað. Þessi vandi er sérlega mik-
ill í ríkjum Evrópusambandsins þar
sem yfir 75% af íbúunum, sem eru
núna um 376 milljónir, búa í þéttbýli
þar sem hávaðinn er mestur.
Hávaðinn er ekki bara óþægilegur
því að hann getur verið heilsuspill-
andi. Og fórnarlömbin hafa oft ekki
efni á því að flytja í hljóðlátari
hverfi.
Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheil-
brigðismálastofnunarinnar búa 40%
íbúa ESB-landanna – um 150 millj-
ónir manna – á stöðum þar sem um-
ferðargnýrinn er yfir 55 desíbelum
og meira en 30% verða fyrir svefn-
truflunum vegna hávaða.
Stofnunin segir að langvinnur há-
vaði sé talinn stuðla að óeðlilega
háum blóðþrýstingi og hjartasjúk-
dómum, auk þess sem hann geti
spillt geðheilsu manna.
Þetta vandamál hefur samt lengi
verið neðarlega á forgangslista ráða-
mannanna. Sérfræðingar segja
helstu ástæðuna þá að hávaðinn sé
ekki eins augljós og útblástur bíla
eða mengaðar ár í þéttbýli.
Hljóðvistarsérfræðingar vona að
nýju hávaðakortin verði til þess að
almenningur leggi fastar að ráða-
mönnunum að ráða bót á þessu.
„Margir halda að hávaðinn sé óút-
reiknanlegur og ekki sé hægt að
taka á honum með vísindalegum
hætti,“ sagði Roger Tompsett, hjá
fyrirtæki sem kortleggur hávaðann í
London. „Þar koma kortin að gagni.
Borgararnir og sérfræðingarnir
geta gert þýðingarmeiri athuga-
semdir við skipulagsáætlanir og að-
gerðir gegn hávaða vegna þess að
þeir hafa meiri þekkingu á málinu.“
Evrópusambandið hefur þegar
gefið út tilskipun um að öll aðildar-
löndin og ríkin tíu sem bætast við á
næsta ári verði að leggja fram áætl-
anir fyrir júlí 2008 um aðgerðir til að
draga úr hávaðamengun. Embætt-
ismenn sambandsins segja að lög um
hljóðvist verði einnig endurskoðuð
með það fyrir augum að herða þau.
Yfirvöld í París hafa þegar gripið
til ráðstafana, m.a. fjölgað hljóð-
hindrunum við hringveginn, beint
umferðinni frá íbúðahverfum, lagt
nýjar brautir fyrir sporvagna og
keypt hljóðlátari bíla. Til að mynda
er gert ráð fyrir því að um áramótin
verði fjórðungur 416 öskubíla borg-
arinnar knúinn jarðgasi. Slíkir bílar
eru helmingi hljóðlátari en díselkn-
únu bílarnir sem þeir leysa af hólmi.
Yfirvöld í Brussel hafa þegar not-
að kortin til að ákveða hverjir eigi
rétt á styrkjum til að hljóðþétta
heimili sín.
Herferð gegn hávaða
í evrópskum borgum
París. AP.
AP
Hringvegur Parísar sést hér út um glugga herbergis í hóteli í borginni.
’ 40% íbúa ESB-landanna búa á stöð-
um þar sem umferð-
argnýrinn er yfir 55
desíbelum og meira
en 30% verða fyrir
svefntruflunum
vegna hávaða. ‘
TALSMENN Bandaríkjahers
viðurkenndu í gær að sex afg-
önsk börn hefðu beðið bana í
sprengjuárás er beindist að ísl-
ömskum öfgamönnum í Paktia-
héraði sl. föstudag. Áður hafði
komið fram að níu afgönsk börn
voru drepin fyrir mistök í að-
gerðum Bandaríkjahers í Afg-
anistan á laugardagsmorgun.
Talsmaður Bandaríkjahers,
Bryan Hilferty, sagði að lík
barnanna sex hefðu fundist
undir húsvegg, sem hafði hrun-
ið í kjölfar þess að herþotur
Bandaríkjamanna vörpuðu
sprengjum á bækistöðvar
meints talibanaforingja, Mull-
ah Jilani, um 20 km austur af
borginni Gardez í Paktia-hér-
aði í austurhluta Afganistans.
Sagði Hilferty að lík tveggja
fullorðinna manna hefðu einnig
fundist. Jilani var hins vegar
ekki þeirra á meðal.
Afganar reiðir
Hilferty sagði að bandarískir
hermenn hefðu sætt árás og af
þeim sökum hefði verið ráðist
til atlögu gegn meintum bæki-
stöðvum Jilanis í Paktia. Voru
níu meintir harðlínumenn
handsamaðir og mikið magn
vopna fannst á staðnum.
Á sunnudag höfðu fulltrúi
Sameinuðu þjóðanna og Hamid
Karzai, forseti Afganistans,
fordæmt mistök Bandaríkja-
manna á laugardag, þegar níu
börn biðu bana. Báðu SÞ um
tafarlausa rannsókn og vöruðu
Bandaríkjamenn við því að mis-
tök sem þessi hefðu afar slæm
áhrif á stöðu mála í Afganistan.
Afganistan
Sex börn
til viðbótar
drepin fyr-
ir mistök
Kabúl. AFP.
ÍRANSKI lögmaðurinn og mann-
réttindafrömuðurinn Shirin Ebadi
tók í gær við Friðarverðlaunum
Nóbels við hátíðlega athöfn í Ósló í
Noregi. Í þakkarræðu sinni gagn-
rýndi hún m.a. Bandaríkjastjórn fyr-
ir að hafa hundsað ákvæði mannrétt-
indasáttmála og sniðgengið alþjóða-
lög í nafni „stríðsins gegn hryðju-
verkaógninni“.
Ebadi, sem er 56 ára, tók við verð-
laununum í Ráðhúsi Óslóar. For-
maður norsku nóbelsnefndarinnar,
Ole Mjøs, afhenti henni verðlaunin í
fjarveru Haraldar konungs sem
dvelst í sjúkrahúsi eftir krabba-
meinsaðgerð.
„Á undanliðnum tveimur árum
hafa sum ríki brotið gegn algildum
grundvallarreglum og lögum varð-
andi mannréttindi með því að nota
atburðina 11. september og stríðið
gegn hryðjuverkum sem réttlæt-
ingu,“ sagði Ebadi m.a. í þakkará-
varpi sínu. Hún nefndi ekki Banda-
ríkin en sagði að brotið væri gegn
alþjóðlegum mannréttindaákvæðum
í sumum lýðræðisríkjum Vestur-
landa sem og í mörgum þeirra ríkja
sem væru Vesturlöndum andsnúin.
Íslam og karlaveldi
Ebadi vék einnig að föngum þeim
sem Bandaríkjamenn hafa í haldi í
Guantanamo á Kúbu. Þeir voru flest-
ir teknir höndum í herför Banda-
ríkjamanna gegn stjórn talibana í
Afganistan. Sagði hún að fangar
þessir nytu ekki þeirra réttinda sem
kveðið væri á um í alþjóðlegum sátt-
málum um mannréttindi. Hún vék og
að samþykktum sem gerðar væru á
vettvangi Sameinuðu þjóðanna og
sagði að svo virtist sem ekki væri
sama hvaða ríki ætti í hlut þegar
ályktanir væru samþykktar. Nefndi
hún Írak annars vegar og Ísrael hins
vegar. „Hvers vegna eru sumar
ákvarðanir og samþykktir Samein-
uðu þjóðanna bindandi en aðrar
samþykktir það ekki?“ spurði hún.
„Hvers vegna hefur tugum sam-
þykkta Sameinuðu þjóðanna á síð-
ustu 35 árum varðandi hið hertekna
land Palestínumanna ekki verið
framfylgt? Samt hefur ríkisvaldið og
þjóðin í Írak sætt árásum, innrás,
efnahagsþvingunum og loks hernámi
á síðustu 12 árum,“ bætti hún við.
Shirin Ebadi ítrekaði þá afstöðu
sína að íslamstrú og virðing fyrir
mannréttindum gætu fyllilega farið
saman. Hún vék sérstaklega að
heimalandi sínu, Íran, og sagði að
feðraveldið þar gerði að verkum að
konur sættu mismunun. „Sú mis-
munun sem konur sæta í íslömskum
ríkjum á rót sína í feðraveldi og karl-
lægri menningu sem er ráðandi í
ríkjum þessum en ekki í íslam.“
Hún hvatti gjörvallt mannkyn til
að læra af mistökum sögunnar með
baráttu fyrir því að mannréttindi
væru virt um heim allan, óháð stöðu,
trú og kyni. Jafnframt kvaðst hún
vona að verðlaunin yrðu hvatning
þeim sem berðust fyrir lýðræðisleg-
um stjórnarháttum og virðingu fyrir
mannréttindum í íslömskum ríkjum.
Þetta ætti ekki síst við um konur.
Ebadi klæddist pilsi og skyrtu er
hún tók við verðlaununum í gær og
bar ekki höfuðklút eða hijab sem lög
kveða á um að konur skuli bera í Ír-
an. Strangtrúaðir íslamistar þar hafa
hótað henni lífláti vegna þess að hún
neitar að bera slíkan höfuðbúnað.
„Þörf er á að rödd þín heyrist“
Ebadi hlaut Friðarverðlaunin í ár
vegna baráttu sinnar fyrir lýðræði
og mannréttindum barna og kvenna
í Íran. Í ræðu sinni sagði Ole Mjøs að
norska nóbelsnefndin teldi mikil-
vægt að leggja áherslu á nauðsyn
orðræðu á milli fólks og ólíkra menn-
ingarheima nú þegar íslamstrú væri
fordæmd víða í vestrænum ríkjum.
Mikilvægt væri að ekki gleymdist að
sérhver maður ætti rétt á að njóta
grundvallarmannréttinda. Shirin
Ebadi hefði lagt sitt af mörkum í
þeirri baráttu. „Nafn þitt mun lýsa
upp sögu Friðarverðlaunanna. Við
skulum vona að Friðarverðlaunin
geti einnig orðið til þess að breyt-
ingar verði í þínu kæra heimalandi,
Íran, og í mörgum öðrum hlutum
heimsins þar sem þörf er á að rödd
þín heyrist,“ sagði nefndarformaður-
inn m.a. í ávarpi sínu.
Þegar skýrt var frá því í október
að Shirin Ebadi hlyti Friðarverð-
launin í ár liðu fjórir dagar þar til
stjórnvöld í Íran tjáðu sig um
ákvörðun nóbelsnefndarinnar. Mo-
hammad Khatami, forseti Íran, ósk-
aði henni þá loks til hamingju en lýsti
um leið yfir að Friðarverðlaun Nób-
els væru „ekki sérlega mikilvæg“.
Íranski lögmaðurinn Shirin Ebadi tekur við Friðarverðlaunum Nóbels
Feðraveldi en ekki íslam
stuðlar að kúgun kvenna
Gagnrýndi Bandaríkjastjórn fyrir
brot gegn ákvæðum alþjóðalaga
Ósló. AFP.
Reuters
Shirin Ebadi tekur við Nóbelsverðlaununum úr hendi Ola Mjøs í Ósló í gær.