Morgunblaðið - 28.03.2004, Page 40
LISTIR
40 SUNNUDAGUR 28. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Áboðunardegi Maríu erminnst frásagnar Lúk-asarguðspjalls af því þeg-ar Gabríel erkiengill
heimsækir Maríu og boðar henni
fæðingu Jesú. Þessi hátíðisdagur
var ein þriggja Maríumessa sem
héldu velli eftir siðbótina og var
löngum eini gleðidagur föstunnar. Á
tónleikum Mótettukórs Hallgríms-
kirkju í dag kl. 16, sem haldnir eru í
tilefni af boðunardegi Maríu, verður
flutt tónlist eftir þýsku barokk-
meistarana Jóhann Sebastian Bach
og Dietrich Buxtehude. Flutt verða
þrjú verk, öll byggð á lofsöng Maríu
í Lúkasarguðspjalli.
Aðalverk tónleikanna er Magnifi-
cat eftir Bach og hljómar þetta
meistaraverk nú í fyrsta sinn í Hall-
grímskirkju. Fjölmargir tónsmiðir
hafa samið tónlist við lofsöng Maríu
en engum hefur tekist að fylla hann
jafn mikilli fegurð og tignarleik og
Bach í þessu fræga verki frá 1723.
Magnús Baldvinsson bassasöngv-
ari, sem starfað hefur við góðan
orðstír í Þýskalandi undanfarin ár,
er kominn til landsins til að syngja
með kórnum á tónleikunum. Magn-
ús hefur ekki komið fram hér á landi
síðan í maí 2001 þegar hann söng
bassahlutverkið í óratóríunni Josh-
ua eftir Händel ásamt Schola cant-
orum á Kirkjulistahátíð í Hallgríms-
kirkju. Magnús hefur verið
fastráðinn við óperuna í Frankfurt
frá 1999 og hefur þar sungið fjöl-
mörg stór hlutverk, meðal annars
Sarastro í Töfraflautunni, Sparafu-
cile í Rigoletto, Gremín fursta í Év-
gení Ónegin og Daland í Hollend-
ingnum fljúgandi. Magnús hefur
sungið í ýmsum óperuhúsum beggja
vegna Atlantshafs og má þar nefna
óperurnar í Bonn og Darmstadt,
Flæmsku þjóðaróperuna, Norsku
óperuna og óperurnar í San Franc-
isco og Washington DC. Magnús er
einnig afar eftirsóttur tónleika-
söngvari og hefur til að mynda
sungið með Kölnarfílharmóníunni
og Wurttembergfílharmóníunni,
auk þess sem hann hefur oftsinnis
komið fram með Sinfóníuhljómsveit
Íslands. Í Magnificat Bachs er að-
eins ein aría fyrir bassa, Quia fecit
mihi magna. „Ég hef sungið þessa
aríu í Hallgrímskirkju áður, – það
var fyrir mörgum árum, í messu,
rétt eftir að ég byrjaði að syngja.
En ég hef ekki sungið í verkinu í
heild og hlakka til að takast á við
þetta.“
Syngur mikið í Bandaríkjunum
Magnús hefur talsvert sungið í
óperunni í Washington í Bandaríkj-
unum, en þar er Placido Domingo
listrænn stjórnandi. Þar er Magnús
að syngja með heimsþekktum
söngvurum. „Já, ég var síðast að
syngja í Salóme eftir Richard
Strauss, með Jan-Hendrik Rooter-
ing í hlutverki Jóhannesar skírara
og René Kollo, sem var að syngja
hlutverk Heródesar í fyrsta sinn,
kominn á háan aldur. Þetta var
mjög gaman, en ég er smám saman
að færa mig meira inn á bandaríska
óperumarkaðinn.“
Magnús segir að talsverður mun-
ur sé á óperulífinu vestra og hér í
Evrópu.
„Já, í Þýskalandi er fólk bæði að
vinna í lausamennsku við gestasöng,
en getur líka verið fastráðið. Í
Bandaríkjunum er ekki um það að
ræða. Þar er ráðið í hverja upp-
færslu fyrir sig, – allt lausráðið. Þar
er enga fastavinnu að fá líkt og tíðk-
ast í Þýskalandi. Það er auðvitað
mikið öryggi í því að geta verið með
fast starf í söngnum, en kaup og
kjör betri vestra. Þar er sam-
keppnin líka miklu meiri. Sem dæmi
nefni ég söngvara sem
eru til vara í hlutverk í
Metropolitanóperunni.
Þeir gera kannski ekk-
ert annað en að sitja
inni á hótelherbergi og
bíða eftir kallinu, og fá
3.000 dollara (216 þús-
und krónur) fyrir „sýn-
ingu“. Það er ekki sem
verst, og margir söngv-
arar sem lifa þannig.“
Magnús segist af og
til fá fréttir af óp-
erumálum á Íslandi og
segir að tími hafi verið
kominn til að fastráða
söngvara hér á landi.
„Það eru margir söngv-
arar af minni kynslóð sem hafa farið
út, og koma ekkert til baka út af
þessu ástandi. Það hefur ekki verið
hægt að lifa á óperusöng á Íslandi
eingöngu. Fyrir þá sem hafa þjálfað
sig í þessu starfi er ekkert spenn-
andi að vera í allt annarri vinnu á
daginn, og syngja bara um kvöld og
helgar. Ef það er fjárhagslegur
grundvöllur fyrir fastráðningum á
Íslandi er það gott.“
Magnús segist því miður ekki
syngja nógu oft í kirkjulegum verk-
um, eins og þeim sem hann syngur í
í Hallgrímskirkju í dag. Hann segir
það þó hollt bæði fyrir röddina og
sálina. Hann er þó að feta sig meira
inn á ljóðasöngsbrautina og þar er
stórt og spennandi verkefni fram-
undan. „Þetta er nú varla orðið op-
inbert ennþá, en ég er í laumi að
undirbúa mig fyrir að syngja Vetr-
arferðina eftir Schubert, með píanó-
leikara hér í Þýskalandi. Ég held að
það sé eitt af því erfiðasta sem
söngvari tekur sér fyrir hendur í
ljóðatónlistinni, og sérfræðingar
ráðleggja söngvurum oft að syngja
þetta ekki of snemma á ferlinum.
Þess vegna hef ég verið að bíða með
þetta. Kennarinn minn í Bloom-
ington í Indíana sagði mér að það
hefðu liðið 20 frá því að hann fór að
syngja, þar til hann söng Vetr-
arferðina. Ég hef þó sungið mörg
ljóðin úr því ein og sér, en ekki
flokkinn í heild sinni. Það er bæði
álag að standa einn og syngja í 70
mínútur, og þetta er líka erfitt í
túlkun. Í ljóðasöngnum hefur söngv-
arinn engan búning,
sviðsmynd eða annað
að skýla sér á bak við,
– hann er algjörlega
ber, einn og sér, Vetr-
arferðin er ekki auð-
veld, og túlkun hennar
er vandasöm. Maður
verður að hafa ákveð-
inn þroska til að takast
á við þetta, rétt eins og
með Wagner. Margir
söngvarar komast
aldrei inn í Wagner, og
ég er bara rétt að
byrja á því núna.“
Magnús segir það
alltaf í huga sér að
koma heim til að halda
einsöngstónleika, en það er ekki
komið að því alveg strax. Því er
tækifærið einstakt að heyra í honum
með Mótettukórnum í dag.
Gaman að syngja Bach
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir er
líka búsett erlendis; – í London.
Hún hefur líka haft nóg að gera við
söng úti, en segir alltaf gott að koma
heim að syngja. Hún syngur tvö ein-
söngsatriði í Magnificat, auk sam-
söngsatriða með öðrum einsöngv-
urum. „Ég vann áður með Herði
Áskelssyni kórstjóra í óratoríu
Johns Speight, Barn er oss fætt,
sem var alveg frábært. Hörður er
mjög góður stjórnandi. Ég hef líka
alveg sérstaklega gaman af því að
syngja Bach, og finnst heiður að því
að fá að syngja með Gunnari Guð-
björnssyni.“
Guðrún segir tónlist Bachs eiga
mjög vel við sig og Bach eitt af
uppáhaldstónskáldunum. Hún hefur
líka sungið í mörgum verka hans.
„Ég held sérstaklega mikið upp á
H-moll-messuna og Mattheus-
arpassíuna, og arían Erbarme dich
úr henni er ein af mínum uppáhalds-
aríum. Tónmál Bachs heillar mig
mjög, – hann er stöðugt að koma
manni á óvart, bæði hljómasamsetn-
ingu, framvindunni í tónlistinni og
því hvernig raddirnar spila saman.“
Guðrún Jóhanna segir auðvelt að
skilja hvers vegna tónlist Bachs er
jafn vinsæl og raun ber vitni. „Það
er bara nóg að hlusta, – þetta er frá-
bær tónlist. Ég hef talað við fólk
sem hlustar ekki mikið á klassíska
tónlist, en hefur sérstaklega gaman
af því að hlusta á Bach. Ég talaði
einmitt við þannig mann um daginn,
– sagðist geta hlustað endalaust á
Bach. Þótt tónlistin sé mjög kirkju-
leg finnst mér hún oft tjá miklar til-
finningar þótt það sé á allt annan
hátt en hjá öðrum tónskáldum. Það
er til endalaus stafli af verkum eftir
Bach, en það er eins og honum mis-
takist aldrei, alla vega hef ég ekki
heyrt neitt eftir hann sem ég hef
fengið leið á að hlusta á.“
Gekk 450 km leið
Á efnisskrá tónleikanna er einnig
Magnificat eftir Dietrich Buxtehude
og kantata nr. 10, Meine Seel erhebt
den Herren (Önd mín miklar Drott-
in), eftir Bach. Að því er best er vit-
að hefur kantatan aldrei hljómað áð-
ur hérlendis og verk Buxtehudes
hefur ekki verið flutt á Íslandi í
langan tíma. Það fer vel á því að
flytja tónlist eftir þessi tvö tónskáld
á sömu tónleikum. Buxtehude var
einn af mikilvægustu undanförum
Bachs í þýskri tónlistarsögu og
hafði mikil áhrif á yngri kollega
sinn. Þegar Bach var tvítugur fór
hann fótgangandi 450 km leið til að
kynna sér orgelleik og tónsmíðar
Buxtehudes, sem var organisti við
Maríukirkjuna í Lübeck. Bach hafði
fengið fjögurra vikna starfsleyfi en
var svo heillaður af því sem hann
heyrði í Lübeck að hann sneri ekki
aftur fyrr en fjórum mánuðum
seinna, við litla hrifningu yfirboðara
sinna.
Einsöngvarakvartettinn á tónleik-
unum verður skipaður fjórum af
fremstu söngvurum þjóðarinnar.
Auk Magnúsar og Guðrúnar Jó-
hönnu, sem koma sérstaklega til
landsins til að taka þátt í flutn-
ingnum, syngja Marta Guðrún Hall-
dórsdóttir sópran og Gunnar Guð-
björnsson tenór einsöng á
tónleikunum. Kammersveit Hall-
grímskirkju sér um hljóðfæraleik-
inn, en stjórnandi verður Hörður
Áskelsson.
Það er Listvinafélag Hallgríms-
kirkju sem stendur fyrir tónleik-
unum.
Önd mín miklar drottin
Mótettukór Hallgrímskirkju, einsöngvarar og hljómsveit flytja þrjú verk helguð boð-
unardegi Maríu á tónleikum í Hallgrímskirkju í dag. Bergþóra Jónsdóttir ræddi við tvo
einsöngvaranna, Magnús Baldvinsson bassa og Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópr-
an, sem koma til landsins gagngert til þess að syngja á tónleikunum.
begga@mbl.is
Morgunblaðið/Golli
Marta Halldórsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Hörður Áskelsson stjórnandi.
Magnús Baldvinsson
bassasöngvari.
FIMM ljóðskáld
munu lesa úr ljóð-
um sínum á svo-
nefndu Skálda-
spírukvöldi sem
haldið verður á
veitingahúsinu
Jóni forseta í Að-
alstræti á þriðju-
dag. Skáldin eru
Gunnar Rand-
versson, Sigur-
björg Þrastardóttir, Steinn Krist-
jánsson, Þórdís Björnsdóttir og
Jóhann Hjálmarsson.
Skipuleggjendur Skáldaspíru-
kvöldanna eru Benedikt S. Lafleur
og Gunnar Randversson og eru þau
haldin annað hvert þriðjudagskvöld.
„Þetta eru viðurkennd og þekkt
ljóðskáld ásamt minna þekktum
upprennandi skáldum,“ segir Bene-
dikt og vísar þar með til yfirskrift-
arinnar og segir að hana beri að taka
hæfilega alvarlega.
Upplesturinn hefst kl. 21 og að-
gangur er ókeypis.
Ljóðskáld
lesa upp
Sigurbjörg
Þrastardóttir
Gunnar
Randversson
Jóhann
Hjálmarsson
BUXNAMEYJAR og blómasendlar
er yfirskrift hádegistónleika í Ís-
lensku óperunni kl. 12.15 á þriðju-
dag. Flutt verða
valin atriði úr óp-
erunni Rósaridd-
aranum eftir
Richard Strauss,
tengd saman
með sönglögum
Strauss.
Söguþráður
Rósariddarans
minnir um margt
á söguþráðinn í
Brúðkaupi Fíg-
arós. Marschallin í Rósariddaranum
er vonsvikin ung kona, í svipaðri
stöðu og greifynjan í Brúðkaupi
Fígarós. Þar kemur einnig við sögu
ungur piltur sunginn af konu (buxn-
arulla), en hann er yfir sig ástfang-
inn af Marschallin, rétt eins og í
Brúðkaupi Fígarós þar sem ung-
lingspilturinn Cherubino leggur ást
á greifynjuna. Í Rósariddaranum er
ástin þó gagnkvæm, Marschallin er
yfirbuguð af ást til hins unga sveins.
Söngvarar eru Hulda Björk Garð-
arsdóttir sópran, Sesselja Krist-
jánsdóttir mezzósópran, Garðar
Thór Cortes tenór, Ólafur Kjartan
Sigurðarson baritón og Davíð Ólafs-
son bassi. Kurt Kopecky leikur á pí-
anó.
Hádegistónleikarnir standa í um
40 mínútur.
Rósariddari
í hádegi
Garðar Thór
Cortes
♦♦♦
SIGRÚN Eldjárn rithöfundur og
myndlistarkona er tilnefnd af Ís-
lands hálfu til Norrænu barnabóka-
verðlaunanna árið 2004. Sigrún er
tilnefnd fyrir höfundarferil, sem rit-
höfundur og listamaður. Einnig hafa
verið tilnefndir höfundar frá Svíþjóð,
Danmörku, Finnlandi og Noregi.
Verðlaunin verða veitt í ágúst á nor-
rænni ráðstefnu skólasafnskennara í
Hróarskeldu í Danmörku.
Þess má geta að Kristín Steins-
dóttir hlaut þessi verðlaun í fyrra.
Norrænu barna-
bókaverðlaunin
Sigrún Eldjárn
tilnefnd
♦♦♦