Morgunblaðið - 28.03.2004, Qupperneq 44
MINNINGAR
44 SUNNUDAGUR 28. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Mosfellsdalurinn er
út af fyrir sig nokkurs
konar sérþjóðfélag hér
í sveit, og oftar en ekki
höfum við sem hér bú-
um verið kölluð sér-
þjóðflokkur. Reynir Holm hafði ár-
um saman verið hér með aðstöðu
fyrir hesta sína og átti hér marga
vini. Hann var því þegar orðinn að
dalbúa er hann fluttist að Víði í Mos-
fellsdal með eiginkonu sinni Bryn-
dísi og þremur börnum þeirra.
Bryndísi þótti strax vænt um dalinn
sinn og var hreykin af að vera dalbúi
og vildi hvergi annars staðar búa.
Hún tók fullan þátt í öllum þeim
uppákomum sem hér í dal tíðkast,
svo sem þorrablótum, árlegri gróð-
ursetningu trjáa í sameiginlegum
gróðurreit okkar dalbúa, gamlárs-
kvöldsbrennunni með lúðrasveit og
söng og svo mætti lengi telja.
Ég var svo lánsöm að eiga Bryn-
dísi að nágranna og vinkonu og betri
nágranna gat enginn óskað sér. Hún
var afar traust manneskja og hlý,
glaðlynd og æðrulaus með afbrigð-
um. Hún var alltaf boðin og búin að
hjálpa öðrum og gerði allt á sinn já-
kvæða hátt, sem einkenndi lundar-
far hennar. Reynir og Bryndís
gerðu Víði að fallegu og gestkvæmu
heimili, þau voru sérlega samheldin
hjón og alltaf ánægjulegt að um-
gangast þau. Bryndís greindist með
krabbamein fyrir einu og hálfu ári
og þarf ekki að fara í neinar graf-
götur með það hvílíkt áfall það varð
fyrir hana, fjölskyldu hennar og
vini. Bryndís hlífði öllum við veik-
indum sínum og sýndi ótrúlegan
styrk og æðruleysi – hún vildi sem
minnst um sjúkdóminn tala og tók
þátt í lífinu á sinn jákvæða hátt.
Það er mikil eftirsjá að Bryndísi
fyrir okkur vini hennar. Mestur er
missir Reynis og barnanna, foreldra
hennar og systkina. Við fjölskyldan
á Furuvöllum sendum þeim öllum
okkar dýpstu samúð.
Signý og fjölskylda, Furuvöllum.
Ég var stödd á fögrum stað í
Skotlandi þegar mér barst sú
harmafregn að Bryndís mágkona
mín væri dáin. Allt í einu var þetta
búið. Stundin, sem maður vill ekki
horfast í augu við, var runnin upp.
Fresturinn varð þá ekki lengri. Á
slíkum stundum er eins og almættið
ýti við manni og minni mann á að
njóta þess sem maður hefur og vera
þakklátur fyrir lífið. Þarna var ég í
skemmtiferð með tveimur yngstu
börnunum mínum með góðum vin-
BRYNDÍS
KRISTINSDÓTTIR
✝ Bryndís Kristins-dóttir fæddist í
Reykjavík 8. október
1955. Hún lést á
kvennadeild Land-
spítalans við Hring-
braut 13. mars síð-
astliðinn og fór útför
hennar fram frá Bú-
staðakirkju 23. mars.
um á yndislegum stað,
og á sama tíma var
Bryndís mín að heyja
lokabaráttu sína við
meinið illa sem svo
marga hefur tekið. Það
var sárt að vera fjarri
fjölskyldunni á svona
stundu. Fyrst og
fremst leitaði hugur
minn til Reynis og
barnanna þeirra
þriggja, Bjarka, Svövu
Dísar og Ásdísar. Stöð-
ugt hélt maður í vonina
um að hún myndi jafn-
vel sigrast á þessum
illvíga sjúkdómi. Fyrsta meðferð
hafði gengið svo vel og Bryndís ver-
ið ótrúlega hress að það var með
ólíkindum. Og hún bar þessa þungu
byrði af hógværð og hetjuskap. Það
var ekki hennar stíll að bera áhyggj-
ur sínar á torg. Það var eins og hún
vildi hlífa öllum öðrum við því sem
hún var að ganga í gegnum.
Kynni mín af Bryndísi og fjöl-
skyldunni hófust fyrir um fjórtán
árum, og hefur aldrei borið skugga á
okkar vináttu. Bryndís átti auðvelt
með að laða fólk að sér. Hún hafði
góða nærveru, var ljúf og brosmild.
Þó að samverustundirnar hefðu
mátt vera fleiri, þá hefðu þær ekki
getað orðið betri. Í gegnum hugann
þjóta minningabrot liðinna ára. Af-
mælisboð, jólaboð og grillveislur.
Við áttum notalega stund saman sl.
sumar í sólskini undir húsveggnum
á Víði þar sem við sötruðum saman
kaffi með Reyni og Pálma. Ég er
þakklát fyrir að hafa hitt þær
mæðgur Bryndísi og Ásdísi í lok
febrúar þegar þær komu til mín í
hádeginu. Bryndís var glöð og kát
eins og ávallt. Ekki hvarflaði að mér
að þetta yrði okkar hinsta stund
saman. Mikill er missir elsku Ásdís-
ar litlu sem alla tíð var mjög hænd
að móður sinni. Ég bið Guð að
blessa minningu Bryndísar Krist-
insdóttur. Megi minning hennar
verða börnunum hennar, maka og
ástvinum öllum huggun á þessum
erfiðu tímum.
Og því varð allt svo hljótt við helfregn
þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,
sem ung á morgni lífsins staðar nemur,
og eilíflega, óháð því, sem kemur,
í æsku sinnar tignu fegurð lifir?
Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki
um lífsins perlu í gullnu augnabliki.
(Tómas Guðmundsson.)
Salome.
Ég var á leiðinni frá Seoul í Kóreu
til Brussel og fékk sorgarfréttirnar
rétt áður en við lögðum af stað í loft-
ið. Mig langar því að skrifa nokkur
orð því það er svo skrítið að hugsa
til þess að Bryndís frænka sé dáin
og að ég eigi aldrei eftir að drekka
kaffi eða borða hangikjöt í eldhúsinu
í Langó með henni á jóladag og
aldrei eftir að sjá hana aftur. Mér
datt þó í hug að ég mundi kannski
sjá hana hér uppi í skýjunum ef ég
horfði út um gluggann á flugvélinni
nógu lengi og gæti þá kvatt hana.
Hún væri kannski á sveimi þarna í
háloftunum.
Andlátið kom á óvart þó að ég
vissi hvernig ástandið var. Frá því
að ég kom hingað til Seoul í síðustu
viku kom Bryndís oft upp í hugann.
Ég fór allt í einu að spá í þetta,
hvernig tilfinning það væri að vera
með krabbamein í líkamanum og
þurfa að berjast við eitthvað sem er
inni í eigin líkama. Svo kom þessi
frétt.
Það er erfitt að vera svona langt í
burtu frá ykkur á þessari stundu.
Ég fór allt í einu að hágráta hérna í
háloftunum þegar mér varð hugsað
til ykkar Bjarka, Svövu Dísar, Ás-
dísar, Reynis, ömmu og afa, syst-
kinanna og fjölskyldna.
Við Frank sendum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur og ég faðma
ykkur öll fast í huganum.
Erna Ómarsdóttir.
Elsku hjartans vinkona, mikið af-
skaplega er sárt að þurfa að kveðja
þig í hinsta sinn. En það hlýtur að
vera einhver tilgangur með þessu
öllu saman. Að þú skulir vera hrifin
svona á brott frá þeim sem elskuðu
þig, fjölskyldu og vinum. Þér hlýtur
að vera ætlað eitthvert stórt hlut-
verk á öðrum stað. Það kæmi mér
ekki á óvart því það er alltaf þörf
fyrir góðar og fallegar sálir alls
staðar, líka á himnum. Það er ekki
auðvelt, elsku vinkona, að lýsa þeim
tilfinningum sem kvikna þegar þú
nú ert til grafar borin. Þú sem alltaf
varst svo trygg og trú, umburðar-
lynd, hlý og vildir allt fyrir alla gera.
En ég veit að á himnum verður tekið
vel á móti þér og þar mun sál þín lifa
um ókomna tíð. Það hefur myndast
tómarúm í hjörtum okkar sem elsk-
uðum þig, elsku Bryndís, og það
verður ekki fyllt aftur. En við getum
yljað okkur við allar góðu minning-
arnar um þig.
Þú skilur eftir auðlegð þá
sem enginn tekið fær.
Ást í hjarta, blik á brá,
og brosin silfurtær.
Mesta auðinn eignast sá
er öllum reynist kær.
(G.Ö.)
Elsku Reynir, Bjarki, Svava og
Ásdís. Guð varðveiti ykkur og gefi
ykkur styrk í þessari miklu sorg.
Ég kveð þig, elsku vinkona, með
trega en jafnframt með miklu þakk-
læti fyrir að hafa fengið að kynnast
þér. Minning þín mun ætíð lifa í
hjörtum okkar sem elskuðum þig.
Guð geymi þig, elsku Bryndís.
Hulda á Víðigrund.
Ég var svo lánsöm að eignast
Bryndísi sem vinkonu. Við vorum
nágrannar í Mosfellsdal og það var
alltaf gaman að koma á heimili
hennar og Reynis á Víði. Þar ríkti
samstaða og gott andrúmsloft,
Bryndís var fyrirmyndarmóðir sem
sinnti sérlega vel öllu því sem sneri
að fjölskyldunni og heimilinu. Þegar
ég hugsa til hennar núna er mér efst
í huga sterk og hlý kona sem hægt
var að ræða við um hvað sem var og
ætíð var stutt í hláturinn og glensið
hjá henni.
Fyrir hálfu öðru ári greindist
Bryndís með illvígan sjúkdóm og
voru þær fréttir mikið áfall fyrir
hana, fjölskyldu hennar og vini. En
þá kom í ljós einstakur styrkur
Bryndísar og hugarró. Síðastliðið
sumar leit út fyrir að hún hefði unn-
ið bug á veikindum sínum, sumarið
leið og við áttum saman yndislegar
stundir. En í ársbyrjun kom höggið,
sjúkdómurinn tók sig upp á nýjan
leik en þó bjóst enginn við að svo
skammt væri til hinstu stundar.
Bryndís gætti þess að íþyngja aldrei
neinum með veikindum sínum og
gerði sem minnst úr þeim. Hún var
ótrúlega sterk kona.
Bryndís vinkona mín þráði vorið.
Hún ætlaði að planta sumarblómum
við húsið sitt í dalnum sem hún hafði
tekið svo miklu ástfóstri við. Daginn
eftir að hún lést var vor í lofti í Mos-
fellsdal en því fylgdi sorg og tregi.
Ég votta Reyni, börnum þeirra og
öðrum aðstandendum mína dýpstu
samúð.
Þóra Sigurþórsdóttir.
Inger Steinsson,
útfararstjóri,
s. 691 0919
Ólafur Ö. Pétursson,
útfararstjóri,
s. 896 6544
Bárugötu 4, 101 Reykjavík.
S. 551 7080
Vönduð og persónuleg þjónusta.
Kársnesbraut 98 • Kópavogi
564 4566 • www.solsteinar.is
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma
og systir,
ANNA MARGRÉT JÓNSDÓTTIR
frá Akureyri,
búsett í Danmörku,
verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju miðviku-
daginn 31. mars kl. 13.30.
Gustav Behrend, Mette Nilsen,
Auður María Behrend, Mark Uldahl,
Mari Anne Behrend,
Gunnar Jónsson,
Ragnheiður Jónsdóttir,
Pétur Jónsson,
Pálmi Geir Jónsson,
Kristinn Örn Jónsson.
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð vegna
andláts og útfarar sonar okkar bróður og
frænda,
TRAUSTA EYJÓLFSSON,
Klettahrauni 17,
Hafnarfirði,
áður Miðbraut 28,
Seltjarnarnesi,
Sérstakar þakkir fá allir þeir sem hafa sýnt samúð með heimsóknum, bló-
mum og minningarkortum.
Guð veri með ykkur.
Guðrún Árnadóttir, Eyjólfur Jónsson,
Selma H. Eyjólfsdóttir, Gunnar Pétursson,
Oddný Gréta Eyjólfsdóttir, Ólafur Guðbjartsson,
og frændsystkini.
Ástkær sonur minn, bróðir, mágur og frændi,
SIGMUNDUR VIGGÓSSON,
lést á Landspítalanum Fossvogi aðfaranótt
laugardagsins 27. mars.
Jarðarförin verður auglýst síðar.
Kristín Guðmundsdóttir,
Vigdís R. Viggósdóttir, Finnbogi Guðmundsson,
Lilja Viggósdóttir, Magnús Indriðason
og systrabörn.
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
INGÓLFUR AGNAR GISSURARSON,
Kleppsvegi 34,
Reykjavík,
er látinn.
Vilborg Stefánsdóttir,
Guðrún Ingólfsdóttir, Haraldur H. Jónsson,
Gissur Sv. Ingólfsson, Lovísa Þorleifsdóttir,
Sæmundur Kr. Ingólfsson, Sigþrúður Hilmarsdóttir,
Auður Ingólfsdóttir, Ólafur Sigurgeirsson,
Helga Ingólfsdóttir, Pétur Valtýsson,
Arna Ingólfsdóttir, Páll Hreinsson,
barnabörn og barnabarnabörn
MORGUNBLAÐIÐ birtir afmælis- og minningargreinar endurgjalds-
laust alla daga vikunnar. Greinunum má skila í tölvupósti (netfangið er
minning@mbl.is - svar er sent sjálfvirkt um leið og grein hefur borist)
eða á disklingi og þarf útprentun þá að fylgja. Nauðsynlegt er að til-
greina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnusíma og heima-
síma). Tekið er á móti afmælis- og minningargreinum á 1. hæð í húsi
Morgunblaðsins, Kringlunni 1 í Reykjavík, og á skrifstofu Morgun-
blaðsins Kaupvangsstræti 1 á Akureyri. Ekki er tekið við handskrif-
uðum greinum.
Minningargreinum þarf að fylgja formáli með upplýsingum um hvar
og hvenær sá sem fjallað er um er fæddur, hvar og hvenær dáinn, um
foreldra hans, systkini, maka og börn og loks hvaðan útförin verður gerð
og klukkan hvað. Ef birta á minningargrein á útfarardegi verður hún að
berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr.
Birting afmælis- og
minningargreina